9.5 C
Selfoss

Farið yfir árið með Dagskránni og dfs.is

Vinsælast

 Janúar:

Ómar Ingi Magnússon frá Selfossi var, í lok desember, valinn íþróttamaður ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna. Ómar spilar handknattleik með Magdeburg í Þýskalandi og varð markakóngur þýsku deildarinnar. Hann lét sér ekki duga að verða markakóngur þýsku deildarinnar, heldur bætti hann um betur og varð markakóngur EM að auki með 59 skoruð mörk. Hinir Selfyssingarnir í landsliðinu voru einnig atkvæðamiklir á mótinu og skorðuðu allir  fimm samtals 114 af 230 mörkum liðsins. Bjarki már 27 mörk, Elvar Jónsson 12 mörk, Janus Daði Smárason 12 mörk og Teitur Örn Einarsson 4 mörk.

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari Norska kvennalandsliðsins í handknattleik var kjörinn þjálfari ársins af Samtökum íþróttafréttamanna í lok desember.

Yfir 50 útköll voru hjá Brunavörnum Árnessýslu um áramótin, meðal annars vegna gróðurelda í Hamrinum fyrir ofan Hveragerði.

Hermann Örn Kristjánsson var ráðinn skólastjóri Sunnulækjarskóla og tók við starfinu þann 1. apríl.

Magnús J. Magnússon, fyrrum skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hlaut Menntaverðlaun Suðurlands fyrir framlag sitt til eflingar leiklistarstarfs meðal grunnskólanema en Magnús hefur í áratugi stýrt leiklistarkennslu í þeim skólum sem hann hefur starfað við.

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og handknattleiksmaðurinn Hergeir Grímsson voru valin íþróttakona- og karl ársins 2021 hjá Ungmennafélagi Selfoss.

SASS gerði samning við Sinfóníuhljómsveit Suðurlands um áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands. Fékk hljómsveitin 2 milljóna króna styrk til að halda skólatónleika og kynna klassíska tónlist fyrir nemendum í grunnskólum á Suðurlandi.

Kórónuveiran náði nýjum hæðum yfir hátíðarnar og mikill umferðarþungi var á Selfossi vegna sýnatöku. Þurfti lögreglan oft að stýra umferð til þess að koma í veg fyrir að stíflur mynduðust um gatnamót í grennd við sýnatökustaði.

Fyrsta hinsegin vika Árborgar var haldin og gekk vonum framar. Margir íbúar tóku virkan þátt í hátíðahöldunum og voru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem lögðu sitt af mörkum til að mála sveitarfélagið í regnbogalitunum.

Skóflustunga var tekin að nýjum 60 barna leikskóla í Vík í Mýrdal en mikil þörf er á fjölgun leikskólaplássa í Mýrdalshreppi þar sem fæðingar hafa sjaldan verið fleiri en undanfarin ár.

Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands styrkti tvö ný rannsóknarverkefni. Styrkþegarnir voru þeir Marco Mancini og Stephen J. Hurling sem fengu hvor um sig 800.000 króna styrk til doktorsverkefna sinna.

Framkvæmdum við stækkun Lækjabotnaveitu lauk, en þær höfðu staðið yfir frá árinu 2019.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Bjarni Már Stefánsson og Júlía Lis Svansdóttir komu liði FSu í átta liða úrslit í Gettu betur.

 Febrúar:

Snjó kyngdi niður og hver lægðin fylgdi þeirri næstu. Fylgdi þessum veðurhamförum mikil ófærð og var vegum víða lokað.

Umfangsmikil leitaraðgerð fór af stað þann 3. febrúar þar sem flugvél með fjóra innanborðs, þrjá erlenda ferðamenn og íslenskan flugmann, hafði lent í Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni en enginn þeirra komst lífs af. Tók það viðbragðsaðila marga daga við verulega erfiðar aðstæður í ljósi óveðurs og mikillar ísingar á vatninu að ná mönnunum upp úr vatninu. En flak vélarinnar var híft úr vatninu þann 22. apríl.

Framboðs- og prófkjörstilkynningar tóku að streyma inn víðsvegar af að Suðurlandi, enda kosningar skammt undan. 

Selfyssingurinn Sr. Dagur Fannar Magnússon var ráðinn prestur í Skálholtsprestakalli og tók við störfum þann 1. apríl.

Bláskógaskóli að Laugarvatni fékk Erasmus + styrk en skólinn hafði tekið þátt í spennandi Erasmus+ verkefni á skólaárinu sem snerist um dyggða- og gildiskennslu.

Sr. Árni Þór Þórsson var ráðinn til stafa í Víkurprestakalli.

Sveitarfélagið Árborg endurnýjaði þjónustusamninga við Golfklúbb Selfoss vegna umhirðu á grasvöllum í sveitarfélaginu og Hestamannafélagið Sleipni vegna fastra verkefna sem hestamannafélagið hefur sinnt undanfarin á, líkt og sumarnámskeiðum, umsjón með viðrunarhólfum og þátttöku í viðburðum í samfélaginu.

Hin stórefnilega Eva María Baldursdóttir frá Selfossi náði þeim frábæra árangri að krækja sér í 4. Sæti í hástökki á norðurlandamótinu í fullorðinsflokki. Eva María sem er aðeins 18 ára gömil var næst yngst keppenda í hástökki og því stórkostlegt að ná fjórða sæti.

Mikið var rætt um húsnæðismál Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, en úttekt Eflu verkfræðistofu leiddi í ljós að hús skólans á Eyrarbakka væri heilsuspillandi og ekki hæft til notkunar. Var húsnæðinu lokað tafarlaust og færðist skólahald yfir í tvö hús á Eyrarbakka. Skólastarf á Stokkseyri var einnig dreift og snúið en einnig fannst mygla í gömlu skólabyggingunni á Stokkseyri.

Í Hveragerði sýndi hinn 14 ára Arnór Ingi Davíðsson mikið snarræði og hárrétt viðbrögð þegar 10 ára bróðir hans, Bjarki Þór Davíðsson, grófst undir snjóhengju sem hafði fallið niður hlíð Hamarsins þar sem þeir voru að leik. Hann staðsetti bróður sinn í flóðinu, gróf frá andliti hans og hringdi í Neyðarlínuna eftir aðstoð. Sá stutti bar sig vel eftir atvikum en slapp með minniháttar áverka.

Vegagerðin stóð fyrir opnum kynningarfundi þar sem farið var yfir stöðuna á nýrri Ölfusárbrú þar sem tilkynnt var að brúin yrði, gengi allt eftir, tekin í notkun árið 2025.

