Í liðinni viku var málþing um árangur Sigurhæða á fyrsta starfsári þeirra haldið í hátíðarsal Hótel Selfoss.
Sigurhæðir eru fyrsta samhæfða þjónustan við þolendur kynbundins ofbeldis í sunnlensku nærsamfélagi. Þjónustan var sett á laggirnar á 100 ára afmæli Soroptimistaklúbbsins á Íslandi árið 2021, en Soroptimistaklúbbur Suðurlands er frumkvöðull að verkefninu. Meðlimir klúbbsins þurftu ekki að velta mörgum steinum til að komast að þeirri niðurstöðu að á Suðurlandi væri brýn þörf á þjónustu fyrir þolendur kynbundis ofbeldis, en Soroptimistar eru aldargömul alþjóðleg samtök kvenna sem vinna að jafnrétti, mannréttindum, bættri stöðu kvenna og sjálfbærri þróun í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi.
64 urðu að 101
Á fyrsta starfsári Sigurhæða hafa 101 konur nýtt sér þjónustu þeirra, en áætlun fyrir stofnun gerði ráð fyrir 64 konum, sem sýnir bersýnilega að þörfin var sannarlega til staðar á svæðinu og hafa Sigurhæðir svarað kallinu. Alls hafa 409 viðtöl verið veitt í Sigurhæðum á tímabilinu.
Málþingsstjóri var Elín Björg Jónsdóttir, fyrrverandi formaður BSRB og núverandi formaður Jafnréttissjóðs Íslands.
Jóna Ingvarsdóttir, formaður Soroptimistaklúbbs Suðurlands setti málþingið áður en Eliza Reid forsetafrú flutti ávarp þar sem hún talaði um það viðvarandi vandamál sem kynbundið ofbeldi er, mýtuna um að Ísland sé jafnréttisparadís og kom á framfæri hlýjum þökkum fyrir það óeigingjarna starf sem Sigurhæðir hafa unnið á sínu fyrsta starfsári.
Hafdís Karlsdóttir, verðandi forseti Evrópusambands Soroptimista, Hildur Jónsdótitir, verkefnastjóri Sigurhæða, Elísabet Lorange, meðferðarstýra Sigurhæða og Jóhanna Kristín Jónsdóttir, sálfræðingur áfallameðferðar Sigurhæða tóku allar til máls og sögðu frá því mikilvæga starfi sem annarsvegar Soroptimistaklúbburinn á Íslandi hefur unnið og hinsvegar Sigurhæðir.
Niðurstöðurnar ljúga ekki
Kristín Anna Hjálmarsdóttir kynjafræðingur, sá um ytra mat fyrir Sigurhæðir og það er skemmst að segja frá því að nýting á þjónustunni hafi farið fram úr björtustu vonum allra sem komu að henni á þessu fyrsta starfsári. Frá upphafi hefur starfið verið metnaðarfullt og vel undirbúið með trausta forystu. Einn af fáum veikleikum verkefnisins sem upp var talinn í skýrslunni var hversu lítið úrræðið er því álagið er mikið og hefur aukist.
Samantekt á afleiðingum ofbeldis sem þjónustuþegar Sigurhæða glímdu við sýndu að 85% höfðu glímt við kvíða, 65% við þunglyndi 56% við sjálfsvígshugsanir og 48% höfðu glímt við sjálfskaðandi hegðun.
80% þjónustuþega finna mikinn mun til hins betra
Eftir meðferð hjá Sigurhæðum vildu svo 64% þjónustuþega meina að ferlið hefði styrkt tengsl þeirra við annað fólk og haft jákvæð áhrif á fjölskyldu- eða einkalíf, starf eða nám og 80% sögðust finna jákvæð áhrif á líkamlega og/eða andlega heilsu, aukið sjálfstraust og fundu að ferlið hefði verið valdeflandi fyrir þær.
Á eftir Kristínu fór Þórður Kristinsson jafnréttisfræðari í pontu og ræddi um karlmennsku á strandstað, Mjöll Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Heimilisfriði ræddi um starf með gerendum og Þóra Björnsdóttir, verkefnisstjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum talaði um forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum.
Lokaávarp flutti svo Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra.
Sigurhæðir hafa stimplað sig rækilega inn í sunnlenska stjórnsýslu
Verkefnisstjórn með samstarfsaðilum Sigurhæða fundaði fyrst í desember 2020 og síðan hafa nýir samstrfsaðilar bæst við. Nú eiga fulltrúar eftirfarandi samstarfsaðila sæti í henni auk Soroptimista: Lögregluembættanna á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, sýslumannanna á Suðurlandi og í Vestmannaeyja, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Árborgar, Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (byggðasamlag sjö sveitarfélaga), Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu (byggðasamlag fimm sveitarfélaga), sveitarfélaganna Hornafjarðar og Vestmannaeyja auk Kvennaráðgjafarinnar og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Virkt samstarf er einnig við Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri, Stígamót, Kvennaathvarfið, Drekaslóð og Rótina. Þetta þýðir að öll sveitarfélög á Suðurlandi standa að baki Sigurhæða.
Konur búsettar á Suðurlandi og aðstandendur þeirra geta komið, hringt og pantað viðtöl til að fá stuðning, ráðgjöf og upplýsingar hjá Sigurhæðum, án endurgjalds.