-1.6 C
Selfoss

Syngjum saman

Vinsælast

Söngur og tónlist er stór partur af menningu fólks. Hver þjóð á sinn þjóðsöng, menn taka höndum saman og syngja fyrir fótboltaleiki og aðra stóra íþróttaviðburði, svo ekki sé minnst á að söngur og tónlist er samtvinnaður stórviðburðunum á lífsleiðinni. Skírnir, fermingar, brúðkaup og jarðarfarir yrðu ákaflega tómlegar ef ekki væri tónlist. Það veit hver kórsöngvari hve góð tilfinning það er að syngja í hóp af fólki. En rannsóknir hafa sýnt fram á að mikill ávinningur er fólginn í því að syngja með öðrum.

Eykur vellíðan

Samkvæmt rannsóknum upplifir fólk meiri vellíðan eftir að hafa sungið sjálft, heldur en eftir að hafa hlustað á tónlist eða rætt um jákvæða lífsreynslu. Þegar kemur að kórsöng bætist við sú tilfinning að tilheyra hóp, sem er nauðsynleg okkur mannfólkinu og fæst ekki í apótekinu.

Dregur úr streitu

Þegar við syngjum losnar um endorfín, dópamín og serótónín í líkamanum og það dregur úr streituhormóninu kortisól. Á einföldu máli þá líður okkur betur þegar við syngjum.

Viðheldur minni og dregur úr elliglöpum

Margir kórsöngvarar telja að kórsöngur bæti minni þeirra, og sú skoðun er jafnframt studd af vísindum. Fleiri en ein rannsókn hefur sýnt fram á að hægt er að nota tónlist og söng með góðum árangri sem meðferð við elliglöpum.

Lengir lífið

Þótt ótrúlegt sé þá sýndi rannsókn frá árinu 2008 sem var unnin af Harvard og Yale, fram á að kórsöngur lengir lífið. Samkvæmt rannsókninni var það góður hjartsláttur og gott andlegt ástand sem ýtti undir langlífi þátttakenda, en hvort tveggja er ávinningur af kórsöng. Betri líðan, minni streita, betra minni og lengra líf, það er ekki amalegt. Unglingakór Selfosskirkju ætlar að stuðla að þessu öllu saman með opinni söngstund í kirkjunni sunnudaginn 9. október klukkan 18:00.

Söngvarar af öllum gerðum eru hjartanlega velkomnir; kór-, ein-, sturtu-, og ryksugu-söngvarar, ungir og óreyndir, sem og aldnir og þaulreyndir.

Á efnisskránni eru lög sem margir þekkja, eins og Heyr himna smiður, Stjörnur og sól, og Ég er kominn heim. Inn á milli mun unglingakórinn láta ljós sitt skína og syngja fyrir gesti.

Hlökkum til að sjá þig.

Fréttatilkynning frá Selfosskirkju

Nýjar fréttir