7.3 C
Selfoss

Besti saltfiskrétturinn með beikoni, möndlum, rauðvíni og rósmarín

Ingi Þór Jónsson er Sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Já, ég þakka Lalla fyrir að koma mér í Dagskrána. Fínustu uppskriftir hjá honum í síðustu viku enda villibráðartíminn allsráðandi.

Ég ætla að fara í hina áttina og setja inn uppskrift sem er t.a.m. í uppskriftabók sem Dalla mín gerði fyrir margt löngu og gaf stórfjölskyldunni. Þetta var samansafn af allskonar skemmtilegum uppskriftum, sumar sem hafa fylgt okkur allt frá því að ömmur og langömmur voru að baka og brasa.

Besti saltfiskrétturinn með beikoni, möndlum, rauðvíni og rósmarín

Þessi réttur hefur verið á nokkrum veitingastöðum og var t.a.m. um tíma á matseðli í Rauða Húsinu á Eyrarbakka þegar ég var þar og var mjög vinsæll. Fyrir mér er þetta svona haust eða vetrarréttur.

Lykilatriði er að vera með úrvalshráefni og vanda valið þegar kemur að saltfisknum. Best finnst mér að nota léttsaltaða þorskhnakka eða vel útvatnaðan saltfisk og þá þykku bitana.

Ég hringdi í Óðinn í Fiskbúð Suðurlands sem á mjög góðan fisk í þennan rétt.

7-800 gr. saltfiskur/léttsaltaður þorskhnakki
100 gr. möndluspænir, þurristað á pönnu
4-5 sneiðar af beikoni, skorið smátt
2 meðalstórir laukar, skorið smátt
6-8 hvítlauksrif, söxuð smátt
1 rauð og 1 græn paprika, skornar í sneiðar
1 góð grein af rósmarín, (plokka af stilknum og saxa aðeins)
2-3 dl. rauðvín
2-3 dl. grænmetissoð eða kjúklingasoð
1 dós tómatar
6-8 ferskir tómatar
Ólífuolía
Svartur pipar
Sjávarsalt
Parmesan ef vill
Fersk steinselja

Skerið fiskinn í jafna bita..ca 8 cm, þerrið aðeins, kryddið með svörtum pipar og veltið upp úr hveitiblöndu (2 msk hveiit og 1 msk heilhveit) og steikið í stutta stund á öllum hliðum á vel heitri pönnu með vel af ólífuolíu.

Sósan er eiginlega eins og meðlæti og gott að hafa nóg af henni!

Hitið frekar stóra pönnu, steikið beikon fyrst, síðan lauk og hvítlauk og fljótlega eftir það papriku og rósmarín og steikið án þess að brenna laukinn í 3-4 mínútur.

Bætið rauðvíni og soði út í og látið malla í ca 10 mínútur. Saxið tómatana og ef þeir eru stórir þá má gjarnan taka kjarnann úr, bætið í ásamt tómötum í dós, má líka nota bara ferska tómata ef vill. Maukið möndlurnar í NutriBullet eða matvinnsluvél og setjið saman við.

Látið malla í nokkrar mínútur á vægum hita og smakkið til með salti og pipar.

Ef pannan má fara í ofn þá má raða saltfisknum ofan á sósuna, annars hella sósujukkinu í eldfast mót, fiskinn ofaná og setja í ofn 180-200 í 12-15 mínútur.

Þegar rétturinn er borinn fram má raspa parmesan yfir eða hafa hann sér og síðan fersk söxuð steinselja sett yfir. Með þessu má vera t.d. smjörsoðið smælki eða góð kartöflumús, ferskt salat ef vill en mér finnst það reyndar óþarfi með þessum rétti.

Svo er gott rauðvín að sjálfsögðu frábært með þessum rétti, t.d. bragðmikið Rioja vín, eða Pinot Grigio fyrir þá sem vilja frekar hvítvín.

Mig langar að skora á garðyrkjubóndann, söngbróðurinn og matgæðinginn Hjört Benediktsson en hann hefur á undanförnum árum haldið úti með mjög óreglulegum hætti matarblogginu „Eldum létt“ fyrir lokaðan hóp og oft farið á kostum!

Nýjar fréttir