Nýr upplýsingavefur um verkefnið Stafrænt Suðurland var settur í loftið en vefurinn geymir upplýsingar um framgang verkefnisins, sem og nytsamlegar upplýsingar um ýmis málefni sem tengjast starfrænni vegferð.

Hamarshöllin, helsta íþróttamannvirki Hveragerðisbæjar, sprakk í ofsaveðri þann 22. Gat hafði myndast í óveðrinu og mikil mildi þykir að enginn hafi slasast þegar dúkurinn, sem gegnt hafði hlutverki veggja og lofts byggingarinnar fauk af í heilu lagi.

Mynd: Hveragerðisbær.

Mars:

Blandað lið Selfoss varð bikarmeistari í hópfimleikum eftir frábæran árangur á bikarmóti sem fram fór í Dalhúsum í Grafarvogi.

Knattspyrnufélagið Uppsveitir hlaut Grasrótarverðlaun KSÍ fyrir frábært uppbyggingarstarf í knattspyrnu barna og unglinga.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra mótmælti harðlega lokun pósthússins á Hellu og krafðist þess að Íslandspóstur drægi fyrirætlanir um að póstþjónusta á svæðinu yrði einungis í formi pósthólfa og heimsendinga til baka, á forsendum þess að pósthús væri mikilvæg lífæð almennrar þjónustu í hverju samfélagi.

Lið Byko f.v. Maiju Maaria Varis, Árni Sigfús Birgisson, Brynja Amble Gísladóttir, Elin Holst og Sævar Örn Sigurvinsson en einnig er Herdís Rútsdóttir í liðinu.

Suðurlandsdeildin í hestaíþróttum fór af stað með 56 knöpum skráðum til leiks.

Grunnskólinn í Hveragerði átti fjóra vinningshafa í ensku smásagnakeppninni 2021 sem félag enskukennara (FEKÍ) heldur í tilefni af evrópska tungumáladeginum þann 26. September. Skólinn hefur tekið þátt í landskeppninni samfellt frá árinu 2012 með afbragðsgóðum árangri. Eliza Reud forsetafrú afhenti verðlaunin ásamt stjórn FEKÍ. Hróar Ingi Hallsson, Bryndís Klara Árnadóttir, Sigurður Grétar Gunnarsson og Dagbjört Fanný Stefánsdóttir voru þau sem hlutu verðlaun.

Sindri, Johan Rönning og Vatn & veitur opnuðu fagmannaverslun að Austurvegi 69 á Selfossi.

Sigurhæðir héldu upp á ársafmæli sitt. Sigurhæðir bjóða upp á þjónustu fyrir þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi og fór fyrsta starfsárið fram úr björtustu vonum.

Tímamót urðu við Héraðsdóm Suðurlands þegar Hjörtur Októ Aðalsteinsson lét af störfum sem dómari við Héraðsdóm Suðurlands en hann hafði gegnt því starfi frá ársbyrjun 2004. Einar Karl Hallvarðarson, fráfarandi ríkislögreglumaður tók við embættinu þann 28. febrúar.

Sveitarfélagið Árborg hélt upp á árið með glæsilegri árshátíð í nýrri Selfosshöll, en var viðburðurinn sá fyrsti sem haldinn var í höllinni.

Haldið var ball fyrir 8-10 bekkinga á Suðurlandi í Hvíta húsinu á Selfossi þar sem Stuðlabandið hélt uppi stuðinu ásamt Séra Bjössa. Unglingarnir sýndu fyrirmyndarhegðun á ballinu sem var það fyrsta í háa herrans tíð sökum samkomutakmarkana sem einkennt hefðu allar samkomur og fengu stórt hrós fyrir frá forstöðukonu frístundahúsa Árborgar, Dagbjörtu Harðardóttur.

Fullt var útúr dyrum á stofnfundi Ferðafélags Rangæinga á Hellu og var stofnun félagsins samþykkt einróma með dúndrandi lófataki. Starfssvæði félagsins eru héraðsmörk Rangárvallasýslu og nágrennis. Stefnt var að því að skipuleggja meðal annars langar og stuttar, léttar og erfiðari göngur, hjólaferðir og hvers konar útivistar

Emilía Hugrún Sigrar söngkeppni NFSu
Emilía Hugrún tekur lagið.
Mynd: Óli Þorbjörn Guðbjartsson

Emilía Hugrún Lárusdóttir frá Þorlákshöfn sigraði í Söngkeppni NFSu með lagi Ettu James, I´d rather go blind. Og var þar með valinn fulltrúi FSu í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Lóan kom þann 20. mars og gerði sitt besta til þess að kveða burt snjóinn.

Tilkynnt var að Ljósleiðarinn myndi koma til Stokkseyrar og Eyrarbakka með hækkandi sól og að öll heimili á Stokkseyri og Eyrarbakka skyldu tengd ljósleiðaranum fyrir árslok 2022.

Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi hlaut verðlaun fyrir fegurstu nýbyggingu Norðurlanda. Verðlaunin komu frá MAMINNA, alþjóðlegri arkitektúr- hreyfingu og samtökum sem hafa það að markmiði að bæta umhverfi, ýta undir fallegan arkitektúr og að skapa vettvang fyrir almenning til að viðra sínar skoðanir er varða arkitektúr.

Breytingar urðu hjá Dagskránni þegar Gunnar Páll Pálsson lét af störfum sem ritstjóri blaðsins og Björgvin Rúnar Valentínusson, útibússtjóri Prentmets Odda á Selfossi tók tímabundið við stöðu ritstjóra ásamt því að Helga Guðrún Lárusdóttir var ráðin til starfa sem blaðamaður hjá miðlunum Dagskránni og Dfs.is.

Apríl:

Þorlákshafnarmærin Emilía Hugrún Lárusdóttir, ásamt skólahljómsveit Fjölbrautarskóla Suðurlands, gerði sér lítið fyrir og sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna með lagi Ettu James I´d rather go blind.

Mynd: Heimasíða Rangárþings ytra.
Mynd: Heimasíða Rangárþings ytra.

Á Hellu var gleði og eftirvænting í lofti þegar efnt var til sérstakrar skólahátíðar í tilefni upphafs framkvæmda við uppbyggingu skólasvæðisins. 1. áfangi skyldi byggður árið 2022 og kemur til með að hýsa miðstig skólans.

Bankinn vinnustofa bauð Sunnlendinga velkomna til vinnu. Bankinn vinnustofa er staðsett á tveimur efri hæðunum í húsi Landsbankans á Selfossi að Austurvegi 22 og býður Sunnlendingum upp á aðstöðu til starfa óháð staðsetningu með glæsilegum skrifstofu- og fundarrýmum, setustofu, bar og fleira.

