6.1 C
Selfoss

Margar hendur vinna létt verk

Vinsælast

Í aðdraganda kosninga í vor lagði Framsókn í Hveragerði áherslu á velferð fjölskyldunnar og skýra framtíðarsýn við uppbyggingu bæjarins. Áttu þær áherslur samlegð með íbúum í Hveragerði og samstarfsflokki í meirihluta. Meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis hafa nú unnið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ber áætlunin glöggt vitni um áherslumálin.

Áætlunin er unnin í góðu samstarfi við bæjarstjóra, skrifstofustjóra og starfsfólk bæjarins. Eins hafa íbúar bæjarins lagt sitt af mörkum með því að senda inn sínar tillögur við fjárhagsáætlun í gegnum íbúagátt bæjarins. Það skal jafnframt tekið fram að öllum bæjarfulltrúum stóð til boða að taka þátt í þessari vinnu en minnihluti Sjálfstæðismanna hafnaði því boði en fjárhagsætlun hefur verið unnin í góðu samstarfi milli fyrrum minni og meirihluta síðustu 10 ár. Áætlunin hefur nú verið samþykkt.

Aukum tekjur

Það er óumflýjanleg staðreynd að reksturinn er þungur og hafa lán verið tekin fyrir rekstrinum. Þessu vill meirihlutinn breyta. Í áætlun 2023-2026 er markmið meirihlutans að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær. Til þess að mæta þessu markmiði þurfum við öll að sýna ráðdeild í rekstri án þess þó að skerða þjónustu við íbúa. Önnur leið í átt að sjálfbærni er að auka tekjur sveitarfélagsins og þar liggja tækifærin.

Fjölskyldan

Málefni fjölskyldunnar voru efst á baugi við vinnu fjárhagsáætlunar sem er í samræmi við málefnasamning meirihlutans. Á árinu 2023 verður haldið áfram að lækka gjöld fyrir leikskólavist. Haustið 2022 ákvað meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis að bjóða upp á eina fría klukkustund á leikskólum bæjarins og haustið 2023 er gert ráð fyrir að gjaldfrjálsar klukkustundir verði orðnar tvær og með því lækka gjöld til foreldra leikskólabarna. Fái 12 mánaða barn ekki pláss á leikskóla verða veittar foreldragreiðslur. Í áætlun er gert ráð fyrir að frístundastyrkur verði hækkaður og lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrks verði í áföngum á kjörtímabilinu. Það er skýr framtíðarsýn í fjárfestingum og ber þar helst að nefna framtíðar íþróttamannvirki Hvergerðinga sem mun rísa árið 2023 og uppbyggingu í leik- og grunnskóla.

Framtíðin

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 3. nóvember að ganga til samninga við KPMG vegna úttektar á rekstri sveitarfélagsins en 10 ár eru liðin síðan sambærileg úttekt fór fram. KPMG hefur veitt faglega ráðgjöf vegna vinnu við fjárhagsáætlunina sem lögð hefur verið fram. Sú vinna heldur áfram og verður 10 ára áætlun kynnt á nýju ári. Þrátt fyrir áskoranir fram undan lítur meirihlutinn björtum augum á framtíðina enda tækifærin fjölmörg. Hveragerðisbær er í örum vexti, fram undan eru metnaðarfull verkefni. Mikilvægt er að huga að framtíðinni, setja markmið svo innviðauppbygging haldist í hendur við fjölgun íbúa.

Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best. Áhersla er lögð á fjölskylduna, stuðning við barnafjölskyldur, hér séu áfram öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gæða íþrótta- og frístundastarf, heilsuefling sé í hávegum höfð og að ferðaþjónustan og menningin haldi áfram að blómstra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
oddviti Framsóknar í Hveragerði og forseti bæjarstjórnar

Nýjar fréttir