-7.1 C
Selfoss

Tveir nemendur úr F.Su fengu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði

Á mánudaginn síðasta tóku fjörutíu framúrskarandi námsmenn við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans. Þeir koma úr 14 framhaldsskólum, hafa skráð sig til náms í nærri 30 mismunandi námsleiðir og tveir þeirra koma úr Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Aldís Elva Róbertsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands vorið 2020 sem semidúx og hlaut verðlaun fyrir frábæran árangur í íslensku og dönsku. Hún lét mikið að sér kveða í félagslífi FSu og náði m.a. góðum árangri í söngkeppni skólans. Þá leikur hún á gítar og sótti m.a. tónlistarnám í lýðháskóla í Danmörku áður en hún innritaði sig í Háskóla Íslands. Áhugi Aldísar á heilbrigðisgeiranum kviknaði við störf á hjúkrunarheimili og hún hefur því innritast í hjúkrunarfræði.

Hólmfríður Arna Steinsdóttir útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands í vor með afar glæsilegum árangri en hún var í handboltaakademíu skólans og lék um leið með handknattleiksliði Selfoss sem komst í deild þeirra bestu í vor. Hún hefur jafnframt sótt bæði dómara- og þjálfaranámskeið í handbolta. Hólmfríði hefur dreymt um að verða tannlæknir síðan hún var lítil stelpa og ætlar að láta þann draum rætast í tannlæknisfræði í Háskóla Íslands.

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands hefur allt frá árinu 2008 veitt styrki til nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. Styrkþegar frá upphafi eru yfir 400.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í vor og hafa þær aldrei verið fleiri. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs var mikill vandi á höndum en ákvað að þessu sinni að veita 40 nýnemum við Háskóla Íslands styrk. Þeir koma sem fyrr segir úr 14 framhaldskólum og í hópi þeirra eru 15 dúxar og semidúxar. Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og heildarupphæð styrkjanna er því 15 milljónir króna.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.

Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands í ár skipa Róbert Haraldsson, prófessor og sviðsstjóri kennslusviðs, sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Fleiri myndbönd