8.9 C
Selfoss

Flugvöllur á Suðurlandi

Vinsælast

Kostir og gallar

Í ljósi mikillar umræðu um varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll vaknar umræða um varaflugvöll á Suðurlandi. Einstaklingar í Árborg hafa þannig bent á staðsetningu flugvallar á svæði milli Selfoss og Stokkseyrar. Þá hafa Rangæingar dustað rykinu af hugmyndum um alþjóðaflugvöll á Geitasandi milli Hellu og Hvolsvallar. Víða þar sem ég kem á Suðurlandi er fólk að ræða þessar hugmyndir og því mikilvægt að opna þessa umræðu með okkar besta og reyndasta fólki sem getur svarað þeim spurningum sem brenna á vörum fólks.

Það er eðlilegt að þessi umræða kvikni þegar liggur nokkuð ljóst fyrir að ekki verður byggður flugvöllur í Hvassahrauni vegna nýlegra atburða, jarðskjálfta og 2 eldgos á stuttum tíma á áhrifasvæði fyrirhugaðs flugvallarstæðis.

Af þessu tilefni hefur undirritaður ákveðið að boða til almenns fundar um þessar hugmyndir í Rangárhöllinni á Hellu fimmtudaginn 15. september kl. 20.00. Þar mun Njáll Traust Friðbertsson þingmaður og flugumferðarstjóri ásamt Jóni Herði Jónssyni flugstjóra hjá Icelandair og nefndarmaður í ÖFÍA, Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna frá 2016 og hann er núverandi formaður ÖFÍA ræða kosti og galla flugvallar á Suðurlandi.

Flugmennirnir Valur Stefánsson á Selfossi og Guðni Ragnarsson flugmaður frá Guðnastöðum í Landeyjum verða einnig framsögumenn en þeir hafa látið að sér kveða í umræðunni um flugvöll á Suðurlandi.

Af loknum framsöguerindum verða framsögumenn í pallborði og svara fyrirspurnum fundarmanna um efni fundarins.

Fundurinn verður haldinn kl. 20.00 á sal í Rangárhöllinni á Hellu og gert er ráð fyrir að hann standi í 90 mínútur og ljúki kl. 21.30.

Allt áhugafólk um málefnið er hvatt til að mæta og taka þátt í opinni umræðu um þetta áhugaverða mál og fá svörin við spurningum sem brenna á fólki.

Ásmundur Friðriksson
Fundarboðandi.

 

Nýjar fréttir