0 C
Selfoss

Kirkjan tekur vel á móti þér

Vinsælast

Nú er allt kirkju- og safnaðarstarf Selfosskirkju að taka á sig eðlilega mynd að nýju.  Í haust hefur æskulýðsfulltrúi kirkjunnar, Sjöfn Þórarinsdóttir skipulagt og undirbúið mjög fjölbreytt starf fyrir börn og unglinga. Hefur það skilað góðri þátttöku í æskulýðsstarfið. Þá hafa barna- og unglingakórar kirkjunnar farið vel af stað undir stjórn Edit A.Molnár og Kolbrúnar Berglindar Grétarsdóttur. Haldið var kóranámskeið fyrir byrjendur og fram undan eru mjög krefjandi og áhugaverð verkefni hjá báðum kórunum. Í Kirkjukór Selfoss eru yfir 40 söngvarar og þó nokkuð af nýju fólki, kórinn syngur í öllum messum og öðrum athöfnum í kirkjunni. Þann 10.desember nk. verða sérstakir jólatónleikar með  Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands þar sem allir kórar kirkjunnar koma fram. Verður hér um einstakalega áhugaverðan viðburð að ræða þar sem um 135 manns munu koma fram. Eitt af nýjum verkefnum kóranna og söngstjórans er að standa fyrir opnum söngstundum í kirkjunni þar sem almenningi gefst tækifæri  á að syngja hver með sínu nefi. Skemmtileg nýbreytni sem mælist vel fyrir, góð mæting var í þau tvö skipti sem haldin hafa verið.

Biskup Íslands sr. Agnes Sigurðardóttir ásamt prestunum sr. Arnarldi Bárðarsyni, sr. Gunnari Jóhannssyni, sr. Axel Á. Njarðvík, Edit Molnár organista, Vilhjálmi Eggertssyni meðhjálpara og Birni Inga Gíslasyni, formanni sóknarnefndar.

Gestkvæmt í Selfosskirkju

Í vor komu í heimsókn sóknarnefnd, starfsfólk og prestar Keflavíkurkirkju, ásamt mökum, samtals um 45 manns. Var hér um að ræða gagnkvæma heimsókn, en fyrir covid árið 2019 fór sóknarnefnd  Selfosskirkju, prestar, starfsfólk og makar í heimsókn til Keflavíkur. Tilgangurinn með svona heimsóknum er að kynnast fólkinu sem vinnur að málefnum kirkjunnar, skoða aðstæðum og kynnast verklagi. Mjög gefandi og gagnleg samskipti. Í haust kom Biskup Íslands, sr. Agnes Sigurðardóttir í heimsókn ásamt fylgdarliði. Var hér um að ræða svo kallaða vísitasíu þar sem biskup ásamt prófasti, sr. Halldóru Þorvarðardóttur funduðu með sóknarnefnd, skoðuðu aðstæður og tóku þátt í messu safnaðarins. Var öllum kirkjugestum boðið í gúllassúpu eftir messu. Biskup var ánægður með móttökurnar og lýsti yfir ánægju sinni með starfið í Selfosskirkju. Efnt hefur verið til þriðjudagssamveru í kirkjunni þar sem einstaklingar koma og segja sína sögu, skemmtileg og notaleg stund sem mælist vel fyrir.

Heimsókn frá Keflavíkurkirkju.
Sr. Arnaldur Bárðarson prestur ásamt nýjum meðhjápurum, Önnu Margréti Magnúsdóttur og Guðmundi Ármanni Péturssyni.

Ný kirkjugarður í sjónmáli

Núverandi kirkjugarður er óðum að ljúka hlutverki sínu og alveg ljóst að innan ekki margra ára verður nýr kirkjugarður að koma til. Sóknarnefnd hefur þegar vakið athygli bæjaryfirvalda á að undirbúa svæði fyrir nýjan kirkjugarð. Núverandi hluti kirkjugarðsins í Fosslandi var tekin í gagnið 29.júlí 2012, hann gerði  ráð fyrir 884 kistugrafreitum og 332 duftkersgrafreitum. Að meðaltali eru um 50 jarðsetningar á ári sem segir að innan tíu til fimmtán ára  verður núverandi kirkjugarður langt kominn. Að fengnum upplýsingum frá kirkjuverði eru 460 kistugrafreitir og 272 duftkersgrafreitir eftir. Samkvæmt lögum leggur sveitarfélagið til land undir kirkjugarð, vitað er að til skoðunar er samstarf við Flóhrepp um stækkun BiLaugardælakirkjugarðs.

Sr. Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur ásamt sr. Fritz Má Jörgenssyni og sr. Erlu Guðmundsdóttur, prestum í Keflavíkurkirkju.

Velkomin í Selfosskirkju

Það hefur verið ánægjulegt til þess að vita að kirkjusókn í  Selfosskirkju hefur alltaf verið góð og hefð fyrir því í gegnum árin. Afleiðingar af covid höfðu sín áhrif um tíma, en nú eru vonandi betri tímar fram undan. Eins og áður verða messur alla sunnudaga, þrjár messur kl. 11 og ein kvöldmessa. Ég get staðfest að starfsfólk Selfosskirkju, prestar og sóknarnefnd bíður allt fólk velkomið í kirkjuna til að njóta góðrar samverustundar saman.  Gleðilega aðventu.

 Björn Ingi Gíslason, formaður sóknarnefndar

Nýjar fréttir