7.3 C
Selfoss

Appelsínusnúðar með súkkulaðibitum gegn ofbeldi

Vinsælast

Dagana 25. nóvember til 10. desember stendur yfir alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið, sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum, hófst 25. nóvember og lýkur 10. desember, sá dagur er tileinkaður alþjóðlegum mannréttindum og er jafnframt alþjóðadagur Soroptimista. Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti en roðagylltur litur er einkenni átaksins, #roðagyllumheiminn, #orangetheworld, en hann á að tákna bjartari framtíð.

Soroptimistar eru þær sem standa að baki Sigurhæða, en þær veita konum á Suðurlandi, sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi, áfallameðferð, ráðgjöf og lögfræðiaðstoð án endurgjalds.

Piltarnir í GK Bakarí leggja lóð sín á vogarskálarnar, og þegar blaðamann bar að garði voru þeir önnum kafnir við að kreista og raspa appelsínur í undirbúning styrktarátaksins. „Appelsínugulur er einkennislitur Sigurhæða, og því lá það beint við að dusta rykið af gömlum vin; snúð með appelsínufyllingu og súkkulaðibitum. Snúðarnir verða í boði frá 1. til og með 10. desember og rennur allur ágóði sölunnar til Sigurhæða,“ segir Kjartan.  „Einnig verður hægt að panta poka með 10 eða 20 „mini“-snúðum, sem eru tilvaldir á kaffistofuna eða í sunnudagsbrönsinn“ skýtur Guðmundur að.

En þetta er ekki í fyrsta sinn sem þið leggið málefninu lið? „Nei, við tókum þátt í fyrra og vorum virkilega ánægðir með móttökurnar. Í ár stefnum við enn hærra og vonumst til að sem flest leggi í púkkið.  Margt smátt gerir eitt stórt!“ segir Kjartan.

En eruð þið ekki á haus í jólaundirbúningi strákar? „Jú, við erum að jóla yfir okkur þessar vikurnar. Jólavörurnar eru að tínast í búðina og enska jólakakan marinerar sig í rólegheitum hérna á bakvið. En þó jólin séu fyrst og fremst hátíð gleði og eftirvæntingar þá megum við ekki gleyma því að standa við bakið á fólkinu í kringum okkur og vekja athygli á brýnum málsstað. Birtingarmyndir kynbundins ofbeldis geta verið margskonar, og hvort sem það er líkamlegt, andlegt eða stafrænt er mikilvægt að þolendur slíks ofbeldis geti leitað sér aðstoðar án endurgjalds hér á Suðurlandi.“ segir Guðmundur að lokum.

Átakið stendur til 10. desember og piltarnir benda á að hægt sé að panta mini-snúða með því að senda þeim tölvupóst á póstfangið gkbakari@simnet.is eða senda þeim línu á facebook síðu bakarísins: GK Bakarí og hvetja öll til að kynna sér þá þjónustu sem veitt er á Sigurhæðum á vefsíðu þeirra www.sigurhaedir.is.

Nýjar fréttir