Nýr samráðsvettvangur um þróun ferðaþjónustu sem tengist Gullna hringnum, Gullna hringborðið, hefur tekið til starfa. Fyrsti fundur var haldinn á Þingvöllum
í gestastofunni á Hakinu. Þar komu saman fulltrúar opinberra stofnana sem fara með málefni tengd Gullna hringnum þ.e. fulltrúar frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Umhverfisstofnun, Þingvallaþjóðgarði, Vegagerðinni, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Hrunamannahreppi. Ráðgjafi frá RATA sá um fundarstjórn og leiddi samtal Gullna hringborðsins.
Yfirskrift fundarins var: „Hvernig ætlum við saman að takast á við fyrirsjáanlega fjölgun ferðamanna á Gullna hringnum á næstu árum?“
Flutt voru kynningarerindi sem komu inn á stöðu mála á svæðinu út frá mismunandi sjónarhornum og rætt var um verkefnin framundan. Fjallað var um hlutverk og ábyrgð mismunandi aðila, framtíðarspár um fjölgun ferðamanna sem og skipulag og stjórnun áfangastaða. Einnig var farið yfir áskoranir í viðhaldi og þjónustu á vegum, áskoranir sveitarfélaga, viðhorf gesta og sitthvað fleira.
Samstarfsvilji og jákvæðni var ríkjandi á fundinum. Framundan er áframhaldandi samtal þessara aðila og verður óskað eftir aðkomu fleiri hagaðila, jafnt innan sem utan svæðisins, þegar fram líða stundir.