Sunnlendingarnir Bjarni Már Stefánsson sem útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurlands og Gísella Hannesdóttir sem útskrifaðist úr Menntaskólanum að Laugarvatni á dögunum eiga það sameiginlegt að vera Dúxar skóla sinna. Blaðamaður Dagskrárinnar hafði samband við þessa flottu krakka sem voru annarsvegar stödd í Barcelona og hinsvegar á leið til Mexíkó í útskriftarferðir og komst að því að þau eiga sitthvað fleira sameiginlegt en eru samt gerólík, eins og má sjá á svörum þeirra við spurningunum hér að neðan.
Hvernig telur þú að heimsfaraldurinn hafi litað þína framhaldsskólagöngu?
Gísella: Heimsfaraldurinn hafði rosalega mikil áhrif á þessi þrjú ár, ég ætla ekkert að draga úr því. Minn árgangur fékk bara að upplifa eina önn sem var algjörlega laus við takmarkanir og þetta var alveg svolítið erfitt á köflum. En við lærðum líka heilmikið af þessu öllu. Við erum til dæmis orðinn rosalega góð í að verða fyrir vonbrigðum og gera það besta úr erfiðum aðstæðum. Svo held ég að við höfum líka lært að kunna betur að meta það sem við höfum sem ég held að sé mjög jákvætt.
Bjarni: Heimsfaraldurinn gerði skólagönguna mun leiðinlegri án efa en hún kenndi mér margt. Þá sérstaklega hvað varðar samvinnu. Þegar aðgengi að kennurum var takmarkað spjallaði maður við samnemundur til að átta sig betur á námsefninu.
Hvernig er dæmigerður dagur í þínu lífi?
Bjarni: Dæmigerður dagur í lífi mínu í FSu var þannig að ég vaknaði um sjö- eða áttaleytið og fékk mér cheerios og mjólk. Svo fór ég í skólann. Eftir skólann fór ég e.t.v. í gítartíma eða ég nýtti tímann í að slaka á eða þar til ég þurfti að gera mig tilbúinn fyrir fimleikaæfingu. Um fimm- eða sexleytið fór ég á þriggja tíma fimleikaæfingu. Eftir það borðaði ég kvöldmat og kláraði að læra ef ég þurfti þess og fór svo að sofa klukkan 23.
Gísella: Það er eiginlega ekkert sem heitir dæmigerður dagur í mínu lífi, þeir eru allir svo misjafnir! En það er alltaf nóg að gera hjá mér svo ég vakna yfirleitt snemma og nýti tímann minn vel. Svo reyni ég að passa að taka mér pásu reglulega til að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt og eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Mér finnst nefnilega svo mikilvægt að muna að njóta líka.
Hvað gerði þig að dúx?
Gísella: Ætli það hafi ekki bara verið góður kokteill af samviskusemi, metnaði og mjög miklu skipulagi. Ég á það svolítið til að taka að mér endalaust af auka verkefnum svo ég neyðist alltaf til að skipuleggja mig vel til að geta komið öllu í verk. Það var í rauninni aldrei planið að reyna að dúxa, ég gerði bara alltaf mitt besta og uppskar svo eftir því.
Bjarni: Það sem gerði mig að dúx var fyrst og fremst metnaður en líklega smá vottur af einhverri fullkomnunaráráttu. Svo hjálpuðu fimleikaæfingar mér helling því þær gáfu mér tíma til að taka hugann af náminu og „neyddu“ mig í að skipuleggja tímann minn í kringum þær sem gerði það að verkum að ég nýtti tímann minn betur.
Hvað tekur við?
Bjarni: Ég á eftir að ákveða nákvæmlega hvaða nám ég vil stunda og því ætla ég að taka mér ár í pásu frá skólanum. Fyrir áramót ætla ég að vinna og svo ætla ég í lýðháskóla. Þetta gefur mér vonandi tímann sem ég þarf til að ákveða hvað tekur við. En ég veit samt að ég vil stunda eitthvað nám í raungreinum því þar liggur áhuginn minn.
Gísella: Í haust stefni ég á að flytja til Danmerkur og fara í íþróttalýðháskóla. Ég hef ekki ákveðið hvað ég ætla að gera eftir það en það verður eflaust eitthvað skemmtilegt!
Hvað fannst þér skemmtilegast við að vera í framhaldsskóla?
Gísella: Það var svo margt! Mér fannst eiginlega alltaf gaman í skólanum, félagslífið var frábært og ég elskaði að vera í ML kórnum. En ef ég þyrfti að velja eitthvað eitt þá er það líklega að fá að búa á heimavist með öllum vinum mínum.
Bjarni: Það sem mér fannst skemmtilegast við framhaldsskóla var félagsskapurinn og fara á viðburðina sem nemendafélagið hélt.
Sturluð staðreynd um þig?
Bjarni: Ég hef farið til Ísraels og ég skilaði síðasta verkefninu mínu í framhaldsskóla 30 sekúndur í skilafrest.
Gísella: Ég varð einu sinni unglingalandsmótsmeistari í kökuskreytingum.
Hvert er þitt mesta afrek í lífinu?
Gísella: Það að komast heil á húfi í gegnum heimsfaraldur.
Bjarni: Ætli mesta afrekið mitt sé ekki að dúxa. Ég myndi samt frekar segja að afrekið mitt sé vinnan sem fór í það að verða dúx því titillinn sjálfur skiptir ansi litlu máli.
Hvaða bók lastu síðast?
Bjarni: Harry Potter og dauðadjásnin.
Gísella: Í augnablikinu er ég að lesa bókina Fjölskylda fyrir byrjendur eftir Sarah Morgan.
Hver er þinn uppáhalds staður?
Bjarni: Hellisskógur á Selfossi. Frábært að hjóla þar.
Gísella: Ég er nokkuð viss um að það fyrifinnist hvergi betri staður en sveitin heima (algjörlega hlutlaust mat) þó Laugarvatn komist nú nokkuð nálægt því.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður „stór“?
Gísella: Ég er ekki búin að ákveða neitt en ég hef mikinn áhuga á listgreinum, þá sérstaklega tónlist, leiklist og ritlist, svo það væri gaman að gera eitthvað sem tengist því.
Bjarni: Ég er ekki lengur viss hvað ég vil vera þegar ég verð „stór“ en hugmyndirnar mínar hafa verið margar í gegnum tíðina til dæmis listamaður, uppfinningamaður, hvalafræðingur, verkfræðingur og arkítekt.
Hvað getur/hefur þú gert sem kemur fólki á óvart?
Gísella: Ég hef skrifað og leikstýrt leikriti í Borgarleikhúsinu.
Bjarni: Ég get gert afturábakheljar á jörðinni sem kemur kannski þeim á óvart sem vita ekki að ég æfi fimleika.
Hvar sérðu þig eftir 10 ár?
Bjarni: Framtíðin mín er óskrifað blað en ég sé fyrir mer að vera allavega búinn með háskólanám og í einhverri vinnu sem ég hef gaman að, búinn að koma mér ágætlega fyrir einhvers staðar, jafnvel með nýrri fjölskyldu.
Gísella: Ég hef bara ekki hugmynd um það! Ég ætla bara að hafa opinn huga og sjá hvert lífið leiðir mig.