Orkídea, samstarfsverkefni um nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni skrifaði undir viljayfirlýsingu um hagkvæmniskoðun á stofnun Græns auðlindagarðs í Reykholti og Biskupstungum með öflugum ylræktarfyrirtækjum og sveitarfélaginu Bláskógabyggð.

Selfyssingar tryggðu sér deildarmeistaratitil í Grill 66 deild kvenna í handbolta og tryggðu sér þar með sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili. Í lokaleiknum lögðu þær ungmennalið ÍBV örugglega að velli með lökatölurnar 25-37.

Dansakademían
Mynd: Dfs.is/hgl

Dansakademían á Selfossi stóð fyrir frábærri, Lísu í Undralandi, nemendasýningu í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla þar sem nemendur skólans sýndu afrakstur vetursins við mikinn fögnuð áhorfenda.

Konungskaffi við Brúartorg á Selfossi opnaði dyr sínar óvænt á sumardaginn fyrsta. Leyfið barst þeim á fyrsta degi sumars svo ákveðið var að slá til og óvænti opnunardagurinn gekk vonum framar.

Leikfélag FSu var endurvakið eftir langan veirusvefn og flutti stórkostlegan, frumsaminn gamansöngleik sem bar nafnið Á bakvið tjöldin sem Hanna Tara Björnsdóttir, Helga Melsted, Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir og Svala Norðdahl, nemendur FSu sömdu.

Katrín Þrastardóttir var ráðinn nýr verkafnastjóri hjá ART-teyminu á Suðurlandi og tók við þeirri stöðu þann 2. maí. Teymið er það eina á Íslandi sem heldur ART-þjálfara réttindanámskeið á landsvísu.

 Maí:

Styrkleikarnir 2022Fyrstu Styrkleikar Krabbameinsfélags Íslands voru haldnir á Selfossi. Leikarnir eru alþjóðlegur viðburður sem fer árlega frm á yfir 5000 stöðum í meira en 30 löndum víðsvegar um heiminn. Styrkleikarnir standa yfir í heilan sólarhring, en þannig eru þeir táknrænir fyrir það að engin hvíld fáist frá krabbameini. Þegar mest lét var áætlað að um 1000 manns hafi verið í húsi en þáttakendur gengu 19.812 hringi samanlagt eða 4755 kílómetra.

Skóflustunga var tekin að nýju heilsusamfélagi í Hveragerði sem kemur til með að innihalda 84 sjálfbærnisvottaðar íbúðir.

Í samkomulagi sem mennta- og barnamálaráðhrera og háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra kynntu í ríkisstjórn var rekstur starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum tryggður. Þar með gat Fjölbrautarskóli Suðurlands boðið öllu starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands sem sinnt hafði kennslu og tengdum störfum á Reykjum ráðningu frá 1. ágúst 2022. Ákveðið var að umsýsla Reykjatorfunnar og mannvirkja fyrrum Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi flyttist frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Framkvæmdaýslunnar – Ríkiseigna við upphaf haustannar 2022.

Mynd: Dfs.is/hgl

Brunavarnir Árnessýslu tóku í notkun glænýjan stigabíl sem smíðaður var hjá Echelles Riffaut í Frakklandi. Bíllinn nær 33 metra í hæstu stöðu og býður upp á mun fleiri möguleika en forveri hans.

Selfosshöllin, sem fékk síðar nafnið Lindexhöllin, var formlega opnuð með pompi og prakt. Boðið var upp á tónlistaratriði og gestir gátu fyllt mallakútana af grilluðum pylsum í þessari glæsilegu íþróttahöll Árborgar.

Nýja hjúkrunarheimilið við Árveg fékk nafnið Móberg. Kristín Jóna Símonardóttir átti tillöguna og vísaði með henni í bæjarfjall Selfoss, Ingólfsfjall sem einkum er gert úr móbergi.

Torfærusumarið fór vel af stað þegar Sindra-torfæran á Hellu var haldin. Um var að ræða fyrstu og aðra umferð Íslandsmótsins í torfæru.

Bindandi samkomulag um byggingu miðbæjar í Þorlákshöfn var undirritað. Samkomulagið byggir á gildandi aðalskipulagi með áherslu á hvernig má nýta svæðið í kringum Selvogsbrautina til að skapa manneskjulegan og fallegan miðbæ sem kemur til með að rísa norðan Selvogsbrautar.

Veitingastaðurinn Local opnaði nýjan veitingastað í sama húsnæði og Lyfja, við Austurveg 44.

Mikil gróska í byggingu íbúðarhúsnæðis í Vík. Reiknað var með því að framkvæmdir 32 íbúða hæfust á árinu.

Fjölbrautarskóli Suðurlands og Menntaskólinn að Laugarvatni útskrifuðu samanlagt 173 nemendur, þar af voru 128 úr FSu og 45 úr ML. Dúx FSu var Bjarni Már Stefánsson og Gísella Hannesdóttir var Dúx ML.

Björgvin Karl Guðmundsson landaði öðru sæti í undanúrslitum á Lowlands Throwdown í Amsterdam í Hollandi. Sá árangur kom honum beinustu leið inn á heimsleikana í CrossFit sem haldnir voru í Bandaríkjunum 4.-7. ágúst.

Dagskráin færðist frá því að koma út á miðvikudögum, aftur yfir á fimmtudaga.

Flóamenn héldu fjölmenna hátíð í tilefni þess að eitt hundrað ár væru liðin frá því að framkvæmdir hófust við gerð Flóaáveitunnar.

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram og víða urðu breytingar á meirihlutum í sveitarstjórnum.

Í Bláskógabyggð var T-listinn með 5 kjörna fulltrúa og Þ-listinn með 2.
Í Flóahreppi var I-Framfaralistinn með 3 kjörna fulltrúa og T-listinn með 2.
Í Grimsnes- og Grafningshreppi var E-listinn með 3 kjörna fulltrúa og G-listinn með 2.
Í Hrunamannahreppi var D-listi sjálfstæðisflokks og óháðra með 3 kjörna fulltrúa og L-listinn með 2.
Í Hveragerðisbæ var O-listi Okkar Hveragerðis með 3 kjörna fulltrúa, B-listi Framsóknar með 2 og D-listi Sjálfstæðisfélags Hveragerðis með 2.
Í Mýrdalshreppi var B-listi Framsóknar og óháðra með 3 kjörna fulltrúa og A-listi allra með 2.
Í Rangárþingi eystra var D- Listi Sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna með 3 kjörna fulltrúa, B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna með 3 og N-nýji óháði listinn með 1.
Í Rangárþingi ytra var Á-listi áhugafólks um sveitarstjórnarmál með 4 kjörna fulltrúa og D-listi Sjálfstæðisflokksins með 3.
Í Skaftárhreppi var Ö-listi Öflugs samfélags með 4 kjörna fulltrúa og D-listi Sjálfstæðisflokksins með 1.
Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var L-Samvinnulistinn með 3 kjörna fulltrúa, E-listi uppbyggingar með 1 og U-listi Umhyggju, umhverfis og uppbyggingar með 1.
Í Sveitarfélaginu Árborg var D-listi Sjálfstæðisflokks með 6 kjörna fulltrúa, B-listi Framsóknar með 2, S-listi Samfylkingarinnar með 2 og Á-listi Áfram Árborgar með 1.
Í Sveitarfélaginu Ölfusi var D-listi Sjálfstæðisflokksins með 4 kjörna fulltrúa, B-listi Framfarasinna með 2 og H-Íbúalistinn í Ölfusi með 1.

