11.1 C
Selfoss

Líf og fjör í sveitarfélaginu okkar  

Vinsælast

Bragi Bjarnason.

Það hefur verið líf og fjör í Sveitarfélaginu Árborg það sem af er október. Menningarmánuðurinn, sem nú er haldinn í þrettánda skipti, hefur blómstrað og aldrei fleiri viðburðir verið í boði. Það hefur verið ánægjulegt að hitta svo mörg ykkar á förnum vegi á mörgum þessara skemmtilegu og fróðlegu viðburða. Ég hvet alla íbúa til að kynna sér dagskrána inn á heimasíðu Svf. Árborgar www.arborg.is enda af nægu að taka allt til loka mánaðarins.

Tilraunaboranir og breytt sorphirða

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum framkvæmdaleyfi til Selfossveitna um tilraunaboranir innan Selfoss. Áður hafa verið boraðar sambærilegar holur við Ölfusá sem gáfu vísbendingar um möguleg svæði til vinnslu á heitu vatni. Er þessu verkefni ætlað að fylgja þeim rannsóknum eftir. Um er að ræða svæði fyrir neðan Tryggvaskála, Móaveg og við enda Starmóa.

Sorphirða í sveitarfélaginu mun taka breytingum um næstu áramót þegar ný lög um sorphirðu taka gildi á Íslandi. Árborg mun þá taka upp fjögurra tunnu kerfi sem þýðir að heimili verða með svarta tunnu undir almennt sorp, bláa tunnu undir pappa, græna undir plast og brúna undir lífrænan úrgang. Vinna við nánari útfærslu fyrir heimili og fjölbýli stendur yfir hjá sveitarfélaginu og munu íbúar hafa einhverja valmöguleika, svo sem um stærðir og tvískipta tunnu fyrir pappa og plast. Fyrirhuguð breyting verður kynnt íbúum fljótlega eða um leið og útfærslan liggur fyrir. Samhliða þessum breytingum verða grenndarstöðvar efldar ásamt því að íbúar hafa nú þegar aðgang að frímiðum á gámasvæði sveitarfélagsins í gegnum vefsvæðið Mín Árborg.

Hátt vaxtastig og verðbólga hefur áhrif

Sveitarsjóður fer ekki varhluta af því frekar en fyrirtæki eða heimili að finna fyrir hækkandi vöxtum og verðbólgu. Við kynningu á átta mánaða uppgjöri er aðalsjóður sveitarfélagsins 180 milljónum yfir áætlun sem gerði ráð fyrir 2,1 milljarðs króna halla á því tímabili. Skýrist það að stærstu leyti af auknum fjármagnskostnaði og hækkun útgjalda í fræðslumálum. Það helgast að hluta til af Covid, fyrri hluta ársins og hraðari fjölgun nemenda í leik- og grunnskólum.

Á næstu vikum fer sveitarfélagið í skuldafjárútboð en samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að fá þannig um 1,8 milljarð króna til að klára fjármögnun ársins. Það leynist engum að nú eru ekki heppilegir tímar til að fara í slíkt útboð. Engu að síður er ætlað að sveitarfélaginu bjóðist ágætis kjör á markaði. Þessi staða gerir því miður allar forsendur til fjárhagsáætlunar ársins 2023 erfiðari, en bæjarfulltrúar og starfsmenn vinna nú hörðum höndum að framsetningu slíkrar áætlunnar.

Ég vil nú enda þennan pistil á jákvæðum nótum en Sveitarfélagið Árborg fékk á dögunum endurvottun á jafnlaunakerfinu þar sem fram kom að enginn launamunur er á milli kynja hjá sveitarfélaginu. Þennan góða árangur má þakka endurbættum ferlum við launasetningu, fræðslu og aukinn stuðning til stjórnenda.

Bragi Bjarnason,
formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir