10.6 C
Selfoss

Æðri hönnun Moskvít lítur dagsins ljós

Vinsælast

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít gaf út nýtt lag á dögunum. Hafa þeir verið iðnir við kolann í lagasmíðum en þeir frumfuttu lagið Perfect little wonder á Kótelettunni síðasta sumar.  Moskvít eru að sögn með fullt í gangi, hafa boðið nýja hljómsveitarmeðlimi velkomna og segjast spenntir fyrir undirbúningi útgáfu næsta lags sem mun birtast á streymisveitum þann 17. febrúar nk.

Moskvít skipa þeir Jón Aron Lundberg á píanó, Sigurjón Óli Arndal Erlingsson sem syngur og leikur á bassann og Alexander Örn Ingason á trommur.
Jón Aron hefur búið á ýmsum stöðum á Suðurlandi, lengst af á Flúðum, en er nú búsettur á Selfossi.
Sigurjón Óli sleit bernskuskónum á vestanverðu Snæfellsnesi en flutti suður í Þorlákshöfn 16 ára, hann hóf búskap um 20 ára aldur á Selfossi og flutti fyrir 4 árum til Þorlákshafnar og á þar hús, bíl, konu og ungbarn.
Alexander Örn er fæddur á Akureyri en flutti snemma í Hafnarfjörðinn og lærði alla Hafnfirðinga brandarana sem til eru og flutti svo á Selfoss árið 2006.

„Við vorum að gefa út fyrsta lagið okkar á þessu brakandi ferska ári, en ekki það seinasta. Það heitir Superior Design, sem mun einnig verða nafn næstu plötu. Lagið er taktfast en þó eins og úr öðrum heimi, þar sem gítarinn bergmálar eins og úr annari vídd, hvort sem hann er plokkaður eða látinn væla eins og seiðandi sírena. Texti lagsins vísar í hvernig mannkynið, dýr af æðri hönnun, hefur mátt til að skapa eða tortíma, en stjórnast þó bara af einföldum tilfinningum og hugmyndafræði. Við teygjum okkur inn í hyldýpi alheimsins og reynum að krækja klónum í eitthvað sem gefur okkur tilgang, en vitum ekki hvort hann er að finna þarna úti eða einhvers staðar inn á við,“ sögðu strákarnir í samtali við Dagskrána.

Nýjar fréttir