Fjóla S. Kristinsdóttir tók við Bæjarstjórn Árborgar og Aldís Hafsteinsdóttir færði sig úr Hveragerði þegar hún tók við sveitarstjórn í Hrunamannahreppi.

Lið Flóaskóla sigraði í Skólahreysti sem fram fór í íþróttahöllinni Mýrinni í Garðabæ. Þau Þórunn Ólafsdóttir, Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Viðar Hrafn Victorsson og Auðunn Ingi Davíðsson skipa liðið ásamt varamönnunum Oddi Olav Davíðssyni og Jóhönnu Pálmadóttur undir leiðsögn þjálfarans og íþróttakennarans Örvars Rafns Hlíðdal.

Júní:

75 ára afmælismót FRÍ var haldið á Selfossvelli í byrjun mánaðar og náðist frábær árangur á mótinu.

Leikskólinn Árbær á Selfossi fagnaði 20 ára afmæli á árinu og var haldið upp á afmælið í júní.

Fasteignamat í Hveragerðisbæ hækkaði um 32,3% en Árborg fylgdi fast á hæla Hvergerðinga með 32,1% hækkun.

Römpum upp Ísland átakið hófst við hátíðlega athöfn þegar fyrsti rampurinn var vígður við Matkrána í Hveragerði. Var hann sá fyrsti af 1000 sem stendur til að reisa víðsvegar um landið í átakinu.

Magnús Einarsson gaf sveitarfélaginu Bláskógabyggð málverk af stóðhestinum Kolfinni frá Kjarnholtum 1. Málverkið var afhjúpað við athöfn sem fram fór í Aratungu.

Kvennalið Selfoss í Knattspyrnu komst í undanúrslit Mjólkurbikarsins eftir stórsigur á Þór/KA með lokatölurnar 4-1.

Söguleg stund átti sér stað í Skálholti þegar ný, dönsk kirkjuklukka var hífð upp í kirkjuturn Skálholtskirkju, en sú gamla hafði brotnað 20 árum áður.

Stytta af Agli Thorarensen sem Halla Gunnarsdóttir, myndhöggvari, hafði smíðað var afhjúpuð við mikla athöfn í miðbæ Selfoss.

Nýjar bæjar- og sveitarstjórnir tóku víða við. Ásta Stefánsdóttir hélt stöðu sinni sem sveitarstjóri Bláskógabyggðar, sem og Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi, Fjóla St. Kristinsdóttir tók við bæjarstjórakeflinu í Árborg og Einar Freyr Elínarson tók við sveitarstjórn í Mýrdalshreppi.

Kjarr restaurant opnaði á Kirkjubæjarklaustri á þjóðhátíðardaginn í húsi sem var reist árið 1938 og hýsti áður hótel og síðar starfsemi Kirkjubæjarstofu.

Hlynur Níels Grímsson krabbameinslæknir hóf störf á HSU Selfossi.

Elvar Þormarsson var valinn íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra. Elvar hefur staðið sig með mikilli prýði í sinni íþrótt og er meðal annars Íslandsmeistari í gæðingaskeiði 2021.

Þau Drífa Hjartardóttir og Guðni Guðmundsson voru sæmd fálkaorðu forseta Íslands á þjóðhátíðardaginn. Drífa, sem er bóndi á Keldum á Rangárvöllum og fyrrverandi alþingismaður, fékk orðuna fyrir sveitarstjórnarstörf og framlag til menningarmála í heimabyggð og Guðni, bóndi á Þverlæk fyrir framlag til umhverfisverndar og samfélagsþjónustu.

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka var haldin helgina 24.-25. júní og fór vel fram við mikinn fögnuð allra eftir mögur covid ár.

Ómar Ingi Magnússon hélt sigurför sinni áfram þegar hann var valinn leikmaður ársins í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Ómar fékk 65,26% atkvæði á meðan næstu menn á eftir honum voru með sitthvor 10% atkvæða.

Árleg Bíladella Bifreiðaklúbbs Suðurlands var haldin í blíðskaparveðri á Selfossi þar sem 126 bílar og 19 mótorhjól skörtuðu sínu fegursta í sólinni.

Júlí:

Fjölæra tónlistarhátíðin Allt í blóma fór vel fram í Hveragerði, sömuleiðis Bryggjuhátíðin á Stokkseyri í blíðskaparveðri í byrjun mánaðar. Metaðsókn var á Kótelettuna á Selfossi viku seinna, þrátt fyrir verstu veðurspá í sögu hátíðarinnar.

Landsmót hestamanna

Landsmót hestamanna fór fram á bökkum Rangár þessa sömu helgi og fyrir utan nokkrar raskanir á dagskrá sökum veðurs í upphafi móts gekk mótshald vonum framar og altalað var að sjaldan eða aldrei hefði annar eins hestakostur komið saman á einum stað.

Hin árlega ljósmyndasýning áhugaljósmyndafélagsins 860+ var formlega opnuð á miðbæjartúni Hvolsvallar. Ljósmyndirnar voru fjölbreyttar og skemmtilegar og gefa miðbænum áhugavert yfirbragð.

Samstarfssamningur milli lögreglunnar á Austurlandi og lögreglunnar á Suðurlandi var undirritaður á Djúpavogi. Markmiðið með samstarfinu var að styrkja og efla löggæslu á Suður- og Austurlandi og þá sérstaklega á svæðinu frá Höfn í Hornafirði að Djúpavogi.

Handknattleiksdeild Selfoss samdi við Selfyssinginn Þóri Ólafsson um þjálfun á meistaraflokki karla. Þórir tók við starfinu af Halldóri Jóhanni Sigfússyni sem fékk spennandi tækifæri við þjálfun í Danmörku.

