7.1 C
Selfoss

Veitingaskáli á Hörgslandi brann til kaldra kola

Vinsælast

Um miðjan dag í gær kviknaði eldur í veitingaskálanum á Hörgslandi á Síðu og brann húsið til kaldra kola. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður gekk slökkvistarf vel og engin slys urðu á fólki.

Guðmundur Vignir Steinsson, varaslökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á Klaustri sagði í samtali við Vísi að aðstæður hefðu verið krefjandi. „Þetta er bara búinn að vera tómur barningur, hér er búið að vera hávaðarok, norðanátt. Vindurinn stendur í allar áttir hérna undan fjallinu. Hvergi hægt að vera almennilega í skjóli undan reyk og öðru en húsið er alelda og litlu bjargað þar. Það var erfitt að ná í vatn, náttúrulega allir lækir frosnir og annað þannig við þurftum að gera okkur ferð inn á Klaustur til þess að ná í vatn. Slökkviliðið á Vík kom hérna að aðstoða okkur líka.“

Ljóst er að þetta er mikið tjón, en á Hörgslandi sem er 5 kílómetrum austan við Kirkjubæjarklaustur hefur verið rekin ferðaþjónusta í mörg ár.

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitafélagsins Hornafjarðar átti leið hjá skálanum fyrr um daginn og blasti ljóslogandi skálinn við honum.
“Við vonum að uppbygging geti hafist sem allra fyrst enda er Hörgsland mikilvægur og vinsæll áningarstaður meðal ferðafólks,“ segir Sigurjón í færslu á Facebook síðu sinni.

Nýjar fréttir