-1.6 C
Selfoss

Stuðmenn fyrstir á Svið

Vinsælast

Síðastliðinn laugardag voru jómfrúartónleikar Sviðsins, nýja tónleikastaðarins í miðbæ Selfoss haldnir þar sem Stuðmenn stigu á stokk ásamt Helga Björnssyni, sem kom inn með stuttum fyrirvara og fórst verkið virkilega vel úr hendi. Helgi fyllti skarð Egils Ólafssonar sem hefur þurft að stíga til hliðar vegna veikinda, en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum greindist Egill nýlega með parkinson-sjúkdóminn. Tónleikarnir voru virkilega flottir og augljóst að mikil ánægja ríkti meðal gesta sem skemmtu sér konunglega. Guðni Ágústsson kynnti Stuðmenn til leiks og þakkaði Þóri Jóhannssyni, eiganda Sviðsins fyrir að færa Sunnlendingum þennan glæsilega tónleikastað.

Helgi Björns stóð sig frábærlega í fyrsta sinn sem Stuðmaður.

„Stuðmenn voru frábærir, Helgi Björns stóð sig bara með prýði að hoppa þarna inn með engum fyrirvara. Það er æðislegt að það sé kominn staður til að halda tónleika fyrir heimafólk og gesti. Ég hlakka mikið til að mæta á fleiri viðburði á Sviðinu, staðurinn býr til góða stemningu og minnir helst á Græna hattinn, sem var uppáhalds tónleikastaðurinn minn áður en Sviðið kom til,“ hafði einn tónleikagestur á orði.

„Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum, Stuðmenn voru geggjaðir og allt gekk eins og vel smurð vél. Við þurftum að kalla út stórskotaliðið en það var Hrekkjavökupartý á Miðbar, stór hópur á Risinu og svo þessir frábæru tónleikar á Sviðinu svo við erum alveg í skýjunum yfir því hvað allt fór vel fram á þessum fyrstu tónleikum. Það sannar sig enn og aftur hvað við erum með frábært teymi á okkar vegum sem lét þetta allt ganga eins vel og raun ber vitni,“ segir Hlynur Friðfinnsson, framkvæmdastjóri á fyrrnefndum stöðum.

Stuðmenn hafa nú rutt brautina fyrir þau sem stíga næst á Sviðið en næsti viðburður Sviðsins er fyrsta uppistand Tvíhöfða á Selfossi, þar á eftir kemur Stuðlabandið, Jólaball þar sem Á móti sól og Papar leika fyrir dansi og tónleikarnir Jól og næs með Jónasi Sig, Röggu Gísla, Hildi Völu, Jóni Ólafs og Ingibjörgu Turchi.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir fyrir Sviðið.

Nýjar fréttir