Tamas Kaposi var ráðinn nýr þjálfari úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki en hann tók við starfinu af Radoslaw Rybak sem stýrði liðinu til sigurs í öllum keppnum síðastliðin 2 ár.

Miðbar opnaði í miðbæ Selfoss en fyrr á árinu hafði verið efnt til nafnasamkeppni þar sem nafnið Miðbar varð fyrir valinu.

Iða Marsibil var ráðinn nýr sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps, Jón G. Valgeirsson var ráðinn sveitarstjóri Rangárþings ytra og Geir Sveinsson var ráðinn bæjarstjóri í Hveragerðisbæ.

Skúbb og Friðheimar hófu samstarf um ís, en þá þegar höfðu litið dagsins ljós þrír nýir og frumlegir sorbet ísar.

Ágúst:

Hátt í 5000 manns mættu á langþráð Unglingalandsmót á Selfossi.

Fjölskyldu- og bæjarhátíðin Flúðir um versló var haldin í 5. skiptið. Fjölmennt var á hátíðinni enda mikið um að vera.

Brekkusöngnum frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum var varpað á stórt tjald á Brúartorgi í miðbæ Selfoss á aðfaranótt frídags verslunarmanna. Fjöldi fólks safnaðist þar saman og naut þess að hlusta og syngja með.

Hamingjan við hafið fór fram frá 2.-6. ágúst í Þorlákshöfn þar sem nóg var um að vera fyrir alla aldurshópa og hátt í 100 manns komu fram á stórtónleikum sem settir voru saman vegna 70 ára afmælis Þorlákshafnar ári áður en fresta þurfti vegna samkomutakmarkana.

Töðugjöld á Hellu fóru vel fram að vanda og var virkilega vel mætt á þessa sígildu hátíð. BMX brós vígðu nýjan brettagarð með sýningu og námskeiði sem var vel sótt af upprennandi BMX köppum.

Sunnlendingurinn Valgerður Einarsdóttir Hjaltested vann brons úrslitaleik einstaklinga

örugglega 6-2 gegn Elin Me- rethe Kristiansen frá Noregi á Norðurlandameistaramóti ungmenna (NUM) í Kemi í Finnlandi.

Ellefu þúsundasti íbúi Árborgar, Sóley Embla Sindradóttir var boðin velkomin en hún fæddist þann 21. júní.

Aron Freyr Jónsson fékk heiðurinn af því að vígja hundraðasta rampinn. Mynd: dfs.is/HGL

Römpum upp ísland gekk heldur betur vel og var hundraðasti rampurinn vígður við hátíðlega athöfn þann 9. ágúst, við Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.

Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Árborgar valdi Lágengi á Selfossi fallegustu götuna í Árborg. Rauðholt 9, heimili Helgu R. Einarsdóttur og Sigurdórs Karlssonar á Selfossi fékk verðlaun fyrir fallegasta garðinn í Árborg. Samkomuhúsið Staður á Eyrarbakka fékk verðlaun fyrir snyrtilegasta fyrirtækið og viðurkenningu fyrir framlag til umhverfismála fékk VISS- vinnu og hæfingarmiðstöð.

Einar Kristján Jónsson var ráðinn sem sveitarstjóri Skaftárhrepps.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Þorlákshöfn og Þorvaldur Garðarsson, eigandi Hrímgrundar skrifuðu undir Verksamning um byggingu þjónustukjarna Öldrunarheimilis við Egilsbraut 9 í Þorlákshöfn. Um er að ræða tæplega 150 m stækkun á núverandi húsnæði, ætlað til að bæta verulega þjónustu dagdvalar.

Blómstrandi dagar í Hveragerði fóru vel fram. Fjöldi fólks lagði leið sína til Hveragerðis á þessa skemmtilegu hátíð en boðið var upp á fjöldan allan af skemmtilegum viðburðum fyrir alla fjölskylduna.

Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli tókst afbragðsvel. Veðrið lék við hvern sinn fingur og íbúar og gestir þeirra fjölmenntu á þá viðburði sem í boði voru. Á hátíðinni voru Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra veitt. Verðlaun fyrir snyrtilegasta garðinn í sveitarfélaginu fengu Birgir Óskarsson og Pálína Guðbrandsdóttir í Litlagerði 2a. Snyrtilegasta býlið í Sveitarfélaginu voru Ytri Skógar en þar eru ábúendur í félagsbúi þau Sigurður Sigurjónsson og Kristín Þorsteinsdóttir annars vegar og hinsvegar Ingimundur Vilhjálmsson og Margrét H. Jónsdóttir. Snyrtilegasta fyrirtækið í sveitarfélaginu er Eld´stó Art café sem er í eigu þeirra G. Helgu Ingadóttur og Þórs Sveinssonar.

Hlynur Snær Theodórsson var valinn sveitarlistamaður Rangárþings eystra á Kjötsúpuhátíðinni. Hlynur hefur verið duglegur að syngja og spila við hin ýmsu tækifæri, bæði innan Rangárþings eystra sem og utan og hélt, ásamt fjölskyldy sinni, úti skemmtilegum útsendingum í streymi einu sinni í viku á meðan samkomutakmarkanir stóðu yfir. Í streyminu tóku þau við óskalögum og skemmtu sér og öðrum á erfiðum tímum.

Ingibjörg Rafnsdóttir var ráðin sem mannauðsráðgjafi við HSU.

Ragnarsmótið í handknattleik fór af stað í 34. sinn og hófst með naumu tapi Selfyssinga fyrir Aftureldingu 32-34.

Mikill fögnuður var á bökkum Sogsins við langþráð reisugildi Laxabakka. Það hafði gengið á ýmsu undanfarin ár en eftir að sáttir náðust um allan ágreining hófst uppbygging af fullum krafti.

Regnbogavika Sólheima var haldin í lok ágúst. Þessi óformlegi viðburður hefur verið haldin undanfarin ár og er orðinn fastur liður á sumrin.

Ný móttökustöð fyrir seyru sem staðsett er á Flúðum í Hrunamannahreppi var formlega opnuð í síðustu viku ágústmánaðar.

Fyrsta skóflustungan að nýrri hreinsistöð við Geitanes á Selfossi var tekin. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að koma á hreinsun skólps frá byggðinni á Selfossi sem fyllir örugglega skilyrði laga og reglugerða samhliða því að vernda almenning og umhverfið gegn mengun af völdum fráveitu frá Selfossi.

