0 C
Selfoss

Fann ástina á Selfossi eftir ferðalög um allan heim

Vinsælast

Eva Dögg Atladóttir, dóttir Atla Gunnarssonar á Fossi og Kristínar Evu Jansson Sigurðardóttur, sem er gjarnan kölluð Keva, hefur undanfarin misseri staðið fyrir menningarviðburðum í kjallara Bókasafns Árborgar og er sá næsti á dagskrá á morgun, laugardaginn 11. júní, klukkan 11. Eva er með mörg járn í eldinum en hún hefur verið að læra tölvuforritun síðustu tvö og hálft ár og stundaði þar áður nám í mannfræði við Háskóla Íslands. í dag starfar hún við liðveislu, býður upp á Bali- og Ayurveda nudd í Miðgarði, kennir Hatha yoga, er í óðaönn að setja upp vefverslun þar sem hún kemur til með að selja skart og fylgihluti frá Indlandi og er að læra indverska stjörnuspeki. Hún býr á Selfossi ásamt Ívari Bjarka Lárussyni, fangaverði og Aþenu Dröfn, dóttur þeirra.

Ferðalög og ævintýri voru það sem einkenndu æsku Evu, en hún flutti fyrst til Sviss 6 mánaða og hefur síðar búið ásamt fjölskyldu sinni í Þýskalandi, Belgíu, Indlandi og á Íslandi, auk þess að hafa ferðast til fleiri landa en þar má sem dæmi nefna Japan og Bandaríkin.

Eva upplifði því augljóslega heilan helling á sínum uppvaxtarárum og er þakklát fyrir að hafa hlotið þennan mikilvæga menningararf.

Þurfti ekki að leita langt til að finna ástina

Þrátt fyrir flakkið hefur Eva alla ævina haft annan fótinn á Selfossi, en faðir hennar, Atli Gunnarsson, er Selfyssingur í húð og hár, alinn upp á gamla bænum Fossi, þar sem Eva dvaldist öll sumur sem barn og ber sterkar taugar til Selfoss. „Svo fann ég ástina á Selfossi, af öllum stöðum!“ Segir Eva og hlær.

Evu er mikið í mun að láta sér og fólkinu í kringum sig líða vel og hennar frjói hugur verður þess valdandi að oftast tekst vel til.

„Á meðan Covid gekk yfir leiddist mér svo mikið að ég fór ég að hugsa um hvað ég gæti gert til þess að halda áfram að hafa gaman. Núna er ég komin í þannig starf að ég hef meiri frítíma og mig langar ekki að eyða honum öllum í að þrífa heima hjá mér, ég vil frekar búa til eitthvað skemmtilegt fyrir samfélagið og bjóða öllum sem ég þekki útum allan heim að koma hingað, ég þekki ótrúlega mikið af fólki víða um heiminn. Ég á fullt af vinum hér og í Reykjavík sem þekkja líka fólk allstaðar að úr heiminum.“

Suðurland hefur upp á mikið að bjóða

„Selfoss og allt Suðurland er svo efnilegt svæði, Selfoss er eiginlega að breytast úr þorpi í bæ það er fullt af fólki á Suðurlandi með tengsl við fólk erlendis eða erlenda menningarheima og mig langar svo að gera það sem ég get til að færa menningu annarra þjóða til okkar, á Suðurlandið. Það er auðvitað fullt hægt að gera í Reykjavík en mig langar að auðvelda aðgengi fólks að fjölbreyttum menningarheimum, við eigum ekki alltaf að þurfa að fara til Reykjavíkur til að sækja í fjölmenningartengda hluti. Ef ég hugsa til dæmis út frá minni fjölskyldu, þá er ég núna komin með barn og mig langar ekki að eyða einum og hálfum klukkutíma í akstur til og frá Reykjavík til að geta sótt í svona viðburði, ég nenni ekki að eyða tímanum mínum í svoleiðis vitleysu, ég vil bara gera það sem er gaman.“

Opnar fyrir fjölmenninguna á Suðurlandi

Eva fór þá að hugsa um hvað hún gæti gert til að láta hjólin byrja að snúast. „Ég ákvað að fara af stað með þessa fundi því það er svo ótrúlega mikið af áhugaverðu fólki hérna á Suðurlandi sem á tengingar út um allan heim og líka fullt af fólki sem hefur áhuga og þekkingu á öðrum menningarheimum og við þurfum að virkja þau. “

Framvegis ætlar Eva að standa fyrir allavega einum viðburði í mánuði sem verða opnir öllum sem vilja mæta, núna eru þrír viðburðir í sigtinu hjá henni, Hendrikka Waage ætlar til dæmis að vera með „pop-up“ verslun á Suðurlandi fljótlega. Sem dæmi yfir hugmyndir Evu eru tískusýningar, matreiðslunámskeið, „pop-up“ verslanir, dansnámskeið, yoga og allt milli himins og jarðar. Í október kemur vinkona hennar frá Indlandi til landsins sem langar að bjóða upp á námskeið í indverskri, lebanískri og mexíkóskri matargerð, ásamt því að hana langar að bjóða uppá námskeið í ferksri pastagerð svo það stefnir í mikið fjör í haust.

Burt með hatrið

Kærleikur og gleði einkennir lífsgildi Evu. „Í grunninn langar mig með þessu að uppræta rasisma, bara burt með hann, burt með hatrið. Ég vil búa í heimi þar sem öll eru velkomin, burtséð frá því hvernig þau líta út. Eina leiðin til að uppræta rasisma er með fræðslu um menningu og kúltúr annarra þjóða, fordómar eru alltaf byggðir upp á fáfræði og þekkingarleysi svo við þurfum bara að fræða fólk. Ég er búin að auðgast svo í lífinu við það að búa á öllum þessum stöðum. Fólk hefur sagt við mig að ég sé heppin, ég er heppin og ég vil deila því með öðrum, miðla minni reynslu áfram og leyfa öðrum að njóta þess hvað heimurinn er ríkur, við búum í geggjuðum heimi, lets do this!“

Öll velkomin

Eva býður öll velkomin. „Ég vil bara fá til mín fólk sem hefur áhuga á öðrum menningarheimum og vill gera eitthvað skemmtilegt, eins og til dæmis franskt bíókvöld þar sem við borðum osta og drekkum rauðvín, sushigerð, matur og tónlist, möguleikarnir eru endalausir. Núna erum við til dæmis að fá til okkar fullt af fólki frá Úkraínu, flóttamönnum, ég vil kynnast þeirra menningu, þau eru að verða partur af okkar menningu og ég vil að við getum gert eitthvað gott úr þessu, saman. Við búum við fjölmenningu svo afhverju ættum við ekki að njóta þess besta sem allir geta komið með að borðinu?“

Nýjar fréttir