-2.8 C
Selfoss

Fjölmennt í útgáfuboði Guðna

Vinsælast

Síðastliðinn laugardag var boðað til veislu í Risinu á Selfossi í tilefni að útkomu bókarinnar Guðni: Flói bernsku minnar. Í bókinni rifjar Guðni Ágústsson upp mannlíf og menningu í flóa bernsku sinnar en bregður auk þess upp nokkrum seinna tíma myndum úr sinni fögru sveit. Bókina ritaði hann í félagi við Guðjón Ragnar Jónasson menntaskólakennara. Fjöldi manna kom víðs vegar að til að samfagna í Risinu með Guðna sem flutti angurværa ræðu enda ekki laust við að hann væri hrærður yfir hve margir mættu í samkvæmið en nærri lætur að um þrjú hundruð manns hafi komið þá þrjá tíma sem samkvæmið stóð yfir. Að endingu fluttu ráðherrarnir, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Dögg Alfreðsdóttir í góðri samvinnu sameiginlega ræðu þar þar sem þau áréttuðu mikilvægi þess að segja söguna.

Guðni er einlægur í frásögnum sínum í bókinni en glettnin er þó aldrei langt undan. Segja má að í bókinni sé að finna einlægar og oft á tíðum gamansamar frásagnir af því þegar sveitin var að byggjast upp, þó má merkja smá söknuð eftir veröld sem var án þess þó að í nokkru sé hallað á nútímann. Altént var nútíminn ríkjandi í samkvæminu þegar Ketill Ágústsson yngri á Brúnastöðum sté á stokk og flutti frumasamin lög sem og nokkur eftir Bubba Morthens sem einmitt er leikinn af Katli yngri í leiksýningunni Níu líf í Borgaleikhúsinu.

Nýjar fréttir