Íslandsmeistaramótið í motocross fór fram í fimm umferðum yfir sumarið. Fjöldi keppenda keppti fyrir hönd UMFS og komust nokkrir þeirra á pall. Í síðustu umferðinni sem fram fór í ágústlok tryggði Eric Máni Guðmundsson sér Íslandsmeistaratitil með akstri sínum í unglingaflokki og lenti í fyrsta sæti í sínum flokki eftir daginn, Alexander Adam Kuc lenti í öðru sæti í MX2, Ragnheiður Brynjólfsdóttir lenti í þriðja sæti í kvennaflokki 30+, Ásta Petrea Hannesdóttir lenti í fjórða sæti í kvennaflokki. 

September:

Sauðfjárbændur höfðu í nógu að snúast þar sem smölun og réttir fóru fram um allt land í óvenju góðu veðri.

Mynd: dfs.is/Helga Guðrún

Umferð var hleypt um nýtt hringtorg sem leiddi saman Biskupstungnabraut og Suðurlandsveg samtímis var fjögurra kílómetra vegkafla frá Biskupstungnabraut að Kirkjuferjuvegi opnaður. Vestasti hluti vegkaflans sem opnaði átti ekki að opna fyrr en vorið 2023 svo að verklok voru 6-8 mánuðum á undan áætlun.

Brotist var inn í Sportbæ á Selfossi í skjóli nætur. Þjófarnir höfðu flett upp klæðningu á húsinu að baka til, sagað gat á vegginn og látið greipar sópa á lager verslunarinnar.

Kia Gullhringurinn fór fram í ágætu veðri á Selfossi eftir að hafa verið frestað vegna lélegrar skráningar yfir hásumarið. Á laugardeginum gengu skúrir yfir þau sem hjóluðu 43-59 km en glampandi sól skein á þátttakendur í Votmúlahring fjölskyldunnar sem hjólaður var á sunnudeginum.

Forsætisráðherra var boðið til athafnar í skóginum á Kirkjubæjarklaustri þar sem hæsta tré landsins var útnefnt tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands. Tréð sem er sitkagreni var gróðursett af fjölskyldunni á Klaustri árið 1949 og reyndist það vera 30,15 metrar á hæð. Er tréð það fyrsta sem nær yfir 30 metra hæð á Íslandi frá því fyrir ísöld.

Skógræktarfélag Selfoss fagnaði 70 ára afmæli á árinu og var að því tilefni upp á ferð í Neðri Laugadælaeyju þar sem bátasveit Björgunarfélags Árborgar sá um að ferja gesti út í eyju.

5. flokkur karla í knattspyrnu á Selfossi vann riðil sinn á íslandsmótinu nokkuð örgglega en þeir sigruðu alla sína 9 leiki, skoruðu 62 mörk og fengu á sig 10. Selfoss landaði Íslandsmeistaratitlinum eftir að hafa sigrað tvo leiki í úrslitakeppni E liða.

Háskólafélag Suðurlands og Hreiðrið hófu mánaðarlega Frumkvöðlahádegishittinga í Fjölheimum á Selfossi sem er að auki streymt á Facebook en hittingarnir eru haldnir fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra tóku þátt í athöfn við Geysi þar sem Guðlaugur Þór staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun Geysissvæðisins, en svæðið var friðlýst þann 17. júní árið 2020.

Orkídea, samstarfsverkefni um nýsköpun, og sveitar- félagið Rangárþing ytra undirrituðu viljayfirlýsingu um að koma á fót grænum iðngarði í sveitarfélaginu. GRænn iðngarður nær yfir ákveðið svæði með ólíkum fyrirtækjum þar sem fyrirtækin leitast við  að ná betri nýtni auðlinda, hreinni framleiðslu, stuðla að samvinnu fyrirtækja, draga úr loftslagsbreytingum og mengun ásamt því að fylgja félagslegum stöðlum, samnýta innviði og öðlast betri stýringu á áhættu.

Leikfélag Hveragerðis varð 75 ára fyrr á árinu og af því tilefni var ákveðið að setja upp ævintýrið um Benedikt búálf. Það er skemmst frá því að segja að sýningin hafi slegið í gegn en hún er enn í gangi og búið að auglýsa sýningar í janúar og febrúar á næsta ári.

Selfoss hrósaði sigri í fyrsta leik liðsins í fjögur ár í Olísdeild kvenna í handknattleik 32:25 gegn HK í Kórnum í Kópavogi.

Lögregluaðgerðir við gatnamót Engjavegs og Tryggvagötu á Selfossi. Mynd: dfs.is/brv

Mikill viðbúnaður var við skólalóð Vallaskóla á Selfossi eftir að lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningu um tortryggilegan hlut sem drengir hefðu verið að vasast með við gatnamót Tryggvagötu og Engjavegs. Var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til með búnað til að leysa verkefnið. Sérsveitarmenn eyddu tortryggilega hlutnum og á meðan var svæði í um 100 metra radíus umhverfis vettvanginn lokað. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi var málið upplýst samdægurs.

Hátíð var haldin í Tré og list í Forsæti í Flóahreppi þar sem Guðni Th. Jóhannesson kom í heimsókn til að heiðra Sigríði Jónu Kristjánsdóttur eða Siggu á Grund og kynnast list hennar en Sigga hefur þróað listgáfu sína í yfir 70 ár.

Haustgildi, menning er matarkista, var haldin á Stokkseyri í annað sinn. Voru fleiri aðilar sem tóku þátt en á fyrri hátíðinni, viðburðir bættust við og ljóst varð að Haustgildi væri komið til að vera.

Fimm metnaðargjarnir nýnemar í diplómunámi í viðburðastjórnun við Háskólann á hólum héldu vel heppnaða styrktartónleika fyrir Sigurhæðir í Midgard á Hvolsvelli.

Lífland opnaði verslun að Austurvegi 69 á Selfossi. Opnun verlsunarinnar gekk vonum framar og lagði fjöldi fóks leið sína í verslunina.

Karlalið Hamars í blaki vann enn einn titilinn og varð meistari meistaranna eftir 3-0 sigur á KA.

Fjögurra tunnu kerfi og töluverðar breytingar á gjaldskrá sorphirðu í Árborg var kynnt, en kerfið tekur gildi um áramót.

Október:

Metfjöldi viðburða var í menningarmánuðinum október sem haldinn var í þrettánda sinn í Sveitarfélaginu Árborg en fjölbreytt dagskrá bauð upp á eitthvað fyrir alla aldurshópa. 

Bjórhátíð Ölverk var haldin í þriðja sinn í gömlu ylræktarhúsi í Hveragerði. Alls voru 35 brugghús og framleiðendur hvaðanæva af landinu ásamt framleiðendum frá Grænlandi, Færeyjum og Bretlandi sem kynntu framreiðslu sína á hátíðinni.

Regnbogahátíð Mýrdælinga fór fram með glæsilegri tónlistardagskrá og ýmsum listasýningum og öðrum viðburðum.

