0.6 C
Selfoss

Söfnun og sáning á birkifræi 2022

Vinsælast

Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi er samstarfsverkefni Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og hófst árið 2020. Að baki verkefninu stendur öflugur samstarfshópur fyrirtækja og frjálsra félagasamtaka ásamt stofnununum tveimur. Nú í haust verður enn efnt til söfnunar og sáningar á birkifræi. Til þess að vel takist til er þátttaka almennings lykilatriði.

Nú hafa stjórnvöld sett sér það markmið að við lok ársins 2030 hafi heildarútbreiðsla birkis náð 5% af flatarmáli landsins sem er ríflega þreföldun á núverandi útbreiðslu. Þetta er liður í alþjóðlegu átaki, svokallaðri Bonn-áskorun, um aukna útbreiðslu skóga í þágu náttúrunnar og samfélaga fólks.

Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi hefur ekki eingöngu það markmið að efla útbreiðslu birkis. Reynslan hefur sýnt að þátttaka almennings og skilningur á mikilvægi landbótaaðgerða er lykillinn að árangri. Verkefnið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Ítarlegar upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðunni birkiskogur.is, meðal annars leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að við bæði söfnun á birkifræi og sáningu. Deila má myndum og frásögnum af frætínslu og sáningu á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #birkifræ og nota @birkifræ til að tengja innleggin við samfélagsmiðla verkefnisins.

Nýjar fréttir