2.3 C
Selfoss

Það er alveg frábær tilfinning að uppgötva eitthvað nýtt

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Ragnhildur H Sigurðardóttir

Ragnhildur H Sigurðardóttir er vistfræðingur og bóndi. Hún er með doktorspróf frá Yale háskóla í Bandaríkjunum og er sjálfstætt starfandi vísindamaður. Hennar helstu umfjöllunarefni eru samspil manns og náttúru á Íslandi síðustu 3-400 ár. Ragnhildur hefur ásamt fjölskyldu sinni ræktað íslenska fjárhundinn í átján ár og hesta töluvert lengur. Helstu áhugamál þar fyrir utan tengjast prjónaskap og öðru handverki. Á heimili Ragnhildar er næstum allt laust veggjapláss hlaðið af bókum og nýverið þurfti þriðjungurinn af eldhúsinnréttingunni að víkja fyrir nýjum bókahillum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Á borðinu hjá mér er stafli af prjónabókum og tímaritum sem ég er að lesa og um það bil 20 kíló af fræðibókum sem ég burðaðist með frá vistfræðiráðstefnu í Skotlandi korter fyrir jól. Þess á milli er ég að lesa vísindaskáldsögur á Kindlinum mínum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég les nánast aldrei aðrar skáldsögur en vísindaskáldsögur og þá einungis í símanum til að spara veggjapláss heima hjá mér. Veggirnir eru fráteknir fyrir fræðibækur, sagnfræðilegar bækur (og þá helst frumheimildir) og prjónabækur. Ég á að mínu mati alveg frábært bókasafn og á það til að sökkva mér svo rækilega niður í einhverjar skræður að ég svara hvorki síma né pósti dögum saman. Það er alveg frábær tilfinning að uppgötva eitthvað nýtt, skapa tengingar og sjá hluti í nýju ljósi.

Ertu alin upp við bóklestur?

Ég var ekki alin upp við að lesið væri fyrir mig nema þegar ég var veik eða þegar ég fékk systur mína til að lesa Grimms ævintýrin. Ég las mig oft í svefn sem barn og sofnaði með bókina á nefinu.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég les nánast allan tímann þegar ég er ekki að prjóna eða vinna á tölvuna. Ég er alveg hætt að vera óþolinmóð og finnst það í raun alveg frábært ef ég næ að bíða nægilega lengi í röð á pósthúsinu, í matvörubúð eða á biðstofu, að ég nái að klára heilan kafla í Kindlinum mínum í símanum. Þegar ég fer að sofa þá stilli ég símann á lægsta birtustig og les þangað til að ég stend sjálfa mig að því að lesa sömu blaðsíðuna þrisvar og legg þá símann frá mér. Þegar þetta er skrifað þá hef ég lesið 233 vikur í röð í kindlinum og af þeim eru sennilega einungis tíu til fimmtán dagar sem ekkert hefur verið lesið. Til þess að trufla mig ekki við lesturinn þá hef ég enga samfélagsmiðla eða leiki á símanum.

Áttu þér einhvern uppáhalds höfund?

Nei, aðallega vegna þess að það er enginn rithöfundur sem ég hef uppgötvað sem kemst yfir að skrifa jafn hratt og ég les. Ég þarf alltaf reglulega að uppgötva nýjan höfund og les þá allt sem viðkomandi hefur skrifað í einum rykk.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Klárlega og þá vísa ég til svarsins hér fyrir ofan um lestrarvenjur.

En hvernig bók myndir þú sjálf skrifa sem rithöfundur?

Sögulega skáldsögu þar sem viðfangsefnið væri sett í raunverulegar umhverfislegar aðstæður á þeim tíma sem sagan ætti að gerast. Þær bækur sem ég hef unnið að eru allar fræðibækur ritaðar á ensku, nema ein sem núna er í vinnslu.

_______________________________________________________

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir