12.3 C
Selfoss

Okkar gæðastundir eru þegar við sitjum saman í sófa og lesum…

Vinsælast

segir lestrarhesturinn Hallgrímur Óskarsson

Hallgrímur Óskarsson er fæddur á Selfossi árið 1970. Hann er alinn upp við gott atlæti á Eyrarbakka hjá foreldrum og sjö systkinum. Gekk í skóla á Bakkanum, fór svo í FSu og býr núna á Selfossi ásamt eiginkonu og tveimur nánast uppkomnum börnum. Hallgrímur starfar sem fasteignasali.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er með þrjár á náttborðinu í augnablikinu. Nýju bókina hans Stefáns Mána, Hungur og svo tvær bækur eftir Ármann Jakobsson, Urðarkött og Útlagamorðin en ég hef aldrei lesið neitt eftir hann áður. Frúin tók þær á safninu fyrir mig og setti á náttborðið. Hún sér stundum um að halda að mér andlega fóðrinu. Við eigum okkar gæðastundir þegar við sitjum og lesum hvort í sínu horninu á sófanum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það er helst léttmeti, reyfarar og skáldsögur af léttara taginu. Bíð til dæmis spenntur eftir að geta náð í nýju bækurnar eftir Yrsu og Arnald á bókasafninu. Svo langar mig líka að lesa bókina sem Katrín Jakobsdóttir og Ragnar Jónasson skrifuðu í sameiningu. Er ekki mikið fyrir skrúðmælgi og uppskrúfaðar lýsingar. Var til dæmis fljótur að leggja Grámosinn glóir frá mér eftir Thor Vilhjálmsson. Fannst hún alveg agalega leiðinleg en það eru reyndar einhverjir áratugir síðan. Hef annars lesið allskonar bækur í gegnum árin, bæði íslenskar og erlendar. Undanfarið hef ég lesið töluvert norrænu reyfarahöfundana og það kemur fyrir að þær bækur séu lesnar á dönsku eða sænsku svo maður tapi ekki niður skandinavískunni.

Fékkstu lestraruppeldi í æsku?

Já, ég er alinn upp við lestur, foreldrar mínir og systkini lásu mikið. Eldri systur mínar lásu heilmikið fyrir mig þegar ég var barn. Oft sömu bækur trekk í trekk enda er ég íhaldssamur.  Kunni sumar orðrétt utan að og þá varð að lesa þær nákvæmlega eins í hvert skipti fyrir mig. Örugglega ekki verið gaman fyrir lesarann. Átti uppáhaldsbók sem smáormur sem var sænsk bók um strákinn Albin eftir Ulf Löfgren. Sú bók var lesin upp til agna. Pabbi ýtti mér svo að lestrinum þegar ég var farinn að geta lesið sjálfur en hann var alltaf að tala um bækur sem ég yrði að lesa. Ein þeirra var Sjómannalíf eftir Rudyard Kipling. Eldgömul bók fannst mér en ég las hana frekar ungur og fannst hún mjög góð og hún hafði líka mikil áhrif á mig. Las þá strax á eftir Rikki tikki tavi og Frumskógarlíf eftir sama höfund.

Hvað gerðist svo?

Svo komu Nonna bækurnar og bækur eftir Ármann Kr. Einarsson og Frank og Jói í framhaldinu. Þannig byrjaði ég að fá áhuga á lestri. Las svo helling sem unglingur, ýmiskonar bækur. Mikið til spennusögur en líka allskonar skáldsögur. Auðvitað fylgdu svo myndasögur með eins og Tinni, Svalur og Valur, Lukku Láki og Tarzanblöðin. Tinni var og er í miklu uppáhaldi. Svo las ég allt safnið af Öldinni okkar oftar en einu sinni því ég var smá nörd. Sú vitneskja sem ég fékk úr þeim bókum kom sér vel í Trivial Pursuit spilinu sem var mikið spilað á mínu heimili þegar það kom fyrst út. Auðvitað var ég svo látinn lesa allskonar skáldsögur í FSu í náminu þar. Á íslensku, ensku, dönsku og þýsku. Það opnaði hugann fyrir öðruvísi bókum en spennusögum og þess háttar. Fannst til dæmis Bjargvætturinn í grasinu mjög góð bók sem og Of Mice and men og Barndommens gade. Gæti samt líklega ekki lesið bók á þýsku í dag. Þýskan er týnd og tröllum gefin hjá mér því miður. Ólíkt því sem tíðkast í dag þá fékk ég alltaf bækur í jólagjöf, frá svona 12 til 20 ára aldurs. Yfirleitt svona 5- 7 bækur. Finnst afturför að krakkar og unglingar upp til hópa vilji helst ekki bækur að gjöf og lesi lítið. Hef reyndar þá skoðun að krakkar í dag ættu að lesa miklu meira en mér virðist þau gera og eins að foreldrar ungra barna ættu alltaf að lesa fyrir þau á kvöldin.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég les í skorpum, tek til dæmis góða skorpu svona frá nóvember og fram í mars en les svo kannski ekkert í einhvern tíma þar á eftir, nema kannski eina bók í sumarfríinu. En ég er pínu hámlesari, á erfitt með að leggja frá mér bók ef ég er á annað borð byrjaður að lesa og bókin er góð. Les oftast á kvöldin uppi í rúmi eða í hægindastól um helgar með teið mitt við hendina. Ef við förum til útlanda í frí er nauðsynlegt að hafa bók með.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Ég get ekki sagt að ég eigi uppáhaldshöfund. Ef bókin sem ég les í hvert skipti höfðar til mín þá verður sá höfundur uppáhalds í einhvern tíma meðan ég er að lesa meira eftir hann. Svo tekur annar við.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, þegar ég var unglingur las ég allar bækurnar eftir Sven Hassel og vakti heilu næturnar. Man að pabbi kom stundum um miðja nótt og rak mig til að fara að sofa. Gekk eitt sinn svo langt eftir miklar vökur að ég sá ekki neitt vegna hvarmabólgu í tvo daga og þá slakaði ég aðeins á í hámlæsinu.

Að lokum Hallgrímur, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Líklega reyfara eða einhverja sögulega skáldsögu af léttara taginu.

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason: jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir