13.4 C
Selfoss

Hægeldaðir lambaskankar með kartöflumús

Vinsælast

María Magnúsdóttir er Sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég þakka Önnu Láru vinkonu minni fyrir áskorunina og hér kemur uppskrift frá mér sem hæfir vel fallegu árstíðinni sem nú fer í hönd þegar ró færist yfir heimilið með kertaljósi og notalegri stemmingu.

Hægeldaðir lambaskankar

4 lambaskankar
Smjör til steikingar
1 laukur
4 hvítlauksrif
6 gulrætur
1 askja Flúðasveppir
5 vel rauðir tómatar
3 greinar ferskt rósmarín
Tómatmauk í dós
Maldonsalt
Nýmalaður pipar
1 glas rauðvín
Vatn

Brúnið lambaskankana á öllum hliðum upp úr smjöri á pönnu og kryddið með salti og pipar og setjið í steikarpott með beinið upp(ég nota Le Cruset pottinn minn)

Skerið lauk, hvítlauk, sveppi, gulrætur og rósmarín gróflega niður og léttsteikið og setjið með í pottinn. Saxið tómata smátt og bætið þeim við ásamt tómatmauki og vatni. Punkturinn yfir i-ið er svo að hella rauðvíni yfir dásemdina og láta suðuna koma upp í pottinum á eldavél, setja lokið yfir og inn í 150 heitan ofninn með yfir og undirhita í 4 klst. Þegar um 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum takið þið lokið af pottinum og klárið eldunartímann í ofninum. Til að fullkomna sósuna þá tek ég kjötið úr pottinum og þykki aðeins með dökkum maisena sósujafnara. Set kjötið aftur í pottinn og lokið yfir. Læt standa á meðan ég græja kartöflumúsina sem er ómissandi með þessum rétti.

Kartöflumús

Setjið ca. 1/2 kg vel soðnar gullauga kartöflur í pott, þær eru maukaðar og svo hrærðar með sleif á lágum hita. Bætið smjörklípu og mjólk og kryddið með grófum pipar og fín saxaðri steinselju.

Ég vona að einhver geti nýtt sér uppskriftina mína af þessum dásamlega haustmat. Ég mæli með að þið njótið með rauðvíni frá Rioja, en spánska Tempranillo þrúgan á sérstakega vel við með íslenska lambakjötinu. Að lokum þá tilnefni ég mömmu mína, Guðbjörgu Björgvinsdóttur sem næsta matgæðing því hún er sú sem hefur kennt mér mest og best þegar kemur að list í eldhúsinu.

Takk fyrir mig og njótið.

Nýjar fréttir