Gunnlaugur Ingimarsson, iðulega kallaður Gulli, lætur verkin tala. Gulli stofnaði Bókabúð Gulla og Pósthúsið í febrúar árið 2018. Seinna buðst honum líka að taka við nytjamarkaðnum á staðnum svo Gulli er nú sem fyrr segir Pósthússtjóri og bókabúðareigandi, ásamt því að sjá um nytjamarkaðinn og veglegu skrifstofuna sína. Gulli hefur búið á Sólheimum síðastliðin fjögur ár, en þar áður bjó hann í Reykjavík og flutti um tíma á Selfoss áður en hann settist að í Grímsnesinu.
Þegar Gulli flutti til Sólheima lét hann reyna á ýmislegt en fann sig ekki á vinnustofunum. Hann segist þar af leiðandi hafa farið að velta því fyrir sér hvað vantaði inn í samfélagið og úr því varð Bókabúð Gulla og Pósthúsið til. „Sólheimar í Grímsnesi er staður með góðum félagsskap og starfsfólki sem veitir þjónustu til þeirra sem þurfa.“ Sólheimar sáu áður um rekstur pósthússins.
Það er bjart framundan að mati Gulla, en Menningarveislan á Sólheimum hefst í júní og er hann viss um að henni fylgi aukinn gestagangur og fleiri viðskiptavinir í flottu búðina hans. „Það þekkja mig náttúrulega allir í sveitinni, út um allt land, ég hef fengið rosalega góðar viðtökur frá öllum, fólk hrósar mér fyrir það hvað búðin sé fín, hvað ég hafi staðið mig.“
Engu er sóað hjá Gulla
Umhverfið í Sólheimum er óviðjafnanlegt og er mikið lagt uppúr endurvinnslu, þess vegna er nytjamarkaðurinn mikið þarfaþing í svona samfélag.
„Allar vörur hérna eru notaðar sem við fáum allstaðar frá. Það er mikið hringt í mig. Þessi búð er mjög þekkt í öllum sveitum út um allt land, besta búðin á Íslandi má nú segja. Ég tek við næstum öllu nema fötum og vídeóspólum, ég er hættur með það. Allir eru velkomnir, dót er velkomið. Svo er bara að tala við mig ef eitthvað kemur uppá í sambandi við búðina eða markaðinn.“ Segir Gulli.
Búðin hans Gulla er opin á milli 9:00-16:00 á virkum dögum og 11:30-16:00 um helgar, en hægt er að hafa samband við Gulla í síma 894-8655 eða á Facebook síðunni Bókabúð Gulla ef fólk vill gefa fallega eða nytsamlega hluti í góðan málstað. Hafa ber í huga að plássið er takmarkað. Allur ágóði af sölunni hjá Gulla rennur í sundlaugarsjóð.
Myndirnar tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður Dagskrárinnar.