11.1 C
Selfoss

Undirbúa samhæfð viðbrögð við mögulegum flóðum í Ölfusá

Vinsælast

Eftir mikla kuldatíð er útlit fyrir miklar sviptingar og snögga hlýnun í lok vikunnar. Á fimmtudag er spáð 0 til 13 stiga frosti á Suðurlandi og á föstudag spáir mikilli úrkomu og hita á bilinu 3 til 11 gráður. Gæti þessi hraða og mikla breyting á hitastigi hæglega valdið asahláku og eru líkur á að klakastíflan sem myndast hefur í Ölfusá komi til með að losna og gæti það valdið vandræðum.

Mynd: dfs.is/hgl.

Almannavarnarráð Árborgar, starfsmenn Sveitarfélagsins í áhaldahúsi, framkvæmda og veitusviði og viðbragðsaðilar lögreglu, björgunarsveitar og Brunavarna fundaði í morgun. Efni fundarins var að teikna upp viðbrögð við mögulegum flóðum í Ölfusá, viðbrögð og upplýsingagjöf sem allir fundargestir voru sammála um að skipti íbúa miklu máli.

Drónamynd frrá Björgunarfélagi Árborgar. Stíflan sést vinstra megin á myndinni. Mynd: bfá.

Kjartan Björnsson, meðlimur í almannavarnarráði Árborgar sagði frá þessu á Facebook-síðu sinni fyrir skemmstu. „Upplýsingar munu verða veittar á heimasíðu Sveitarfélagsins arborg.is. Ítrekað var á fundinum að hann væri undirbúningur og samtal til að samhæfa viðbrögð en ekki vekja ótta íbúa um yfirvofandi hættu en vissulega er óvissa til staðar. Íbúar eru hvattir til þess að beita forvörnum í sínu nærumhverfi eins og að losa um niðurföll og losa snjó af þökum og hreinsa klakamyndun af þakköntum sem gætu valdið slysi. En ef flóð yrði þá eru íbúar nálægt ánni hvattir til þess að eiga sandpoka til að setja á niðurföll svo dæmi séu nefnd. Staða verður tekin aftur á fimmtudag þegar betri sýn verður á veður og veðurspá fyrir föstudag og laugardag. Fram kom tillaga þess efnis að setja upp tvær vefmyndavélar og möguleikar kannaðir út frá staðsetningu og kostnaði, þær myndu nýtast bæði viðbragsaðilum og íbúum.“

Mynd: bfá.

Nýjar fréttir