Íslandsbanki framlengdi á dögunum styrktarsamning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til eins árs en bankinn hefur verið einn stærsti styrktaraðili deildarinnar um árabil.
„Við erum mjög ánægð með að hafa endurnýjað samninginn við Íslandsbanka en bankinn hefur verið einn traustasti styrktaraðili knattspyrnudeildar undanfarna áratugi. Íslandsbanki hefur einnig verið viðskiptabanki deildarinnar og þar höfum við fengið mjög góða þjónustu,“ segir Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss.
Hann skrifaði undir samninginn fyrir framan ný og glæsileg auglýsingaskilti bankans á JÁVERK-vellinum, ásamt Fannari Karvel, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildarinnar og Adólf Ingva Bragasyni, útibússtjóra Íslandsbanka á Selfossi.
Adólf segir að innan bankans sé mikil ánægja með nýja styrktarsamninginn. „Við viljum halda okkar góða samstarfi áfram, líkt og undanfarna áratugi. Við erum stolt af nýja Íslandsbanka skiltinu okkar á JÁVERK-vellinum. Það eru ungir iðkendur sem prýða skiltið og það nýtur sín vel við félagsheimilið Tíbrá. Íslandsbanki vill styðja við ungt fólk í íþróttum og stuðla að heilbrigðum lífstíl í okkar ástkæra samfélagi,“ segir Adólf.