7.3 C
Selfoss

Stuttur afmarkaður kafli í bók er eins og að taka matskeið af lýsi

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn séra Arnaldur Bárðarson

Arnaldur Bárðarson er 56 ára Akureyringur. Hann hefur lokið kennaranámi og guðfræðinámi og vígðist sem prestur til Raufarhafnar árið 1996. Hann var prestur á Hálsi í Fnjóskadal og í Glerárkirkju um tíma auk þess að starfa sem prestur hjá norsku kirkjunni í tæp átta ár. Nú starfar Arnaldur sem sóknarprestur í Árborgarprestakalli. Kona hans er séra Ingibjörg Jóhannsdóttir og eiga þau fimm syni og sex barnabörn.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa tvær bækur þessa dagana. Báðar ritaðar af prestum. Önnur er Gústi guðsmaður en þar er rakin ævi þessa þekkta prédikara og guðsmanns sem stóð á götuhornum á Siglufirði og prédikaði yfir vegfarendum. Hann var líka í útgerð og gaf megnið af því sem aflaðist til kristinboðs og hjálparstarfs meðal fátækra barna. Þetta er mikil bók og ítarleg svo sem vænta mátti af séra Sigurði Ægissyni presti og þjóðfræðingi. Hin bókin sem ég er að grípa í er Baráttusaga séra Halldórs Gunnarssonar í Holti. Þar rekur hann sitt áhugaverða lífshlaup og öll þau framfara- og réttlætismál sem hann barðist fyrir á undanförnum áratugum. Virkilega áhugaverð og um leið hvetjandi bók um að fólk standi fast við hugsjónir sínar.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þær bækur sem annars höfða mest til mín í dag eru ýmiskonar sagnfræði og það sem kallast þjóðlegur fróðleikur. Sögur af atburðum, ævi- og örlagasagnir ýmsilegar. Ég hef einkum áhuga á sögu Íslands, staðháttum, mannlífi áður og fyrr og náttúrufari landsins. Móðir mín er iðinn að senda mér bækur eftir ýmsa nútímahöfunda. Stundum les ég þá en oftar en ekki vel ég bækur eftir ýmsa eldri höfunda sem kannski eru minna lesnir. Heiðrekur Guðmundsson til dæmis eða Rósberg Snædal. Það er eitthvað við árin sem eru liðin sem heillar mig meir en akkúrat það sem er í samtímanum. Stundum gríp ég í erlendar spennusögur sem er þó ekki oft. Um jól er föst heft að lesa tvær til þrjár spennusögur svona til slökunar. Nokkuð reglulega gríp ég í ljóðabækur. Þar er í uppáhaldi gömul höfuðskáld, Hallgrímur Pétursson,  Davíð Stefánsson, Matthías Jochumsson. Af yngri skáldum má nefna Gyrði Elíasson og Ísak Harðarson. Ljóð eru oft svo góð til að hvíla hugann. Hugleiða og öðlast nýja sýn.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Það var lesið fyrir mig þegar ég var barn. Þar á ég minningar um biblíusögur og bækur sem hétu Perlur. Mest las móðuramma mín. Sjálfur las ég mikið síðar. Ég sökkti mér í þjóðsögur og ævintýri. Ég á mikið af þjóðsögum og er enn að lesa í þeim reglulega. Ég drakk í mig ritsafn Jóns Trausta og örlagaþætti þeirra Sverris Kristjánssonar og Tómasar Guðmundssonar.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég er ástríðu lesari þegar ég byrja. Ég get yfirleitt ekki lagt frá mér skáldsögu fyrr en ég hef lesið hana. Síðan í dag er hinn stöðugi lestur sem er úr ritum Biblíunnar. Þar er alltaf hægt að grípa niður í eitthvað. Biblían er hafsjór af öllum mannlegum hugsunum tilfinningum og upplifunum. Þess vegna er hún bók bókanna.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Minn uppáhaldshöfundur er Halldór Laxness. Hann segir svo stórbrotnar sögur. Málið svo mikil snilld og húmorinn oft svo hárbeittur og ádeilan. Ég las líka mikið verk Þórbergs Þórðarsonar. Nú er Jón Kalmann Stefánsson í uppáhaldi. Ég hef líka dálæti á verkum Guðmundar Brynjólfssonar kollega mínum.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Bækur ræna mig iðulega svefni. Þegar ég byrja á bók þá á ég oft mjög erfitt með að leggja hana frá mér. Sá vani verður til að ég stundum veigra mér við að lesa nú. Ég verð svo heltekinn af lestrinum að það kemst þá ekkert annað að. Þess vega kýs ég kannski frekar að lesa í dag stutta örlagaþætti og þjóðlegan fróðleik. Skáldverk eru oft svo löng og þá fer svefninn. Stuttur afmarkaður kafli um eitthvað er eins og að taka matskeið af lýsi – hæfilegt. Það er vont að drekka heila flösku!

En að lokum Arnaldur, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ef ég væri að skrifa eitthvað sjálfur til að gefa út myndi ég alveg örugglega skrifa ævisögur. Það er nokkuð sem ég er kannski alltaf að gera í mínu starfi sem prestur. Ég er að skrifa æviágrip fólks. Minningarbrot ástvina um þann sem er verið að kveðja. Mér finnst sögur af lífshlaupi fólks alltaf áhugaverðar. Það er svo ótrúlega margt sem flest fólk hefur séð og upplifað á einni lífsævi. Kannski gæti ég skrifað skáldsögu byggða á lífshlaupi einhvers. En ég held að ég gæti aldrei hins vegar skrifað glæpasögur. Þar hef ég hvorki innsæi né hugarflug til þeirra myrkraverka sem þar eru mikilvæg.

Nýjar fréttir