9.5 C
Selfoss

Jólahugvekja

Vinsælast

Sögur

Þegar ég var í Vallaskóla á Selfossi sem barn og unglingur var oft fjör í frímínútum, jafnvel eftir að við fengum að vera inni á unglingastiginu eða þegar það féllu niður tímar gátum við oft ekki setið á okkur og hömuðumst oft á göngunum þótt það væri að sjálfsögðu bannað. Þá rekur mig minni til eins skólaliðans, Helgu R. Einarsdóttur, það var sennilega eina konan þarna sem virkilega gat fengið okkur til þess að setjast á gólfið og hafa dauða þögn. Hún Helga er og var mikil sagna kona og þegar hún mætti á staðinn þá sagði hún okkur iðulega sögur úr sinni æsku sem voru margar hverjar spennandi og skemmtilegar. Þó að ég muni ekki sögurnar man ég samt svo vel að þær hrifu okkur með sér aftur í tímann og á stað og stund. Það er kannski þess vegna sem Helgu tókst svo vel að fá okkur til þess að hafa hljóð.

En hvað er saga? Svo lengi sem mannkynið hefur verið til hafa verið sagðar sögur. Saga er röð atburða sem tengjast saman og eru sögur sagðar með orðum, töluðu máli eða skrifuðu, með myndum, líkamstjáningu, framkomu, tónlist eða hverju öðru tjáningarformi sem er. Saga getur verið sönn eða ímynduð og um hvað sem er. Það eru til sögur um allt á öllum tímum, fortíð, nútíð og framtíð. Alltaf þegar þú segir einhverjum frá atburði eða röð atburða ertu að segja sögu. Þar af leiðandi hafa sögur virkilega mikla þýðingu fyrir menningu og gætu jafnvel verið það mikilvægasta í lífum okkar.

Sögur eru grunnurinn af sköpunarkrafti og eru í raun hluti af öllu því sem við gerum, sérstaklega þegar kemur að skemmtun, upptökum eða frásögnum af því sem er liðið. Þess vegna eru sagðar sögur í hinum ýmsu formum, frá munnlegum sögum til skrifaðra eða í fréttamennsku. Til sjónvarps, kvikmynda og útvarps, listaverka, sviðslista, tónlistar og jafnvel samfélagsmiðla.

Í hvaða formi sem er finnast sögur í öllum menningarheimum, samfélögum, þjóðernum, trúarbrögðum og frá öllum tímum á öllum tungumálum.

Sögur virðast hafa ótrúleg áhrif á okkur, þegar við hlustum á eða verðum vitni að sögu í hvaða formi sem er getur hún hreyft við okkar innstu hjartans strengjum. Þær kveikja hjá okkur samúð og samkennd, þær efla okkur eða letja okkur, veita okkur von eða vonleysi, þær geta komið ímyndunaraflinu á flug, tekið okkur frá stað og stund og sett okkur í aðstæður þeirra sem sagan er um. Sögur geta haft afdrifarík áhrif á líf okkar, hvernig við högum því og hvernig okkur líður.

Á hverjum tíma virðast oft vera ákveðnar sögur sem ráða ríkjum. Það er sagt meira af þessum sögum en öðrum og virðast þær hafa tiltekin áhrif á samfélagið. Á 12. öld í Evrópu voru til dæmis sagðar riddara sögur, karlmennsku sögur þar sem menn fóru í langar ferðir að berjast við ribbalda og ræningja og iðulega komu þeir heim hlaðnir gulli og fengu fallegustu konuna eða dóttur konungsins. Þessar sögur voru sannarlega glæsilegar og höfðu mikil áhrif á unga drengi sem þá vildu freista gæfunnar og láta drauminn um riddaramennskuna verða að veruleika. Oftar en ekki komu þeir skaddaðir til baka, fatlaðir eftir átökin, illa sofnir og illa nærðir, fátækari en þegar þeir fóru af stað og fengu svo sannarlega ekki konungsdótturinna. Og það var raunveruleikinn þótt að sögurnar segðu annað, enda margar hverjar færðar í stílinn. Aðal sagan sem gekk um Evrópu var um Artúr konung og sverðið Excalibur, glansmynd þess tíma.

