8.9 C
Selfoss

Bók sem fjallar um það að vera hálf svartur og hálf hvítur

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Eva Dögg Atladóttir

Selfyssingurinn Eva Dögg Atladóttir er að eigin sögn „altmuligmand”. Hún hefur unnið sem leikkona, viðburðastjórnandi, pop-up matreiðslunámskeiðshaldari með Masterchef India keppanda, jóga kennari, Balí og Ayurveda nuddari, unnið með fötluðum, ásamt því að starfa á Bragabátum á Selfossi – og gert þetta allt á einu og sama árinu. Auk þess hefur Eva stundað nám í mannfræði við Háskóla Íslands og lært tölvuforritun í fjarnámi. Hún segist sinna besta starf í heimi sem er vera mamma þriggja ára gamallar stúlku sem heitir Aþena Dröfn.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er að lesa margar bækur: The Book of NakshatrasA Comprehensive Treatise on the 27 Constellationseftir Prash Trivedi en það er mikið bókmenntaverk eftir mikils metinn höfund í heimi stjörnufræðinga. The NakshatrasThe Stars Beyond The Zodiac eftir Komilla Sutton en hún er líka hátt skrifuð í heimi stjörnufræðinniar. Karma & Rebirth in Hindu Astrology eftir K.N. Rao en það er bók um jóga og vedísku fræðin. Yoga, Destiny, and The Wheel of Time er líka eftir K.N. Rao sem fjallar einnig um jóga og örlögin samkvæmt vedískum fræðum. Ég er auk þess með tvær bækur djúpt ofan í töskunni minni en það er Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah sem fjallar um hvernig það sé að vera hálf svartur og hálf hvítur. Frásögn Noah gerist í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar þegar tilvist hans var svo að kalla ólögleg. Svo verð ég að nefna bókina Skuggi ástarinnar eftir kúrdíska rithöfundinn Mehmed Uzun en það verk langar mig að lána vinkonu minni.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Andlegar bókmenntir frá andlegum meisturum, jógum, munkum, heimspekingum og The Bhagavad Gita (en ég safna allskonar tegundum af The Bhagavad Gita). Svo er ég stórhrifin af bókmenntum eftir frjálshugsandi fólk eins og til dæmis Ernesto Che Guevara, Charles Bukowski, Hunter S. Thompson, Jack Kerouac, Allen Ginsberg, William S. Burroughs, Alain de Botton, Yuval Noah Harari, Voltaire, Sylvia Plath, Noam Chomsky, Paul Lafargue og fleiri. Ég elska líka verk íslenskra rithöfunda eins og Gunnars Dal, verk kólumbískra rithöfunda eins og Gabriel García Marquez, japanskra rithöfunda eins og Haruki Murakami, franskra rithöfunda eins og Michel Houellebecq og fleiri.

Varstu alin upp við bóklestur?

Já ég var alin upp við að lesa alfræðiorðabækur og átti CD-rom fyrir börn til að læra alfræðirit. Mér þótti það mjög skemtilegt að læra um dýrin, um náttúruna og um allan heiminn. Mamma og pabbi voru líka dugleg að lesa handa mér Grimms ævintýrin, Astrid Lindgren bækurnar og fleiri ævintýrabækur. Svo var ég dugleg að sanka að mér bókum og var í bókaklúbbi og safnaði fullt af bókum eftir Dr. Seuss, R.L. Stine (Gæsahúðar bækurnar), Marvel comics, DC comics, MAD blöðin, Babysitter’s Club, og Magical School Bus. Ég var um tíma í amerískum grunnskóla og þetta voru vinsælustu bækurnar þar. Svo las ég auðvitað Andrés Önd heima á Íslandi þegar ég kom heim á sumrin.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Það er sko margt. Ég verð alltaf að hafa bók við höndina. Ég les yfirleitt í baði, á ferð, í sófanum, á kaffihúsum, í flugvélum, á ströndinni, uppi í rúmi og ég get fullyrt að bækur eru bara tryggustu vinirnir mínir.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Ég elska japanska rithöfundinn Haruki Murakami mest af öllum. Hann hefur verið algjör listamaður í súrrealískum og postmódernískum bókmenntum og að lesa frásagnir eftir hann er algjört ferðalag út í annan geim.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ein bók sem heitir the Tibetan Book of the Dead vakti óhug minn þegar ég loksins eignaðist hana og öll ljósin slökknuðu um leið og ég opnaði bókina. Það var mjög dularfull stund.

En að lokum Eva, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég myndi yrkja ljóð og semja sjálfsævisögu. En það hefur alltaf verið einn af draumunum mínum: að vera skáld.

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir