5.6 C
Selfoss

Standandi lófatak gestanna dýrmæt hvatning

Vinsælast

Framundan eru Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands en jólatónleikar hljómsveitarinnar gefa fyrirheit um farsælt framhald á tónleikahaldi hennar.

Á þriðja hundrað tónleikagesta fylltu Selfosskirkju á jólatónleikum hljómsveitarinnar þann 10. desember síðastliðinn.

„Þeir tókust frábærlega. Það er ekki hægt að hafa neitt annað orð yfir það,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri um tónleikana.  Óhætt er að segja að viðburðurinn, þar sem 50 manna hljómsveit, þrír kórar og tveir einsöngvarar komu fram, hafi verið meiriháttar í menningarlegu tilliti á Suðurlandi.

Standandi lófatak

„Aðsóknin kom ekki á óvart en vissulega var mjög gleðilegt að sjá setið í hverju sæti og líka í öllum þeim sem þurfti að bæta við” segir Guðmundur Óli. „Það er ekki hægt að fara fram á meira en langvarandi standandi lófatak og einstaklega falleg ummæli tónleikagesta að tónleikum loknum“. Það sé hvatning sem sé hljómsveitinni mjög dýrmæt.

Tímamót

„Þessir tónleikar mörkuðu tímamót í uppbyggingu hljómsveitarinnar og með þeim sýndum við fram á að það er mögulegt að halda tónleika af miklum listrænum metnaði með stórri sinfónískri hljómsveit; Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, og skapa með starfi hennar nýjan veruleika í menningarlífi Suðurlands, bæði fyrir tónlistarfólk af öllu tagi sem og tónlistarunnendur,“ bætir hann við.

Vínartónleikarnir

Framundan eru Vínartónleikar í Hvoli á Hvolsvelli. Þar kemur fram 14 manna sinfónísk hljómsveit ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, og Karlakór Rangæinga sem er að koma fram í annað sinn með hljómsveitinni þó líftími hennar sé ekki orðinn langur. En það er sérlega ánægjulegt að rifja upp að sumarið 2021 kom hljómsveitin fram á Oddahátíð ásamt karlakórnum, Kvennakórnum Ljósbrá og Kammerkór Rangæinga auk Eyjólfs Eyjólfssonar tenórs.

Dívan Diddú

„Þetta verða ekta Vínartónleikar með tilheyrandi Kampavínsgalloppum og Straussvölsum og Diddú er auðvitað okkar draumadíva í þessu tónleikaprógrammi,“ segir Guðmundur Óli.

Enn meira framundan

Og þar með er hvergi slakað á og fleiri tónleikar eru framundan. Undirbúningur fyrir Páskatónleika í Selfosskirkju er langt kominn og þar mun hljómsveitin flytja Magnificat eftir John Rutter ásamt Kammerkór Norðurlands, Skagfirska kammerkórnum og Kirkjukór Selfosskirkju. Einsöngvarar á þeim tónleikum verða Helga Rós Indriðadóttir sópran og Gunnlaugur Bjarnason baritón.

Mikilvægt fyrir allt samfélagið

Guðmundur Óli segir að í huga þeirra sem standa að hljómsveitinni skipti miklu máli fyrir sérhvert samfélag að eiga öflugar menningarstofnanir sem auðga líf íbúanna og breyta ímynd svæðisins í víðara samhengi.

„Hún skiptir sköpum fyrir atvinnutónlistarfólk í landshlutanum, hún eflir starf tónlistarskólanna á svæðinu og hún hvetur til samstarfs fólks í öllum listgreinum.“

Miðasala á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands er á tix.is

Nýjar fréttir