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri náði þeim merka áfanga að verða 170 ára, en skólinn er elsti starfandi barnaskóli landsins.

Helga Guðrún Lárusdóttir tók, fyrst kvenna, við ritstjórnartitli Dagskrárinnar, fréttablaðs Suðurlands og DFS.is.

Rústabjörgunarsveitarfólk tók þátt í viðamiklu námskeiði á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Hótel Selfossi.

Tíu ungmenni hlutu forsteamerki Bandalags íslenskra skáta við formlega athöfn að Bessastöðum og voru þrjú þeirra, Arney Sif Ólafsdóttir, Bjarni Gunnarsson og Karen hekla Grønli frá Skátafélaginu Fossbúum á Selfossi.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti að senda til skipulagsnefndar nýtt deiliskipulag fyrir íbúðar- og landbúnaðarlóðir á hluta af golfvelli á landi Minni-Borgar.

Kaffi Krús á Selfossi fagnaði 30 ára afmæli sínu.

Magnús Hermannsson, rafeindameistari og kerfisstjóri opnaði nýja rafeinda- og tölvuþjónustu í bílskúrnum að Úthaga 13.

Mynd: Áshildur Böðvarsdóttir.

Hátt í 250 börn og unglingar léku á stórtónleikum í Iðu þegar Strengjamót var haldið á Selfossi þar sem strokhljófæranemendum af öllu landinu var boðið að taka þátt. Fiðlur, víólur, celló og kontrabassi.

Yfir 300 manns mættu á íbúafund á Sviðinu, nýjum tónleikastað Selfyssinga við Brúartorg. Á fundinum, sem Valdimar Bragason kynnti, var farið yfir næstu skref í uppbyggingu miðbæjarins og gafst gestum færi á að sjá þrívíddarteikningar af því hvernig miðbærinn kæmi til með að líta út við verklok.

Eva Dögg Atladóttir stóð fyrir spennandi indverskum matreiðslunámskeiðum í Fjölheimum. Kennari á námskeiðunum var indverski meistarakokkurinn Megha Jhunjhunwala.

Rífandi fjör var á hrútasýningu Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna sem fram fór í Reiðhöllinni á Flúðum.

Mynd: Heiða Björg Jónasdóttir.

Sextán íslendingar kepptu í íslenskri torfæru í Bikiníbotnum í Tennesee fylki í Bandaríkjunum. Það merkilegasta við keppnina var þó að þrjú efstu sætin vermdu engir nema sunnlendingar. Selfyssingurinn Geir Evert Grímsson landaði fyrsta sætinu á Sleggjunni og þeir Ingvar Jóhannesson á Víkingnum og Guðmundur Elíasson á Ótemjunni frá Vík voru í öðru og þriðja sæti.

Víkin, nýtt félagsheimili Stangveiðifélags Selfoss á Fossnesi við Ölfusá var vígt við hátíðlega athöfn, en húsið hafði verið í byggingu frá árinu 2016.

Jómfrúartónleikar Sviðsins, nýja tónleikastaðarins í miðbæ Selfoss voru haldnir þar sem Stuðmenn stigu á stokk ásamt Helga Björnssyni. Fóru tónleikarnir fram úr björtustu vonum aðstandenda Sviðsins og gestir skemmtu sér konunglega.

Hjalti Jón Kjartansson tók við embætti formanns frjálsíþróttadeildar UMF.Selfoss af Helga Sigurði Haraldssyni.

Nóvember:

Aðalskoðun opnaði nýja skoðunarstöð við Eyraveg 51 á Selfossi.

Þórir Hergeirsson leiddi norska kvennalandsliðið til sigurs á EM þar sem Noregur lagði Danmörku í úrslitaleik mótsins. Var þetta í níunda sinn sem Þórir vinnur gull á stórmóti með norska liðinu.

Selfyssingurinn Elísabet Björgvinsdóttir sigraði í Söngkeppni NFSu með lagi Aretha Franklin A natural woman. öðru sæti var Hugrún Tinna Róbertsdóttir sem söng Daddy ́s lessons með Beyoncé og í því þriðja var Ásrún Aldís Hreins- dóttir með lag Rihönnu, Love on the brain. Þá fékk Elín Karlsdóttir verðlaun fyrir frumlegasta atriðið en hún söng lagið Echoes með Pink Floyd.

Grímsnes- og Grafningshreppur var valinn Sveitarfélag ársins við hátíðlega athöfn í húsi BSRB en könnunin var framkvæmd af Gallup. Önnur sveitarfélög sem hlutu viðurkenningu voru Hrunamannahreppur, Flóahreppur og Bláskógabyggð.

Mikil tilhlökkun var innan raða Karlakórs Selfoss þegar fimmtugasta og sjöunda starfsár kórsins fór af stað með um 70 söngmenn sem mætt höfðu á fyrstu æfingar vetrarins.

Egill Blöndal landaði gullverðlaunum á Evrópumeistaramóti smáþjóða í Judo sem fram fór í Luxemborg. Egill glímdi af miklu öryggi og náði að tryggja sér sigur með armlás þegar um það bil þrjár mínútur voru liðnar af glímunni.

Fyrsta skóflustungan var tekin að Fjallaböðunum í Þjórsárdal. Um er að ræða metnaðarfulla uppbyggingu á baðstað og hóteli í Þjórsárdal sem áætlað er að verði komin í gagnið árið 2025.

Óskar í Hruna sigraði í Blítt og létt, söngkeppni Menntaskólans að Laugarvatni en Óskar Snorri Óskarsson söng gamla Hljómaslagarann Lover man ásamt hljómsveit sinni Kóma og landaði fyrsta sætinu. Í öðru sæti var Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir sem flutti lagið Runnin´ með Beyoncé og í þriðja sæti var Hákon Kári Einarsson sem flutti lagið Slow Dancing in a Burning Room eftir John Mayer. Verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið fékk Teitur Snær Vignisson ásamt diskóbandinu Aðeins meira diskó, þeir fluttu More Than a Woman með Bee Gees.

Chrissie Telma Guðmundsdóttir hlaut Menningarverðlaun Suðurlands 2022 fyrir verkefið Fiðlufjör. Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi

Hinn 19 ára gamli Bjarki Breiðfjörð Björnsson frá Crossfit Selfoss varð Norðurlandameistarií ólympískum lyftingum þriðja árið í röð. Bjarki hefur sigrað í -73 kg flokki síðustu tvö ár en hann keppti nú í fyrsta skipti í -81 kg flokki junior. Þó að hann hafi færst upp um flokk þá kom það ekki í veg fyrir að hann næði í titilinn eftir hörku spennandi keppni í fjölmennum keppendahópi.

