7.3 C
Selfoss

Góðgerðarbás til styrktar Sigurhæðum í Krílafló

Vinsælast

Þau í Krílafló á Selfossi ætla að vera með svokallaðan góðgerðarbás í febrúar. Í góðgerðarbásnum verða seld barna- og fullorðinsföt, útidót og fleira gegn vægu verði. Öll innkoma mun renna óskert til Sigurhæða á Selfossi.

„Þegar ég tók við Krílafló um áramót, voru hér talsvert af óskilamunum sem höfðu dagað uppi. Ég nefndi í einu spjallinu við góða vinkonu mína að ég þyrfti að losa mig við þetta en langaði að gera eitthvað aðeins meira úr því heldur en að fara með í Rauðakross gáminn. 

Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér mundi ég eftir frétt sem ég sá einhverntímann, um fatafjöllin sem eru að myndast í minna þróuðum löndum. Hún kom þá með hugmyndina um að setja upp góðgerðarbás. Mér fannst það alger snilld, fötin fengju nýja eigendur, minni sóun og ég gæti styrkt gott málefni í leiðinni,“ segir Jóhanna Þorvaldsdóttir, eigandi Krílaflóar.

Jóhönnu þykir mikilvægt að vekja athygli á Sigurhæðum og þeirra merkilega starfi. „Sigurhæðir eru tiltölulega ný þjónusta á Selfossi, þó svo að þörfin fyrir þetta merkilega starf hafi alltaf verið til staðar. Mig langaði að vekja athygli á Sigurhæðum og safna eins miklu og mögulegt væri fyrir þetta málefni. Ég hafði samband við Sigurhæðakonur og fékk samþykki þeirra fyrir þessari söfnun. Þær voru svo glaðar með þetta framtak að þær birtust hér margar með fatapoka, eftir tiltekt í skápunum sínum, sem þær vildu gefa í verkefnið“

„Fyrirkomulagið verður þannig að Krílafló skaffar tvo bása endurgjaldslaust. Við verðleggjum vörurnar hóflega, en fólki er velkomið að greiða hærra verð fyrir vörurnar ef það vill styrkja Sigurhæðir aukalega. Engin þóknun verður tekin svo hver einasta króna sem safnast fer rakleiðis til Sigurhæða að söfnun lokinni. Þetta er í raun mjög einfalt. Krílafló vinnur vinnuna, þið verslið og styrkið í leiðinni, Sigurhæðir græða. Við í Krílafló hlökkum mikið til að sjá ykkur og taka á móti framlögum í söfnunina,“ segir Jóhanna að lokum.

Nýjar fréttir