1.1 C
Selfoss

Hjólhýsasvæðið á Laugarvatni

Vinsælast

Sagt er að næstum ómögulegt sé að fá stjórnir sveitarfélaga til að breyta samþykktum sínum. Þegar þær hafa samþykkt eitthvað tvisvar ætti það þá að vera alveg ómögulegt. Skrif þessi breyta því varla, því miður. Það þjónar heldur ekki tilgangi því að þó nokkrir hafa selt eigur sínar á rýmingarsölu, gefið eða hent, illu heilli. En það þarf að skrá sögu endaloka hjólhýsasvæðisins á Laugarvatni  þannig að ekkert sé dregið undan.

Alþingi reynir að bæta gölluð lög. En sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytir ekki vafasömum samþykktum.

Árið 2018 er ráðinn nýr sveitarstjóri í Bláskógabyggð. Haustið 2019 brann hjólhýsi á hjólhýsasvæðinu á Laugarvatni en það tókst að bjarga pallinum. Í maí árið eftir henda gestir á tjaldsvæðinu á Laugarvatni  einhverju í ruslagáminn á svæðinu. Það sást til ferða þeirra og sumir telja að líklegast hafi einnota grilli verið hent. Stranglega er bannað að hafa þarna kolagrill og annan opinn eld en gasgrill. Ekki er vitað um aðra bruna þarna sl. 50 ár. Sveitarstjórinn segir í fjölmiðlum að það kvikni í á svæðinu ár eftir ár. Dálítið orðum aukið? Að vísu kviknaði þarna í tvö ár í röð.

Formaður Samhjóls er boðaður á fund sveitarstjórnar til að ræða brunavarnir. Fundinum er frestað. „Þann 2. september 2020 er haldinn fundur um hjólhýsasvæðið. Fundinn sátu sveitarstjórn, sveitarstjóri, slökkviliðsstjóri Árnessýslu, lögregla, byggingarfulltrúi, sviðsstjóri, staðarhaldarar og formaður Samhjóls.

Þann 17. september 2020 tekur sveitarstjórn Bláskógabyggðar ákvörðun um að loka hjólhýsasvæðinu vegna brunahættu.

Samhjól gerir sveitarfélaginu tilboð í byrjun október 2020 um að kosta og framkvæma allt sem til þarf til að koma í veg fyrir brunahættuna.
Í kjölfarið eru margir fundir og ýmislegt borið á borð fyrir okkur sem hamlar því að sveitarfélagið geti gengið til samninga við Samhjól, t.d byggingarreglugerð 112/2012 og að það skorti lagaheimild fyrir hjólhýsasvæðum á Íslandi. Við fundum lausnir á því en þá voru bornar fram nýjar ástæður.“ Þessu tilboði var hvorkii svarað né hafnað formlega svo að við töldum það vera í athugun. Lögmaður sveitarfélagsins, sem sumarið 2021 fór í samkeppni um rekstur hjólhýsasvæðis sagði síðar að það ætti að lesa það milli línanna.

Ef ekki eru til lög um hjólhýsasvæði og þess vegna séu þau ólögleg, og að svæðið á Laugarvatni verði rýmt þess vegna, stenst ekki lög.  Það er grundvallarregla að sé eitthvað ekki bannað með lögum er það leyfilegt. Að tilstuðlan formanns Samhjóls var samin og gefin út reglugerð um hjólhýsasvæði á Íslandi. Hana vantar ekki lengur.

Nokkur  umræða var um málið í fjölmiðlum og sveitarstjóri segir að það sé þó komið til móts við leigjendur á svæðinu  með því að ekki þurfi að rýma svæðið fyrr en í lok ársins 2022. Orð skulu standa. Á þessu loforði byggja leigjendur lóða tregðu sína á að fjarlægja eigur sínar. Nokkru síðar neitar hann að hafa sagt það. Eftir áramót fá leigjendurnir bréf frá sveitarstjóra um að sveitarstjórn hafi fengið umboð rekstraraðilja til að tilkynna að samningur verði ekki endurnýjaður og rýma þurfi leigusvæði áður en samningur rennur út. Við vonuðum að þessi tvö ár dygðu til  að leiða sveitarstjórn á skynsamlega braut.

Opnað var hjólhýsasvæði í Úthlíð vorið 2021, og átti eigandi 50 prósenta í Úthlíð einnig þriðjung í Lögmönnum Suðurlandi sem eru lögfræðilegir ráðgjafar sveitarstjórnar í þessu máli. Sveitarstjóri segir þá að ekki sé eðlilegt að sveitarfélag sé í samkeppni við einkaaðila í rekstri. Það er samt alþekkt að sveitarfélög eru í samkeppni við ýmsa landeigendur um nýtingu lands, t.d. til íbúðabyggðar, og sveiitarfélagið er ekki í reskstri hjólhýsasvæðisins heldur leigir landið til Fýlsins ehf sem rekur þetta svæði.

Sveitarstjóri  segir að ekki sé til deiliskipulag fyrir svæðið með hjólhýsabyggðinni. Til þess að hægt sé að gera deiliskipulag um hjólhýsabyggðina þurfi að rýma svæðið. Það er sem sagt ekki lengur óeðlilegt að sveitarfélag sé í samkeppni við einkaaðila. En hjólhýsasvæðið er á deiliskipulagi og gerð var nákvæm teikning af svæðinu fyrir nokkrum árum. Stundum er deiliskipulag yfir svæði samþykkt eins og svæðið er. Þess teikning hefði ugglaust fengist keypt. Hvorki lög né reglugerðir krefjast þess að svæði sé rýmt áður en deiliskipulag er gert.