Því kann maður að spyrja sig hvaða sögur er verið að segja í dag? Hverjar eru sögurnar sem hafa mest áhrif á líf okkar? Það leikur enginn vafi á að sögur hafa áhrif á okkur en sérstaklega eru það sögur sem eru stanslaust fyrir augum okkar. Eins og ég sé þetta sjálfur eru þetta sögur sem koma til okkar í gegnum fréttamiðla, auglýsingar og samfélagsmiðla. Því miður virðast fréttamiðlar oft ekki segja okkur neitt nema neikvæðar fréttir, þau segja okkur flestar að allt sé að fara að fara fjandans til og fólk upplifir að engin von sé fram undan. Auglýsingar segja okkur flestar að við verðum að eiga allt dótið, þær spila inn á græðgi mannsandans og segja okkur að þetta sé leiðin að hamingjunni. Það er flottasta dótið sem gerir okkur hamingjusömust.

Samfélagsmiðlar eru þá kannski verstir því þeir segja okkur sögu um hið „fullkomna“ líf. Ferðalög, óaðfinnanlegt útlit, flott hús, flottur bíll, skrautið, óaðfinnanlegt heimili, hreint og fínt og þannig má lengi telja. Á sama tíma segja samfélagsmiðlar okkur fullt af sögum af óréttlæti og að við eigum að vera reið, við eigum aldrei að slá af reiðinni og svo virðist vera að „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ sé í hávegum haft þar til allir eru orðnir tannlausir og blindir. Þetta er riddarasaga nútímans í hnotskurn. Saga af góðmennsku og náungakærleika virðist sjaldan sögð nema til þess að upphefja egóið. Það eru sögur þar sem maður sér til dæmis erlenda áhrifavalda biðja heimilislausan einstakling um pening og ef hinn heimilislausi lætur allt sitt af hendi þá réttir áhrifavaldurinn hinum heimilislausa töluvert hærri upphæð, hinn heimilislausi fer að grenja af þakklæti en þetta er allt tekið upp og sett á samfélagsmiðla. „En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir.“ (Matt 6.3)

Við eigum samt ekki að loka augunum fyrir ljótleika heimsins við þurfum að vita af því en sögurnar sem við þurfum að segja eru sigursögur, sögur um von, um náungakærleikann, um dyggðir. Þessar sögur eru sannarlega til en þetta eru ekki sögurnar sem fara hæst. Meira að segja núna á aðventunni og yfir jólin eru sögur á borð við jólaguðspjallið ekki saga sem við segjum eða fær að heyrast hæðst. Sögurnar sem glymja hæðst eru neyslusögur í gegnum auglýsingar. Getur verið að þær sögur sem við heyrum og það sem meira er, þær sögur sem við heyrum ekki, hafi áhrif á innri líðan einstaklinga og þjóðar? Getur verið að þær hafi áhrif á að alvarlegra ofbeldi á sér stað?

Sagan af raunum Maríu og Jósefs er sannarlega sigursaga, það er vonarsaga og saga um náungakærleik. Saga um unga stelpu sem verður ólétt og þarf að ferðast langa vegalengd á asna þegar hún er við það að fara að eiga. Þar fæðist frelsari heimsins, meðal dýra, í skítugu fjárhúsi. Þau sem fá að heyra fagnaðarerindið fyrst er fólk af lægstu stéttum þjóðfélagsins.

Þetta er saga sem við getum leyft okkur að hrífast með og fara aftur í tímann og upplifa með þeim vonleysi, von, þjáningar og gleði og fögnuð. Þetta er saga sem leyfir okkur að taka allann tilfinningaskalann en standa uppi með von um betri tíð. Betri tíð er ekki veraldlegur auður heldur er betri tíð í hinni innri veröld sálarinnar. Það sem stýrir okkur í átt að trú, von og kærleika en það er það sem byggir betri heim.

Sr. Dagur Fannar Magnússon

Nýjar fréttir