3.4 C
Selfoss

Listnám og sýning myndlistarnemenda í FSu

Vinsælast

Myndlistarnemar FSu halda áfram uppteknum hætti að setja upp sýningu í opinberu sýningarrými utan skólans. Nú er það nemendur í framhaldsáfanganum Straumar og stefnur sem fá þjálfun í uppsetningu og kynningu á eigin verkum. Verkin voru unnin á haustönn 2022.

Sýningin fer fram í Listagjánni á Bókasafni Árborgar og stendur yfir dagana 2. -28. febrúar nk. Gestum gefst tækifæri á að upplifa fjölbreytt listaverk, bæði að útliti og innihaldi. Í áfanganum Straumar og stefnur er unnið út frá kenningum í fagurfræði, fjölbreyttum myndgerðum og nemendur hlaða verk sín tilgangi sem tengjast ýmist goðsögnum eða Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Það er margt á seiði á listalínu FSu og áhugi nemenda mikill. FSu státar af fjölbreyttum áföngum á sviði sköpunar. Þar má nefna stafræna smiðju, Fablab, ljósvakamiðlun, leiklist, textíl hönnun, grafíska hönnun, grafíska miðlun ásamt myndlistinni. Áfangarnir eru opnir öllum nemendum skólans, óháð námsbrautum. Einnig má nefna að það er alltaf gefandi og gaman að fá eldra fólk með áhuga á skapandi greinum inn í hinn hefðbundna nemendahóp.

Veggjalistin er sýning sem alltaf er opin áhorfendum en um er að ræða vegg er vísar að bílastæði FSu og er tæplega 100 metra langur. Útkoman er frábær útimyndlistarsýning. Gaman er að segja frá því að fyrrum nemandi okkar á listalínunni, Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir hefur unnið að veggjalist víðs vegar um Selfoss.

Það er stefna okkar að miðla verkum nemenda sem víðast og til þess höfum við vefsíðu á Facebook sem heitir FSu myndlist, nýsköpun og miðlun. Þar má sjá úrval verka úr þeim áföngum sem við kennum. Síðan er nýtt sem kennsluefni en ekki síður fyrir listunnendur að njóta.

Myndlistarkennarar FSu
Lísa, Ágústa og Anna Kristín

Nýjar fréttir