9.5 C
Selfoss

Ítölsk matar- og menningarveisla á Stracta hótel

Vinsælast

Helgina 27. og 28. janúar mun Michele Mancini (Mike), kokkurinn hans Buffon á hótelinu Stella Della Versilia, sem er í eigu Buffon fjölskyldunnar, stýra dásamlegum galakvöldverðum á Stracta hóteli á Hellu ásamt Hilmari Þóri Harðarsyni og hans kokkagengi á Stracta hótel á Hellu.

Einar Björn (Einsi Kaldi/Freddo) verður á hliðarlínunni til að allt fari vel fram en hann og Mike eru perluvinir.

Andrea Falaschi, mjög þekktur kjötiðnaðarmaður mætir, og verður með námskeið og á bístróinu verður salami og hráskinka frá honum á boðstólum, þ.e. í hádeginu fös., lau. og sun. Hann hefur þróað íslenskt-ítalskt hrá lamb, sjúklega gott og hver veit nema að hann taki smakk með sér?  Allar vörur frá þeim Falaschi feðgum eru án rotvarnarefna, en þær verða til sölu þessa helgi.

Halla Margrét (að öllum líkindum) og Alexander Jarl, óperusöngvarar sem hafa búið og starfað á Ítalíu í fjölmörg ár munu sjá um söng.

Claudio og Marco Savini, frá Savitar mæta með trufflur og truffluvörur. Claudio hefur verið útnefndur „ambassador“ ítölsku trufflunnar erlendis, en hann byrjaði á að kynna hana í Brasilíu fyrir nokkrum tugum ára.  Í dag er hann í miklu vinfengi við marga af þekktustu kokkum heims eins og Alex Atala. Þær verða kynntar og einnig gefið smakk. Hægt verður að kaupa vörur til að taka með heim og svo verða þær auðvitað í einhverjum hlutverkum á galakvöldverðunum og á bístróinu í bland við vörurnar frá Falaschi feðgum.

Bæði Buffon og Ronaldo hafa verið „ambassadorar“ hvítu trufflunnar, fyrir hönd Savitar. Hver veit nema þeir félagar mæti?

Gísli Kristófersson verður líklega með kynningu á sérstökum rétt, þ.e. hvíttrufflu hunang með harðfisk, en hann er afar ljúfur, þ.e. þeir báðir Gísli og harðfiskurinn.

Að lokum mæta Alberto (hann er nokkurs konar Guðfaðir þessa hóps, þar sem hann stóð fyrir fyrstu Íslandsheimsókn megninu af þátttakendum) og Pep fyrrverandi þingmaður af spænska þinginu, en þeir eru einlægir Íslandsvinir. Þeir munu kynna dásamlega eyju skammt frá Ibiza, en sú eyja heitir Formentera og er t.a.m. uppáhalds dvalarstaður Erró.

Þeir verða með kynningu á vínum og mat frá þessari Paradísareyju, ásamt því að ráðleggja fólki um gistingu sem þeir báðir hafa uppá að bjóða.

Páll Magnússon mun sjá um veislustjórn annað kvöldið, en hann kom sérstaklega til Ítalíu í haust til að kynnast þátttakendum og fara yfir dagskrá helgarinnar. Sigmar Vilhjálmsson stýrir hinu kvöldinu en hann er líka búinn að taka hús á öllum þátttakendum á Ítalíu.

Svo verða bæði vín- og matarkynningar, þannig að allir ættu að finna eitthvað sér til hæfis.

Í galakvöldverðunum verður dreypt á vínum, margskonar ítölskum kokteilum og boðið verður upp á marga af bestu réttum Ítala, m.a. sgabei (djúpsteikt brauð) með lardo, bruschettu með kjúklingalifur með hvítri trufflu, ýmsar tegundir af salami frá Falaschi feðgum, hvíttrufflu osta ídýfa o.fl. Ravíóli fyllt með trufflumauki frá Savitar og svo mætti lengi telja. 

Nýjar fréttir