12.3 C
Selfoss

Virkjanir og stóriðja á síðustu öld

Vinsælast

Ég vann stóran hluta míns starfsferils við virkjanir, línulagnir og vegagerð á hálendinu.

Byrjaði við Efrasog 1957 Búrfell 1967 Þórisvatn 1970 og Sigöldu Hrauneyjafoss 1974-82.

Árin 1968-69 vann ég með Sigurði Thorodssyni þegar hannn var að skipulegga vatnasvæði Þjórsár og sá um vinnubúðir og uppihald jarðfræðinga og starfsmanna hans.

Ég kynntist þá öllu vatnasvæðinu frá Hofsjökli að Sigöldu, örnefnum og þeim möguleikum sem Sigurður sá.

Virkjanir og stóriðja á síðustu öld

Á árunum 1950 til 1960 lét Reykjavíkurborg reisa tvær vatnsafls-virkjanir, fyrst Írafoss 1953 og síðan Steingrímsstöð 1959 og fékk til þess fjármagn úr Marshallaðstoð Bandaríkjastjórnar ásamt ríkisábyrgð vegna bygginga Áburðarverksmiðjunar í Gufunesi og Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Þessar framkvæmdir marka upphaf stóriðju á Íslandi.

Árið 1965 var Landsvirkjun stofnuð af Ríkinu og Reykjavíkurborg með yfirtöku á Sogsvirkjunum, og síðan einnig Akureyrarbæjar  með Laxárvirkjun og fleiri smávirkjunum. Fyrsta verkefni Landsvirkjunnar var undirbúningur að Búrfellsvirkjun sem varð möguleg með 1. áfanga Álversins í Straumsvík. Við lok þessa áfanga voru uppi fleiri áform um virkjanir Efri-Þjórsár með uppistöðulóni í Þjórsárverum en fallið var frá honum vegna verndunar álfta og gæsa.

Árið 1969 var lagður vegur frá Búrfell inn að Sigöldu og byggð brú á Tungnaá í stað kláfsins sem þar var.  Á árunum 1970-1972 var hluta Köldukvíslar veitt í Þórisvatn þar sem ákveðið var að nota það sem miðlun  fyrir næstu virkjanir, Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun í Tungnaá. Orku frá þessum virkjunum var búið að ráðstafa í lok byggingartímans til frekari stóriðju og jafnframt var mikil aukning  til almennra nota á þessum árum. 

Vegna ónógar vatnsmiðlunar á vatnasviði Þjórsár var ráðist í Kvíslárveitur sem liggja frá Þórisvatni inn með Þjórsá að austan inn á móts við Hofsjökul. Allt vatn sem kemur í Kvíslárveitur á þessu svæði rann áður frá austri til vesturs í Þjórsár. Einnig var austustu jökulkvísl Þjórsár veitt í veituna. 

Síðustu 10 árin hafa verið byggðar Sultartangavirkjun í Þjórsá og Vatnsfellsvirkjun sem nýtir útrennsli Þórisvatns á meðan það er (toppstöð).  Ennfremur var hafist handa um byggingu Búðarhálsvirkjunar  og einhverjum milljörðum eytt þar í hönnun, aðkomu og jarðvinnu.  Ekki fékkst leyfi fyrir vatnsöflun að sinni með veitu frá Þjórsár til Þórisvatns  svo frekari framkvæmdum var slegið á frest. En Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hafði áætlað að mikilli aukningu mætti ná með frekari aukningu með kvísl frá Arnarfelli hinu mikla. Líklegt er að með þeim kosti mætti auka núverandi afl sem nemur Hvammsvirkjun eða Urriðafossvirkjun.

Síðari virkjanir

Árin 1975-6 var ráðist í Kröfluvirkjun sem var fyrsta gufuaflsvirkjun á Íslandi. Röskun varð á allri þeirri framkvæmd vegna eldsumbrota á svæðinu og var orkuframleiðsla þar ekki fullnýtt  fyrstu árin. Blönduvirkjun var byggð á árunum 1983-91, sem pólitísk byggðaákvörðun án fyrirfram sölu á orku. Virkjunin tengdist inn á byggðalínuna en hringtengingu hennar lauk árið 1984. Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði er svo síðasti kaflinn í þessari sögu sem ég ræði gjarnan síðar.

