9.5 C
Selfoss

„Hlustendurnir hvetja mig áfram“

Vinsælast

Kristján Albert Jóhannesson hefur tekið við þættinum Lífið er ljúft sem er á dagskrá öll föstudagskvöld á Útvarpi Suðurland. Kristján hefur verið búsettur á Selfossi í rúm 8 ár, er fæddur og uppalinn á Akureyri og hefur komið víða við á sínum starfsferli. Kristján er, fyrir utan útvarpsmennskuna hættur að vinna en sökkvir sér þess þá heldur í tónlist sem nýtist honum í útvarpinu.

Safn Kristjáns hleypur á um 2500 geisladiskum og um 600-700 vínylplötum sem hann hlustar mikið á og finnur sér efni í þættina, þó að óskalögin spili stóran þátt í þættinum. „Við hjónin keyptum okkur húsbíl árið 2007, eitt haustkvöld fórum við í útilegu í Hveragerði í alveg geysilega fallegu veðri. Við vorum eini bíllinn á svæðinu, nutum þess að vera út af fyrir okkur. Við fengum okkur kvöldmat og kveiktum á Útvarpi Suðurland, Valdimar Bragason var þarna með sína gullrödd. Hann spilaði sína tónlist, alveg listaflotta og okkur leið svo vel. Konan mín fór fljótlega að þreytast og fór afturí með hundinn okkar en ég sat frammi og átti yndislega stund á meðan ég hlustaði á Valda og hroturnar í þeim og horfði upp í heiðan og stjörnubjartan himininn. Þetta var mín fyrsta upplifun af Útvarpi Suðurlands, í kjölfarið hlustuðum við alltaf á Útvarp Suðurland á föstudagskvöldum í húsbílnum.“

„Þegar við fluttum á Selfoss fyrir rúmum 8 árum síðan hitti ég Einar Björnsson sem á Útvarp Suðurland ásamt fleiru og ég sagði honum að ég hefði verið áður í útvarpi svolítið og spurði hvort það væri pláss fyrir mig. Hann sagðist ætla að hafa mig á bakvið eyrað. Svolitlu seinna heyrði hann í mér og bauð mér að koma í prufu og hann hefur eiginlega ekkert losnað við mig síðan,“ segir Kristján og hlær.

Allt fyrir vaktina

„Við vorum þrír til að byrja með, skiptum föstudögunum á milli okkar, svo heltist einn úr lestinni og við Valdi skiptumst á annan hvern föstudag. Svo varð úr að Valdi gekk úr skaftinu þannig að ég er búinn að vera með þetta núna á mínum herðum í ákveðinn tíma og ætli þættirnir séu ekki orðnir um eða yfir hundrað sem ég hef verið með núna síðustu þrjú og hálft ár. Ég er mjög ánægður og er ekkert að fara að hætta. Þetta er að vísu ansi bindandi. Það hefur komið fyrir að ég hafi verið austur á fjörðum og svo kom fimmtudagur og ég sá mína sæng upp reidda og sgaði bara við konuna að nú þyrfti ég að fara í bæinn. Ég keyrði þá þessa rúmu 400 kílómetra eða hvað það var og stóð mína vakt.“

„Ég hef verið með mikið safn af tónlist og hef verið að velja úr því þegar ég hef verið að velja lög í þáttinn en síðan kynntist ég fyrirbrigði sem kallast Spotify, ég verð að segja, þvílíkt og annað eins snilldar tól. Ég nota plöturnar og diskana ennþá, en það geri ég meira til að finna og fá hugmyndir. Ég hef líka komist að því að það eru ekkert öll lög á þessum streymisveitum og þar kemur safnið mitt inn. Ég er að spila lög sem þú heyrir hvergi annarsstaðar. Vegna þess að það eru allir komnir á streymisveiturnar, það eru kannski um 98% af tónlist á efnisveitunum en hluti af hinum 2% eru til í safninu mínu.“

„Ég hef fengið símhringingar og skilaboð frá fólki sem er að hlusta allstaðar af norðurlöndunum, ja, nema Finnlandi reyndar. Fólk hefur til dæmis hringt í mig frá spænskum bar, sumir úr helgarferðum erlendis sem segjast ekki vilja sleppa úr þætti þó þau væru á ferðalögum víðsvegar um heiminn. Ég er að spila lög frá Íslandi, Englandi og Bandaríkjunum en ég er líka að spila lög frá Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Færeyjum, Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Svo hef ég þrisvar sinnum spilað lög með pólskum listamönnum. Eftir annað skiptið hringdi síminn hjá mér. Þar var kona sem var klökk, hún sagðist hafa búið í 19 ár á Íslandi og að þetta væri í fyrsta skipti sem hún hefði heyrt Pólskt lag í Íslensku útvarpi. Þetta hreyfði við mér. Viðbrögð hlustenda eru svo mikilvæg, ef maður fær engin viðbrögð er þetta bara eins og maður sé að tala við vegginn. En þegar maður fær svona símtöl þá hvetur það mann áfram,“ segir Kristján að endingu.

Nýjar fréttir