1.9 C
Selfoss

Leikskólabörn vilja úrbætur á gangbrautarmerkingum

Vinsælast

Leikskólinn Goðheimar tók á dögunum þátt í verkefninu Göngum í skólann, sem er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Embætti landlæknis, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Heimilis og skóla. Göngum í skólann var sett miðvikudaginn 7. september og lauk formlega miðvikudaginn 5. október. Verkefnið gekk framar öllum vonum í Goðheimum og voru starfsmenn, foreldrar og börn sérlega dugleg að velja sér virkan ferðamáta á leið í og úr leikskóla.

„Við tengdum verkefnið við umferðaröryggi og kláruðu öll börnin á elstu deildinni Umferðarskólann ásamt því að fá aðalvarðstjóra lögreglunnar á Selfossi í heimsókn. Á Göngum í skólann daginn, miðvikudaginn 5. Október, fóru allar deildir leikskólans í skrúðgöngu um nágrenni leikskólans. Yfirskrift skrúðgöngunnar var umferðaröryggi. Börnin á Regnboga (elstu börn leikskólans) gerðu skráningu á umferðaröryggi og var niðurstaðan sú að gangbrautir væru sjaldnast merktar í samræmi við lög og reglugerðir. Gangbrautir eiga að vera merktar með umferðarmerki báðum megin akbrautar og einnig með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut. Hverfið er nýlegt og stendur eflaust til að bæta úr þessu en við viljum gjarnan ýta á eftir því að úrbætur verði gerðar sem fyrst til þess að tryggja öryggi vegfarenda á leið í og úr leikskóla,“ segir Sigríður Björk Marinósdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi leikskóla í Goðheimum.

Nýjar fréttir