6.7 C
Selfoss

Syndsamlega góðar brownies

Vinsælast

Guðbjörg Pálsdóttir er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil byrja á að þakka Önnu Mæju fyrir áskorunina en ég kemst seint með tærnar þar sem hún hefur hælana! Ég er mjög heppilega gift og er maðurinn minn meiri kokkur svo ég sé frekar um baksturinn á heimilinu. Ég ákvað því í tilefni þess að janúarátaki flestra fer senn að ljúka að skella í syndsamlega góðar brownies. Hún er upphaflega frá meistara Evu Laufey en ég hef aðlagað hana aðeins. Ég hef gert þessa oft og er komin með skothelda aðferð.

Innihaldsefni:

150 g smjör
250 g suðusúkkulaði
200 g sykur
2 stór egg
100 g hveiti
1 tsk vanillusykur
1 msk kakó
140 g hvítt súkkulaði

Best er að byrja á að kveikja á ofninum og stilla hann á 170° C á blástur. Næst er smjör og suðusúkkulaðið brætt saman við vægan hita (kakan er líka góð með smjörlíki fyrir þá sem forðast laktósann). Þegar það er bráðið skal kæla blönduna niður, það er lykilatriði svo hún bræði ekki hvíta súkkulaðið þegar öllu er blandað saman. Egg og sykur eru svo þeytt saman. Á meðan beðið er eftir því er gott að mæla þurrefnin í skál og saxa hvíta súkkulaðið. Þegar súkkulaði-smjörblandan er orðin hæfilega köld og eggin þeytt má blanda öllu út í eggjablönduna og hræra þar til allt er blandað saman, en ekki mikið lengur en það. Einföld uppskrift passar í lítið skúffukökuform en ég tvöfalda hana oftast og set restina í frystinn (mæli þá með að skera þær í bita fyrst). Best er að setja bökunarpappír í botninn áður en deigið er sett í. Þegar deigið er komið í er formið sett í miðjan ofninn og klukkan stillt á 30 mínútur og sett af stað. Þegar klukkan pípir er kakan tekin út. Hún lítur út fyrir að þurfa lengri tíma en svo er ekki. Leyfið henni að kólna aðeins, hún mun falla aðeins en það er allt partur af prógramminu. Ég mæli með að bera hana fram með vanilluís eða rjóma. Njótið!

Ég vil skora á ofurkonuna og góðvinkonu mína Írisi Bachmann Haraldsdóttur að koma með einhverja skemmtilega uppskrift í næstu viku.

Nýjar fréttir