-5 C
Selfoss

Paella með kjúkling, sjávarfangi og chorizo pylsu

Vinsælast

Ólafur Högni Ólafsson er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég þakka mági mínum honum Jóni Kristjáni Gunnlaugssyni fyrir þessa áskörun og hlakka til að smakka réttinn hans. Ég ætla að halda mig við suðrænar slóðir og fara til Spánar að þessu sinni, en þessi réttur er mjög vinsæll meðal heimafólks og nefnist Paella og samanstendur meðal annars af hrísgrjónum, sjáfarfangi, kjúkling, chorizo pylsu og grænmeti og í mínu tilfelli var þetta ást við fyrstu smökkum. Þessi uppskrift er fyrir c.a. 6 manns og gott að notast við stóra, djúpa pönnu eða pott sem ræður við verkefnið.

Í þessa uppskrift þurfum við:

4  kjúklingabringur
500. gr af rækjum
1 X box af blönduðum sjávarréttablöndu (t.d. frá Sælkerafiski)
5 dl af risotto grjónum
200. gr af Chorizo – pylsa (skorin í bita)
1 stór dós af hökkuðum tómötum c.a  400 – 500 gr.
1 stór laukur (skorinn í bita)
1 paprika rauð eða græn (skorin í bita)
2  kjúklingakraftsteningar (hrærðir út í vatnið)
3  hvítlauksrif söxuð
300 gr. af frosnum grænum baunum
Vatn eftir þörfum (ca. líter)
Ólífuolía, notuð til steikingar
1 sítróna
1 teskeið af Saffran kryddi

Byrjum á að steikja rækjurnar á pönnu með ólífuolíu og passið að þær séu vel hreinsaðar, kryddið (mæli með Marokkóska fiskikryddinu frá kryddhúsinu) og geymið svo í skál

Skerið kjúklingabringurnar í hæfilega bita og steikið á pönnu, ásamt blönduðu sjávarréttunum og kryddið (mæli með Shawarma og Tikka Masala frá Kryddhúsinu). Bætið svo chorizo skorinni pylsunni út í, látið svo í skál og geymið

Því næst steikjum við laukinn, hvítlaukinn, baunirnar og paprikuna á pönnunni og bætum hökkuðum tómötum út í, eftir að grænmetið hefur tekið sig aðeins

Látum svo bringurnar, sjávarréttina og chorizo pylsuna saman við á pönuna, ásamt vatninu og leyfum að malla í 10 – 15 mínútur og látið svo saffran kryddið út í og blandið saman

Blandið grjónunum (ósoðnum) saman við og leyfið þessu svo að malla saman þar til að grjónin eru orðin mjúk og vökvin að mestu upp gufaður.

Að lokum þegar grjónin eru orðin mjúk, þá röðum við rækjunum ofan á og kreistum sítrónuna yfir

Verði ykkur að góðu 😊

Takk aftur fyrir þessa áskorun Jón. Ég ætla að senda boltann yfir til Vestmanneyja, en þar er hress og mikill eyjapeyji sem er margt til lista lagt og er matargerð þar með talin, því fær Sigurjón Vídalín Lýðsson næstu áskorun í röð sunnlenskra matgæðinga.

Nýjar fréttir