12.3 C
Selfoss

Hinseginveisla Miðbars og Sviðsins

Vinsælast

Í tilefni af hinseginviku Árborgar ætla þau hjá Miðbar og Sviðinu í miðbæ Selfoss sannarlega að sýna lit með heilum helling af hinsegin viðburðum.

„Við á Miðbar fögnum fjölbreytileikanum og hingað eru öll velkomin. Þess vegna fannst okkur við hæfi að nýta tækifærið og gera eitthvað skemmtilegt í tilefni hinseginviku Árborgar. Mér skilst að þetta sé í fyrsta sinn sem það er alvöru fullorðinsdagskrá á þessum dögum. Ég vil einnig nefna að starfsfólk Friðriksgáfu (Miðbar, Sviðið og Risið) fer á fræðslunámskeið hjá samtökunum 78 svo við séum nokkuð meðvituð um málefni og baráttumál hinsegin fólks á íslandi og við getum komið fram við okkar viðskiptavini með virðingu og skilning. Það lá beint við að fá Kiki Queer Bar til þess að hertaka hús Friðriksgáfu sem hýsir Miðbar og Sviðið þessa helgi. Þau á Kiki er alveg yndisleg og voru meira en til í það,“ segir Hlynur Friðfinnsson, framkvæmdastjóri Friðriksgáfu.

Kiki Queer Bar er ekki bara eini opinberi hinsegin skemmtistaður landsins, heldur einn sá allra skemmtilegasti! Dragdrottningar, uppistandarar, plötusnúðar, söngvarar og aðrir listamenn sjá til þess að allir gestir staðarins eigi ógleymanlegar stundir í hvert sinn sem hann er heimsóttur. Öll eru velkomin til að taka þátt í gleðinni, að sjálfsögðu undir formerkjum hinsegin fólks og þeirra kröfu um virðingu og samstöðu. Kiki Queer Bar er staðsettur á efri hæðum Laugavegs 22, þar sem fyrsti hinsegin staður Íslands, ‘22’ og síðar meir Barbara Sunshine var til húsa.

Dagskrá:

Kiki Queer Bar „TakeOver“ á Miðbar

Fimmtudagur kl: 21:00 Hljómsveitin Eva verður með fría tónleika. Hljómsveitin samanstendur af tónlistarkonunum og sviðshöfundunum Sigríði Eir Zophoníasardóttur og Völu Höskuldsdóttur sem leika kántrískotið femínískt pönk með þýðum og þjóðlegum undirtón. Hljómsveitin Eva er þekkt fyrir töfrandi og líflega framkomu sem kemur áhorfendum sífellt á óvart, kitlar hláturtaugarnar og snertir hjörtun um leið.

Föstudagur: KL 21:00 KIKIOKI Daníel sér um hið landsfræga Kiki karíókí sem hefur fengið það lýsandi nafn KIKIOKI. Hlynur lofar dúndrandi stemningu og gleði.

Laugardagur: Á Miðbar kemur einn besti plötusnúður Kiki og mun sjá um að dansgólfið verði yfirfullt af góðu fjöri frá 00-03. Pop, rokk, diskó, gömul klassík og nýjasta tónlistin, allt í dansvænni blöndu.

Á Sviðið kemur hin frábæra Húsdragdrottning Kiki, Faye Knús, ásamt sínu fagra fylgdarliði en það eru drottningarnar Agatha P og Úlla la Delish. Þessum viðburði viljið þið ekki missa af. Með miðanum sem fæst við dyrnar á vægu verði fylgir vinsælasti drykkur Kiki: „Pussyjuice“.

Nýjar fréttir