Almenn orkusala

Öll fyrirfram sala á raforku til stóriðju frá öllum þessum virkjunum hefur komið annarri raforkunotkun í landinu til góða þar sem ekki hefði verið fjárhagslega kleyft að ráðast í byggingu þeirra miðað við almennan markað og smærri einingar sem hefðu leitt til óhagkvæmni í rekstri og flutningi orkunnar. Með tilkomu þessara virkjana hefur verið byggt upp net flutningalína, landsnetið, þannig að dreifing raforku er orðin mikið öruggari og aðgengi betra fyrir alla landsmenn.

Viðhorf til virkjana og orkufreks iðnaðar

Í þessi rúmu 50 ár sem uppbygging virkjana og stóriðju í tengslum við hana hafa staðið yfir, hefur umræðan verið mikil um ágæti eða ókosti hennar. Ákvarðanir voru teknar af ríkisstjórnum hverju sinni. Allar hugsuðu þær fyrst og fremst um almannahag og uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir komandi kynslóðir hvar í flokki sem einstakir menn stóðu.

Viðhorf manna í dag til þessara mála eru allt önnur en voru í upphafi þessa tímabils Umhverfis- og loftmengun voru lítt þekkt hugtök, en eru nú ofarlega í umræðunni en því miður stundum slitin úr samhengi við veruleikann. Kolefnisspor íslenskrar orkuvinnslu er hið lægsta í öllum heiminum og mega ráðmenn þjóðarinnar fara gætilega í að undirgangast ekki um of alþjóðlegar skuldbindingar um útblástursminnkun koltvísýrings í ljósi staðreynda.

Umhverfisáhrif virkjana á Þjórsár og Tungnaársvæðinu eru ekki allar neikvæðar. Almenn umferð hefur opnast inn á svæði sem ekki stóð almenningi til boða til að sjá og skoða fyrir þennan tíma. Minni árstíðasveiflur eru nú á rennsli ánna þar sem miðlanirnar við virkjanir taka þær af að mestu. Mannvirkin, stöðvarhús og stíflur hafa verið og eru látin falla eins vel að landslagi og mögulegt er og má í heild segja að vel hafi til tekist.

Hagur byggðarlaganna sem tengjast  virkjunum

Það vefst ekki fyrir neinum sem til þekkja, að þar sem reistar eru stórar vatnsaflsvirkjanir verða til atvinnutækifæri. Fyrst við byggingu mannvirkjanna og síðan við rekstur, umsjón og viðhald mannvirkja. Þau sveitafélög sem liggja að vatnasvæði Þjórsár hafa öll notið  þessa og ekki síður fasteignagjalda af mannvirkjunum.

Áður en framkvæmdir hófust við virkjun Þjórsár var mikill uppblástur og landeyðing á þessu svæði og ógnaði það byggð á efstu bæjum. Landsvirkjun í samvinnu við Landgræðslu ríkisins hefur unnið við umtalsverða uppgræðslu og landbætur  á þessum svæðum. Við þessar aðgerðir hefur náðst umtalsverður árangur sem sjá má á öllum gróðri á þessu svæði þar sem gróður og skógar þekja stór svæði þar sem áður voru gróðursnauðir sandar.

Niðurstaða

Fullyrða má að Ísland hafi orðið betra og byggilegra við það að ráðist var í þessar virkjanir á þeim rúmlega 70 árum sem síðan eru liðin. Raforkuverð hefur lækkað í kjölfar orkusölusamninganna til stóriðjunnar. Það hefur haft í för með sér bætt lífskjör almennings í landinu. Stóriðjan hefur því sannað sig í að vera góður nýr þegn Íslands sem hefur fært með sér velsæld og hagsbætur fyrir alla Íslendinga. 

Niðurlag

Vont er til þess að vita að  framkvæmdir við  nýtingu vatnasvæðis Þjórsár skuli vera notaðar á neikvæðan hátt í umræðu um náttúru og umhverfismál. Þá er fréttaflutningur fjölmiðla óvilhallur og oft rangur.

Ég vona að afkomendur mínir um komandi framtíð þurfi ekki að tína fjallagrös og blóðberg sér til lífsviðurværis vegna rangra ákvarðana um uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi.

Sigurður Jónsson

Nýjar fréttir