0.4 C
Selfoss

Jólaskjól

Vinsælast

Nú fer að verða síðasti séns að skella í jólalegar húfur á yngstu meðlimi fjölskyldunnar og hér er uppskrift að einni auðveldri sem er bæði hlý og mjúk.

Stærðir 0-6 mánaða/40 sm (7-12 mánaða/43 sm) 13-24 mánaða/47 sm (3ja-4ra ára/50 sm)

Í húfunni eru þrjár gerðir af garni, ein dokka í lit.

Rautt nælon styrkt garn, RUNNING frá Lammy, einn af mörgum framleiðendum af sokkagarni sem við erum með á boðstólum.

Rautt mohair garn, Anisia frá CEWEC, mjög vinsælt eitt og sér eða í bland með öðru garni og fæst í 35 litum.

Hvítt glitrandi garn, Lurex frá LAMMY, fæst í mörgum mjög fallegum litum.

Hringprjónn no 4, 40 sm og sokkaprjónar eða Crazy Trio no 4.

Þrjú prjónamerki.

Rauði hluti húfunnar er prjónaður með einum þræði af Running og einum af Anisia.

Prjónafesta: 24 lykkjur = 10 sm.

 

Fitjið upp 96 (104) 112 (120) lykkjur og tengið í hring. Prjónið eina umferð stroff, 2 sl, 2 br.

Næstu 6 (6) 7 (8) umferðir eru prjónaðar með hvítu í brugna hlutanum nema í fyrstu umferðinni eru hvítu lykkjurnar prjónaðar sléttar.

Prjónið því næst 4 umferðir slétt prjón með rauðu og þá tekur munsturbekkurinn við. Í fyrstu rauðu umferðinni eftir munsturbekkinn er búin til ein ný lykkja í byrjun umferðarinnar í annarri stærðinni (105 lykkjur á prjóninum), fækkað um eina lykkju í byrjun umferðarinnar í þriðju og fjórðu stærðinni með því að prjóna tvær lykkjur saman (111 (117) lykkjur á prjóninum).

Prjónið síðan 12 (14) 16 (18) umferðir rauðar.

Í síðustu umferðinni eru sett prjónamerki (SP) utan um þrjár lykkjur á hringnum þannig: Prjónið 15 (17) 18 (19) l, SP, prjónið 31 (34) 36 (38) l, SP, prjónið 31 (34) 36 (38) l, SP, klárið umferðina 16 (17) 18 (19) lykkjur.

Úrtaka

Prjónið þar til ein lykkja er eftir að prjónamerkinu. Takið næstu tvær lykkjur fram af prjóninum óprjónaðar, prjónið næstu lykkju og steypið þeim óprjónuðu yfir hana. Þá ætti merkta lykkjan að liggja yfir hinum báðum. Endurtakið við hin tvö prjónamerkin og klárið umferðina. Nú hefur lykkjum fækkað um 6.

Endurtakið úrtöku í annarri hverri umferð x 3 (4) 5 (6) og síðan eftir það í hverri umferð þar til 5 lykkjur eru eftir. Skiptið yfir á sokkaprjóna eða Crazy Trio þegar fer að þrengjast á hringprjóninum. Slítið garnið u.þ.b. 20 sm frá, þræðið endann í gegnum lykkjurnar og þrengið að. Þræðið hann aftur í gegnum lykkjurnar og þrengið aftur. Geymið endann til að festa dúskinn á húfuna.

Dúskur

Hægt er að gera dúska á ýmsa vegu og hér er ein aðferð sem felst í því að búa til vöndul sem er festur við húfuna öðrum megin og síðan klippt út úr honum hinum megin.

Klippið tvo  metra af öllum garntegundunum og leggið þá saman. Vefjið utan um fjóra fingur þar til garnið er búið. Notið endann á húfutoppnum til að festa vöndulinn við húfuna með því að fara þrisvar utan um alla enda hans og í gegnum húfutoppinn. Endið á réttunni og gerið þá lykkju þrisvar utan um vöndulinn sem sameinar þræðina báðum megin við festuna og herðið að, þannig myndast lítill hólkur. Þræðið til baka í gegnum hólkinn og inn á röngu húfunnar og gangið vel frá endanum. Klippið út úr lykkjunum á vöndlinum, styttið og snyrtið endana.

Skolið húfuna í volgu sápuvatni og leggið til þerris.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir