6 C
Selfoss

Alþjóðadagur iðjuþjálfunar

Vinsælast

Þann 27. október sl. var alþjóðadagur iðjuþjálfunar. Fyrsti starfandi iðjuþjálfinn á Íslandi hóf störf á Kleppsspítala árið 1945 og síðan þá hefur iðjuþjálfun á Íslandi verið í vexti. Í fyrstu voru iðjuþjálfarnir fáir og ekki var hægt að sækja sér menntunina hérlendis. Iðjuþjálfafélag Íslands var stofnað árið 1976 og lengi vel var það eitt helsta baráttumál félagsins að koma upp námi í iðjuþjálfun á Íslandi. Árið 1997 var námi til BSc gráðu í iðjuþjálfunarfræðum komið á laggirnar við Háskólann á Akureyri og síðan þá hefur fjölgun iðjuþjálfa á Íslandi verið mun örari.

Flestir hafa heyrt af iðjuþjálfun en vita oft ekki nákvæmlega hvað felst í þjónustu iðjuþjálfa. Svo hvað er iðja og hvað er iðjuþjálfun?  Iðja er allt það sem fólk tekur sér fyrir hendur til að annast sig og sína, njóta lífsins og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Iðja er því t.d. vinna, að stunda áhugamál, elda mat, keyra bíl, klæða sig, versla o.fl. Iðja fólks endurspeglar sjálfsmynd þess og gegnir hlutverki í því að átta sig á eigin markmiðum og gildismati. Allt sem á einhvern hátt minnkar möguleika einstaklingsins til að framkvæma þá iðju sem annað hvort er nauðsynleg eða veitir gleði og hamingju getur því haft skaðleg áhrif á heilsu og vellíðan. Iðja og heilsa eru því samofin og hafa víxlverkandi áhrif.

Kjarninn í þjónustu iðjuþjálfa er iðju- og skjólstæðingsmiðuð nálgun og hafa iðjuþjálfar mjög heildstæða sýn á samspil einstaklings, umhverfis og iðju. Þeir horfa eftir því hvort og þá hvernig skerðing einstaklingsins aftrar honum í að framkvæma daglega iðju. Starf iðjuþjálfans er því fólgið í því að vinna með skjólstæðingum sínum að því að efla þátttöku þeirra og færni með heilsu og vellíðan að leiðarljósi og með því valdefla þá, auka sjálfstæði þeirra, lífsfyllingu og trú á eigin getu. Það getur verið gert á ýmsan hátt allt eftir því hvað það er sem veldur því að einstaklingurinn getur ekki framkvæmt ákveðna iðju. Í sumum tilfellum þarf að aðlaga umhverfið, í öðrum veita fræðslu og ráðgjöf, í enn öðrum þarf að aðlaga iðjuna, þ.e.a.s. breyta því hvernig við framkvæmum ákveðin verk og í sumum tilvikum þarf beina færniþjálfun.

Starfsvettvangur iðjuþjálfa er mjög fjölbreyttur og sem dæmi má nefna vinna iðjuþjálfar á leikskólum, sjúkrahúsum, endurhæfingarstofnunum, grunnskólum, hjúkrunar- og dvalarheimilum, dagþjálfunum, hjálpartækjamiðstöðvum, samtökum og fyrirtækjum í einkarekstri og svona mætti lengi telja. Almennar viðhorfsbreytingar og aukin fagvitund iðjuþjálfa hafa gert það að verkum að þjónustan er alltaf að færast meira yfir í nærumhverfi fólks og iðjuþjálfar eru orðnir virkari þátttakendur í teymsivinnu þar sem þjónustuþegar eru í lykilhlutverki og þeirra þarfir, vonir og væntingar stýra þjónustunni.

Yfirskrift alþjóðadags iðjuþjálfunar 2022 er ,,Tækifæri + val = réttlæti,,. Við iðjuþjálfar á suðurlandi hvetjum þig því, kæri lesandi, til þess að velta því fyrir þér hvort þú og/eða fólkið í þínu nærumhverfi búið við iðjuréttlæti, þ.e.a.s. fá allir tækifæri og val til þess að sinna þeirri iðju sem þeir þurfa og langar til að sinna, eða er t.d. eitthvað í umhverfinu okkar sem hindrar þátttöku ákveðins hóps/einstaklinga og hvað getum við gert til að breyta því?

Iðjuþjálfar á Suðurlandi

Nýjar fréttir