1.1 C
Selfoss

Ungu leikmennirnir stíga á stóra sviðið

Vinsælast

Miklar breytingar hafa orðið á meistaraflokksliði Selfoss körfu frá því að tímabilið byrjaði. Liðinu hefur gengið upp og niður það sem af er tímabils en situr þó í 4. sæti deildarinnar, í fullri baráttu um úrslitakeppnissæti.

Þeir sem hafa yfirgefið hópinn eru Srdan Stojanovic, sem var leystur undan samningi, ásamt Noah Glen Saa og Dusan Raskovic, ungir námsmenn sem ákváðu að snúa aftur til heimalanda sinna.

Um áramótin var tekin ákvörðun um að taka fleiri unga leikmenn frá félaginu inn í meistaraflokkinn, enda úr nógu að velja. Hópurinn er nú skipaður sex 16 ára leikmönnum og tveimur 17 ára, en í hópinn bættust þeir Gísli Steinn Hjaltason, Dagur Nökkvi Hjaltalín Svöluson, Fróði Larsen, Sigurður Logi Sigurveinsson, Tristan Máni Morthens, Ari Hrannar Bjarmason, Birkir Máni Sigurðsson og Skarphéðinn Árni Þorbergsson. Birkir Hrafn Eyþórsson og Styrmir Jónasson voru nú þegar komnir inn í hópinn. Allt eru þetta leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokknum.

„Þessir ungu leikmenn, ásamt fleiri yngri leikmönnum, eru framtíð félagsins. Við viljum gefa þeim tækifæri til að spila á hærra stigi með því að taka þá inn í æfingarhóp meistaraflokks ásamt því að leyfa þeim að spila með ungmennaflokknum okkar. Það kemur að því að þeir fái sínar leikmínútur með meistaraflokknum,“ segir Chris Caird, þjálfari meistaraflokks.

Kynslóðaskipti í hópnum

Kynslóðaskipti hafa verið að eiga sér stað í meistaraflokknum undanfarin ár þar sem reynsluboltarnir hafa verið að draga sig úr hópnum af hinum ýmsu ástæðum. Á þessum tíma hefur liðið því þurft að reiða sig á aðstoð atvinnumanna, þó aðeins einn á hverju tímabili, og leikmanna sem hafa notað Selfoss körfu sem stoppistöð áður en þeir fara á stærri svið, eins og t.d. í háskólaboltann út í Bandaríkjunum.

„Við höfum þurft að treysta að mestu á unga leikmenn, bæði innlenda og erlenda, sem koma í liðið vegna þess að við erum með mjög gott og metnaðarfullt starf í akademíunni,“ segir Chris. Þar má t.d. nefna samstarf við efstudeildarliðið Real Betis á Spáni sem hefur viðurkennt akademíu FSu og Selfoss sem framúrskarandi körfubolta „prógram“, en úr því starfi kom til dæmis hinn bráðefnilegi Kennedy Clement, sem er aðeins 20 ára.

Framtíðin björt

Selfoss er orðið eitt af þeim liðum sem er með hvað yngsta leikmannahópinn í deildinni, ef ekki þann allra yngsta, og er æfingahópurinn nú í fyrsta skipti í langan tíma skipaður uppöldum leikmönnum úr heimabyggð. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi hópur mun þróast næstu árin, en eitt er víst, framtíðin er björt. BRV

Nýjar fréttir