Eftir óvænta og fyrirvaralausa samþykkt sveitarstjórnar haustið 2020 um að loka hjólhýsasvæðinu vegna þess að sveitarstjórn ætlaði ekki að leggja út í kostnað við brunavarnir á svæðinu sögðust hjólhýsaeigendur tilbúnir að greiða þann kostnað. Þessu tilboði var aldrei hafnað, Allnokkru fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022 óskaði formaður félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni eftir mati sveitarstjórnar á kostnaði við að gera svæðið þannig úr garði að það teldist viðunandi. Matið var 50 -60 milljónir króna. Leigjendur voru tilbúnir að greiða það gegn því að svæðið yrði starfrækt a.m.k. í 10 ár, enda framlag þeirra hátt í hálfa milljón á hvert stæði.  Sveitarstjórn ákvað að fresta ákvörðun um það fram yfir kosningar.

Ný sveitarstjórn endurræður sveitarstjórann og  samþykkir að hjólhúsasvæðinu verði lokað. Sveitarstjóri stagast á að sveitarstjórn taki ekki í mál að greiða kostnað við hjólhýsasvæðið (eins og hann viti ekki vel að hjólhýsaeigendur ætlast ekki til þess). Það sé ekki aðgengilegt að afhenda ákveðnum hópi aðgang að takmörkuðum gæðum. Rýma þurfi svæðið til þess að aðrir komist að. Sem sagt ítrekað að ekki sé óeðlilegt að seitarfélag keppi við fyrirtæki í einkarekstri. Það eru takmörkuð gæði að leigja lóð á góðum stað í sveitarfélagi. Samkvæmt túlkun sveitarstjórans ætti að rýma svoleiðis lóðir til þess að hægt sé afhenda þær öðrum til að byggja þar nýtt hús eða koma einhverju öðru fyrir þar. Þar af leiðandi: Burt með turnana við sundin blá í Reykjavík, óbætt. 

Og ekki voru sömu stæðisleigjendur á svæðinu allan tímann. Lengsti leigutíminn var orðinn 43 ár, en stysti leigutíminn var lítið meira en 43 dagar þegar ákveðið var að loka svæðinu. Það þurfti ekki að þvinga fram endurnýjun. 

Í mörg ár hafa leigjendur á hjólhúsasvæðinu valið og verðlaunað fegurstu lóðina til að hvetja til góðrar umhirðu.  Það er samt ljóst að ýmislegt mátti betur fara. Aldrei hafa sveitarstjórnir gert athugasemdir en 2013 benti stjórn Samhjóls stjórn sveitarfélagsins á að athuga þyrfti með brunavarnir þar. Ekkert var gert i málinu. 

Ef einhverju er ábótavant einhvers staðar að mati stjórnvalda er viðkomandi venjulega bent á það og gefinn kostur á að bæta úr. En ekki í Bláskógabyggð.

Sveitarstjóri talar um brunhættu. Hann talar eins og fólk þurfi bara að fara. Hann segist skilja að fólk sé sárt og leitt og slæmt sé ef störfum fækkar í sveitarfélaginu. Allir halda að fólkið þurfi bara að fara eins og óvelkomnar túnskjátur úr slægju.  Sveitarstjórn virðist aldrei hugsa um að þarna er verðmætum upp á hundruð milljóna í eigu manna sem ekki  er mulið undir breytt í hundruð tonna af fúavörðu spitnarusli, trefjaplasti, járndrasli og rafmagnsdóti.

 Algengt er að ákvörðun sé tekin í panikk og varin með hundalógikk. Ef eitthvað annað liggur að baki hér er óeðlilegt að það hafi ekki þegar komið fram á heiðarlegan hátt. Í því fælist mikill orkusparnaður og enginn þyrfti að berjast við vindmyllur. Það væri  grálynd kímni að fylgjast með formanni Samhjóls eyða tíma, orku og fé án þess að segja orð ef svo væri í pottinn búið. Sveitarstjórn gaf okkur upp áætlaðan kostnað við gera það sem þarf og lét flytja möl á svæðið til að bera í götur. Furðuleg gráglettni að gefa okkur von um framhald og vísa ákvörðun svo til næstu sveitarstjórnar. 

Til þess bær ráðuneyti hafa úrskurðað að sveitarstjórn Bláskógabyggðar sé heimilt að segja upp samningum við hjólhúsaeigendur á Laugarvatni. Okkar tilfinning er að það sé gert bara af því að það sé leyfilegt. Mín persónulega skoðun er, af biturri reynslu, að þessi ákvörðun er andstyggileg og verður ekki jafnað við annað í nútíma íslenskri stjórnmálasögu í eðli sínu en þegar vísitölubinding launa var afnumin 1984 með djöfullegum afleiðingum fyrir mörgþúsund manna, en talsvert færri til óhemjumikillar gleði.

Tilvitnanir innan gæsalappa eru í ummæli Hrafnhildar Bjarnadóttur, formanns Samhjóls við ýmis tækifæri, stundum lesin upp úr fundargerðum félagsins.

Aðalsteinn Geirsson,
leigjandi á hjólhýsasvæði á Laugavatni og kominn af Bláskægingum til margra alda.

Nýjar fréttir