3.4 C
Selfoss

Stærsta pílumót Selfosssögunnar um helgina

Vinsælast

Á morgun, laugardaginn 19. nóvember, verður fyrsta pílumót Opna Selfoss haldið í Hvíta Húsinu á Selfossi, í samstarfi við Einar Björnssson og Önnu Stellu Eyþórsdóttur. Pílufélag Selfoss sem var stofnað árið 2020 og endurvakið árið 2022 telur um 30 skráða iðkendur. Pílufélagið hefur fengið að æfa í Tíbrá á mánudögum, en í heildina hafa um 50 félagar verið að mæta, sem verður að teljast nokkuð gott, miðað við stuttan lífaldur félagsins.

„Það er gríðarlegur kraftur í iðkendum og við höfum verið að þrýsta á betri aðstöðu því Tíbrá er ekki nógu stór og höfum fengið vilyrði frá Golfskálanum sem við komumst vonandi inn í fljótlega. Á mótinu verða 64 keppendur hvaðanæva af landinu, þ.á.m. núverandi Íslandsmeistari, aðrir margfaldir íslandsmeistarar, landsliðsfólk og landsliðsþjálfarar. Það er gríðarlegur áhugi á pílu á Selfossi og mikil eftirvænting fyrir mótinu.
Vonin er að geta tekið á móti fleiri iðkendum og boðið upp á námskeið fyrir börn og unglinga þegar við komumst í stærra húsnæði,“ segir Sævar Þór Gíslason, iðkandi í Pílufélagi Selfoss.

Húsið opnar kl. 11, mótið hefst kl. 12 og stendur frameftir degi. Mótið er opið og gestum er velkomið að koma og sjá bestu pílara landsins keppa á Selfossi.

Meðlimir Pílufélags Selfoss vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirrra fyrirtækja sem leggja þeim lið til að gera mótið að veruleika en það eru Guinnes, Tools.is, Reykjafell, Fagform, Lagsarnir byggingaverktakar, Pro-Garðar, Skalli, Raflagnaþjónusta Selfoss, Húsasmiðjan og Vélsmiðja Suðurlands.

Nýjar fréttir