0.6 C
Selfoss

Sumarhátíð sumarhússins og garðsins

Vinsælast

Næsta laugardag verður heljarinnar fögnuður við Múlatorg á milli kl 11 og 17 í tilefni þess að tímaritið Sumarhúsið og garðurinn heldur upp á 30 ára afmæli um þessar mundir. Boðið verður upp á kaffi, vöfflur og pönnukökur í veitingatjaldi á staðnum. „Sumarhátíðin okkar, Stefnumót við Múlatorg er tileinkuð tímamótunum. Við höfum boðið áskrifendum okkar, viðskiptavinum og þjóðinni allri í garðinn að Fossheiði 1 á Selfossi síðustu átta ár. Þar höfum við ætíð verið með einstaklega áhugaverð skemmtilatriði, fræðslu, sýningar og markaðstorg,“ segir Auður I. Ottesen sýningastjóri.

Í ár verður engin undantekning þar á en viðhafnarbragur verður á hátíðinni og á markaðstorginu sem er fullbókað verður hægt að kaupa vandað handverk, listmuni, vörur fyrir sumarhúsið og garðinn ásamt ótalmörgu öðru. Hátíðin í ár verður einstök, með metnaðarfullum tónlistaratriðum og virkilega áhugaverðri fræðslu.

Allt frá tenór til froskasmala

„Sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar er Elmar Gilbertsson, tenórsöngvari. Elmar er með eina fegurstu rödd landsins og ætlar að syngja fyrir gesti í Fossheiðargarðinum. Raftónlistardúettinn Huldumaður og víbrasjón sem þau Hekla Magnúsdóttir og Sindri Freyr Steinsson skipa, spila áhugaverða tónlist á þeramín og gítar. Auk þessa mun Páll Jökull Pétursson ljósmyndari sýna glænýjar myndir úr náttúru Íslands.

Einnig bjóðum við upp á sýningu á exótískum dýrum en froskasmalinn, Amanda MacQuin ætlar að leyfa gestum að skyggnast inn í allsérstakt áhugamál sitt. Goðlingar, afkvæmi Norrænna guða, bjóða seið og lækningajurtir undan rótum Yggdrasils og Páll Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði kemur til með að ræða við gesti um samspil fólks og umhverfis. Fræðsla, kynningar og sýningar á allskyns plöntum setja svip sinn á hátíðina og ásamt svo mörgu öðru,“ segir Auður að lokum.

Nýjar fréttir