1.7 C
Selfoss

Auga Solanders á Breiðamerkursandi

Vinsælast

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, opnuðu í síðustu viku rannsóknastöðina Auga Solanders (Solander‘s eye) sem staðsett er á Breiðamerkursandi og mun safna fjölbreyttum upplýsingum um þær breytingar sem verða smám saman á landsvæði sem er nýkomið undan jökli. Rannsóknastöðin er þverfræðilegt verkefni á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði í samvinnu við vísindamenn innan og utan háskólans.

Sænska sendiráðiðið hafði frumkvæði að verkefninu með því að tengja Háskóla Íslands og evrópsku rannsóknarstofnunina The IK Foundation saman en um þessar mundir eru 250 ár liðin síðan Daniel Solander, sænskur náttúrufræðingur og nemandi Carls Linnaeusar, föður flokkunarfræðinnar, kom til Íslands í leiðangri breska náttúrufræðingsins Josephs Banks. Uppsetning rannsóknastöðvarinnar er liður í fjölbreyttum hátíðahöldum sem sendiráðið hefur skipulagt til að minnast þessarar merku ferðar.

Fylgjast m.a. með framvindu gróðurs og dýralífi á svæðinu

Rannsóknarstöðin er sjálfvirk og mun sinna verkefni sínu í 12 mánuði án aðkomu manna. Hún mun safna miklu magni vísindagagna af ólíkum toga frá Breiðamerkursandi, á landsvæði sem hefur nýlega komið undan jökli og er því í mikilli þróun. Svæðið er víðerni, einangrað frá náttúrunnar hendi og áhrif mannsins þar hverfandi. Staðsetning Auga Solanders býður því upp á framúrskarandi aðstæður til að fylgjast grannt með náttúrlegum ferlum úr fjarlægð án þess að hafa teljandi áhrif á virkni þeirra. Rannsóknasvæðið er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og þar með einnig á Heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Auk fjölbreyttra mælitækja sem skrá og vakta ýmsa náttúrufarsþætti inniheldur stöðin myndavélar og hljóðupptökutæki sem gefa m.a. færi á að fylgjast með framvindu gróðurs og dýralífi á svæðinu.

Gögnin sem safnað verður munu veita dýrmæta innsýn inn í þær miklu breytingar sem eru að verða á Breiðamerkursandi í kjölfar hraðrar hopunar Breiðamerkurjökuls. Þau verða gerð aðgengileg öllum áhugasömum og hluti þeirra, ekki síst myndefni, verður aðgengilegur í beinu streymi á vef háskólans. Háskóli Íslands mun hvetja vísindamenn til að nýta gögnin en jafnframt mynda þau grunn að virkri, þverfaglegri vísindamiðlun á þeim breytingum sem eru að verða á jöklum landsins.

Kjarni vísindahópsins innan Háskóla Íslands samanstendur af Benjamin Hennig, prófessor í landfræði, Finni Pálssyni, verkfræðingi og verkefnisstjóra í jöklafræði, Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur, prófessor í vistfræði, Kieran Baxter, nýdoktor við Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, og Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni rannsóknasetursins.

Verkefnið verður jafnframt unnið í samstarfi við fyrrnefnda IK Foundation, Jöklahóp Háskóla Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarð og Veðurstofu Íslands auk ýmissa sérfræðinga hjá Háskóla Íslands og öðrum stofnunum.

Nýjar fréttir