Samningur um hönnun og byggingu á 2. Áfanga Stekkjaskóla var undirritaður af ÞG Verktökum ehf og Fasteignafélagi Árborgar slf. ÞG Verktakar ehf munu vinna verkið áfsamt Eflu verkfræðistofu og Arkitektastofunni Hornsteinar.

Fyrsta og stærsta pílumót Selfosssögunnar fór fram í Hvíta húsinu á Selfossi þar sem Kristján Sigurðsson stóð uppi sem sigurvegari. Uppselt var á mótið og stemningin frábær.

Bæjarráð Árborgar gaf út að rekstarhalli sveitarfélagsins væri umfram áætlun, en hallinn hleypur á rétt tæplega 2,4 milljörðum.

,,Þekktu rauðu ljósin – Soroptimistar hafna ofbeldi” var slagorð íslenskra Soroptimista í ár í hinu alþjóðlega 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum hófst 25. nóvember á degi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og því lauk á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember. Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með margvíslegum hætti. Roðagylltur litur er einkenni átaksins, en hann á að tákna bjartari framtíð.

Áform Heidelberg Matereals um uppbyggingu risavaxinnar verksmiðju á 55 þúsund fermetra lóð á hafnarbakkanum í Þorlákshöfn olli ólgu meðal íbúa bæjarins. Fjöldi fólks mætti á íbúafund þar sem áhyggjuraddir íbúa komu skýrt fram.

Fjórar ungar Flóastúlkur gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í Eftirréttakeppni grunskólanna sem haldin var í samstarfi við Klúbb matreiðslumeistara og Iðuna fræðslusetur. Þær Ásdís Eva Magnúsdóttir, Júlía Kolka Martinsdóttir, Svandís Atiken Sævarsdóttir og Þórunn Eva Ingvarsdóttir sem störfuðu undir handleiðslu Iðunnar Ýrar Ásgeirsdóttur heimilsifræðikennar, buðu upp á skyrköku með kanilbotni og karamelluseruðum kókos, panna cotta með hvítu súkkulaði og kartöflukanilköku með rjómaostakremi. Uppskrift af ómótstæðilegri kartöflukanilkökunni færðu þær svo lesendum Dagskrárinnar í jólablaði ársins.

Tilkynnt var um lokun Smiðjunnar í Mjólkurbúinu á Selfossi en þeir Andri Björn Jónsson og Árni Evert Leósson sem reka Takkó og Pasta Romano í Mjólkurbúinu ætla að opna nýjan hamborgara- og kjúklingastað sem hafði ekki enn hlotið nafn þegar þetta var skrifað.

Fyrsta skóflustungan að íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk var tekin að Nauthaga 2 á Selfossi og vonast er til þess að íbúar geti flutt inn í lok janúar 2024.

Desember:

Jólahátíðin fór af stað með tilheyrandi viðburðum og hátíðleika um allt Suðurland.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg og Nichole Leigh Mosty, forstöðukona Fjölmenningarseturs skrifuðu undir samning um samræmda móttöku flóttafólks í Árborg.

óveður, rok, vindur, snjóstormur, ófærð, lokað, snjór, bylur
Mynd: Dfs.is/hgl

Veðrið lék sunnlendinga grátt, en eftir milt haust kyngdi niður snjó aðfaranótt 17. Desember og hefur gengið á með miklu frosti og hverri gulu viðvöruninni á fætur annarri síðan.

Midgard Outfitters, ný verslun með útivistar- og veiðivörur opnaði að Austurvegi 11.

Sveitarfélagið Ölfus var með jákvæðan rekstur. Var samþykkt að lækka fasteignaskatthlutfall um 24,2% og stefnt er á innviðafjárfestingar upp á 9 milljarða á næstu 4 árum.

Danska verslunarkeðjan Ilva opnaði húsgagnaverslun að Austurvegi 69 á Selfossi.

Tveir ungir Ölfusingar, þeir Daníel E. Arnarson og Stefán Ólafur Stefánsson, hlutu viðurkenningar fyrir að vera framúrskarandi ungir Íslendingar. Daníel fékk viðurkenningu fyrir að hafa starfað ötullega að málefnum hinsegin fólks og hefur verið framkvæmdastjóri Samtakanna ´78 frá árinu 2017. Stefán fékk viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf en hann stofnaði ásamt öðrum fyrirtækið Ekki gefast upp! Með það að markmiði að bjóða upp á líkasrækt fyrir börn og ungmenni sem glíma við andlega vanlíðan s.s. kvíða og þunglyndi.

Davíð Kjartansson varði titil sinn sem Suðurlandsmeistari í skák á Suðurlandsmótinu sem haldið var í Hvolsskóla á Hvolsvelli.

Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, heimsótti frístundaþjónustu Árborgar ásamt um 50 manns úr ráðuneytinu.

Yfir 1000 manns sáu jólasýningu fimleikadeildar Selfoss sem var með Encanto þema í ár.

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti að setja 1. áfanga nýrrar Hamarshallar í alútboð. Stefnt er á að afhenda fótboltasal í september 2023 og að áfangi eitt verði fullbúinn í byrjun desember sama ár.

Tilkynnt var um lokun verslunar Mistilteins að Brúarstræti á Selfossi, en verslunin hafði verið starfrækt þar í um eitt ár.

Móberg, hjúkrunarheimili, selfoss
Mynd: dfs.is/hgl

Móberg á Selfossi fékk heiðursverðlaun Arkitektúruppreisnarinnar fyrir fallegustu nýbyggingu á Íslandi.

Landsvirkjun og Landeldi sömdu um sölu og kaup á allt að 20 MW raforku til nýrrar laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn.

Fjölbrautarskóli Suðurlands brautskráði 34 nemendur og Guðmunda Þórunn Þorvarðardóttir var Dúx skólans.

Á uppskeruhátíð frístundar- og menningarnefndar Árborgar á Hótel Selfossi voru þau Eva María Baldursdóttir, frjálsíþróttakona frá UMFS og Aron Emil Gunnarsson, kylfingur úr Golfklúbbi Selfoss kjörin íþróttafólk ársins hjá Árborg.

Sama kvöld var val á íþróttamanni ársins kynnt af Samtökum íþróttafréttamanna þar sem Selfyssingurinn Ómar Ingi hlaut aftur titilinn íþróttamaður ársins eftir frábært ár í handknattleik og Þórir Hergeirsson var sömuleiðis valinn þjálfari ársins annað árið í röð.

Við óskum Sunnlendingum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða. Megi 2023 verða ykkur gott!

Nýjar fréttir