0 C
Selfoss

Takk fyrir okkur

Vinsælast

Eftir skemmtilegan og viðburðaríkan Bleikan október, langar okkur í Krabbameinsfélagi Árnessýslu að senda ykkur öllum bestu þakkir fyrir þátttökuna og ykkar framlag til starfsemi félagsins og málstaðarins.

Við höfum á undanförnum árum unnið ötult starf í þágu krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Þjónustan er sífellt að eflast og styrkjast með aðkomu frábærra félaga sem láta sig málefnið varða.

Í október hefur félagið boðið uppá fjölbreytta fyrirlestra og námskeið sem hafa staðið félagsmönnum til boða, þeim að kostnaðarlausu. Félagið lagði sig fram við að skreyta umhverfið bleikt og fjölmörg fyrirtæki og stofnanir tóku virkan þátt í því. Bæði með því að skreyta sitt umhverfi, efna til bleikra viðburða og prýða glugga sína með Bleiku slaufu límmiðanum. Fagform hefur séð um prentun á límmiðunum og veitt félaginu ómetanlegan styrk í því verkefni.
Bleika boðið var haldið þann 21.október s.l og kom þar saman gríðarlegur fjöldi fólks sem átti ógleymanlegt kvöld saman. Dagskrá kvöldsins var skemmtileg og gáfu allir sem komu að Bleika boðinu, vinnu sína í þágu félagsins og málstaðarins. Hótel Selfoss hýsti viðburðinn nú í þriðja sinn og styrkti félagið ríkulega bæði með afnot af salnum, einstöku starfsfólki og helmingshluta af innkomu drykkjarsölu. Garri gaf allan mat sem var í boði og sá til þess að enginn fór svangur heim. Bleika boðið er stærsti fjáröflunar viðburður félagsins og felst fjáröflunin í sölu happdrættismiða þar sem til mikils er að vinna. Fjölmörg fyrirtæki í Árnessýslu og víðar gáfu glæsilegar gjafir sem dregnar voru út í happdrættinu auk þess sem margir listamenn gáfu listaverk sem ýmist voru í happdrættisvinning eða boðin upp. Gallerí Listasel hefur síðustu tvö ár verið í ómetanlegu samstarfi við félagið og séð um uppboð í október á glæsilegu listaverki þar sem allur ágóði rennur til félagsins. Í ár var það verkið Óvænt birtuskil færast yfir, sem var gjöf listakonunnar Soffíu Sæmundsdóttir til félagsins.

Krabbameinsfélag Árnessýslu er þakklátt fyrir samhuginn og samstöðuna sem málefninu er sýndur á svo fjölbreyttan hátt. Lobbýið hárgreiðslustofa hefur nú í þrígang efnt til góðgerðardags þar sem starfsfólk stofunnar gefur alla vinnu sína og innkomu til starfsemi félagsins og ríkir ávallt einstök gleði á góðgerðardeginum.

Fyrir tveimur árum flutti félagið starfsemi sína á Eyraveg 31. Markmiðið var að gera félagið sýnilegra, aðgengilegra og bjóða uppá fjölbreyttari þjónustu. Því markmiði hefur verið náð með einstökum hætti, starfsemin hefur eflst og reynist mörgum gríðarlegur stuðningur. Það skiptir okkur máli að vera til staðar og bjóða uppá stuðning og þjónustu í heimabyggð, bæði til að styrkja félagslega þætti og draga úr streitunni sem felst í að sækja þjónustu yfir fjallveginn.

Krabbameinsfélag Árnessýslu er eitt af öflugum aðildarfélögum krabbameinsfélags Íslands og nýtur bæði stuðnings og ráðgjafar þaðan.

Þegar einu markmiði er náð þá eru sett nýtt markmið og mun Krabbameinsfélag Árnessýslu áfram stuðla að fjölbreyttri þjónustu sem miðar að andlegum og félagslegum stuðningi við krabbameinsgreinda og aðstadendur þeirra.

Við erum öflugri þegar við stöndum saman!

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu er samfélaginu í heild sendar bestu þakkir fyrir þátttökuna og ómetanlegan stuðning.

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.  

Nýjar fréttir