8.9 C
Selfoss

Dekurvettlingar

Vinsælast

Gleðilegt ár kæru prjónarar!  Árið heilsar okkur með frosti og snjó og þá er ekki úr vegi að gefa uppskrift af undurmjúkum og hlýjum vettlingum. Þeir eru prjónaðir úr garni sem heitir Alice og kemur frá Permin. Þetta er gæða garn, nælonstyrkt alpacca, sem alla jafna er prjónað á prjóna no 8 en í þessum vettlingum notum við prjóna no 4,5 og fáum þannig þétta, hlýja og mjúka vettlinga.

Stærðir:  S/M – M/L
Lengd: 25 – 27 sm. Ummál: 18 – 20 sm.
Garn: Alice frá Permin  1 – 2 dokkur.
Prjónar: Sokkaprjónar no 3,5 og 4,5.

Prjónafesta:  21 l * 34 umf = 10 * 10 sm í sléttu prjóni á prjóna no 4,5, eða þeim prjónum sem gefa sömu prjónafestu. Það er mikilvægt að halda prjónafestunni til að ná réttum árangri. Prjónið alltaf prjónafestuprufu áður en þið hefjist handa og skiptið yfir á smærri eða stærri prjóna ef þarf til að ná réttri prjónafestu.

Skammstafanir:  l = lykkja, sl = slétt, br = brugðin, p = prjónn, umf = umferð, stk =stykki, P = prjónamerki, sm = saman.

Útaukningar:
Auv = aukið út til vinstri. Lyftið bandinu milli lykknanna upp og krossið til vinstri og prjónið slétt.
Auh = aukið út til hægri. Lyftið bandinu milli lykknanna upp og krossið til hægri og prjónið slétt.

Vettlingur: Fitjið upp 40 – 44 l á sokkaprjóna no 3,5. Tengið saman í hring og setjið prjónamerki við upphaf umferðar. Prjónið 6 sm í hring, stroff, 2 sl, 2 br.  Skiptið yfir á prjóna no 4,5 og héðan í frá er prjónað slétt prjón. Fækkið í fyrstu umferð um 2 – 2 l jafnt yfir umferðina = 38 – 42 l.  Prjónið slétt þar til stykkið mælist 7 – 8 sm. Setjið í næstu umferð P eftir 18. – 20. l og annað eftir 20. – 22. l. Aukið út fyrir þumli á milli þessara tveggja P þannig:

Prjónið slétt að P auh, prjónið að næsta P auv, prjónið alla umferðina sl = 4 l á milli P.

Aukið þannig í 4. hverri umferð, alls 6 – 7 sinnum = 50 – 56 l.  Prjónið þar til stykkið mælist 13 – 14 sm. Setjið nú þessar 14 -16 þumallykkjur á hjálparnælu og fitjið upp 2 l í stað þeirra = 38 – 42 l. Fjarlægið P og haldið áfram með slétt prjón í hring þar til stykkið mælist 20 – 22 sm (eða það nær óskaðri lengd að frádregnum 5 sm).

Byrjið nú að fækka lykkjum þannig: *1 sl, 1 l tekin óprjónuð, 1 sl, steypið óprjónuðu l yfir, 13 – 15 l sl, 2 sl saman, 1 sl* endurtakið frá * til * einu sinni enn. Fækkið þannig í þriðju hverri umferð alls 4 sinnum og þar á eftir í hverri umferð 2 sinnum = 14 – 18 l. Í næstu umferð eru 2 l prjónaðar saman allan hringinn = 7 – 9 l. Slítið garnið og dragið það í gegnum lykkjurnar sem eftir eru, gangið vel frá endanum.

Þumall:  Setjið 14 -16 l af nælunni á sokkaprjóna no 4,5 og takið upp 4 nýjar l við ofanvert opið. Til að koma í veg fyrir að göt myndist prjónum við í næstu umferð síðustu l af nælunni og fyrstu nýju l saman og síðustu nýju l með fyrstu l af nælunni saman = 16 – 18 l. Prjónið sl þar til þumallinn mælist 5,5 – 6 sm (eða hann nær óskaðri lengd mínus 0,5 sm). Prjónið nú 2 l saman allan hringinn = 8 – 9 l. Slítið garnið frá og dragið það í gegnum lykkjurnar sem eftir eru. Gangið vel frá endanum.

Prjónið hinn  vettlinginn á sama hátt.

Gangið frá öllum endum. Skolið vettlingana í köldu vatni og leggið þá til þerris.

Hönnun: Permin.

Nýjar fréttir