9.5 C
Selfoss

Fjölbrautaskóli Suðurlands í fimm skóla úrslit

Vinsælast

Síðastliðinn vetur hafa nemendur í landafræði unnið verkefni þar sem þeir taka fyrir vandamál sem tengist nærumhverfi þeirra og hafinu. Þeir þurfa að rannsaka vandamálið og reyna að finna leiðir til að leysa það eða fjalla um það á gagnrýninn hátt. Mörg frábær verkefni hafa verið unnin á báðum önnum þar sem hannaðar hafa verið heimasíður, gerðar skoðanakannanir, búnir til hlaðvarpsþættir, samdar fréttagreinar og ótal margt annað áhugvert. Nemendum hefur svo gefist tækifæri til að senda verkefni sín í samkeppni sem Landvernd stendur fyrir og kallast Umhverfisfréttafólk. Það er í raun stór samkeppni sem gefur tækifæri á að kynna sér umhverfismál og koma á framfæri til almennings. Verkefnið er rekið í 44 löndum um allann heim.

Á dögunum fór fram verðlaunaafhending fyrir bestu verkefnin og er gaman að segja frá því að Fjölbrautaskóli Suðurlands komst í fimm skóla úrslit. Það voru þau Bjarni Már Stefánsson og Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir sem áttu verkefnið sem komst í úrslit. Það kallast Langreyður í Skötubótinni. Þau rannsökuðu hvað verður um hvali sem reka á land og skrifuðu um það frétt sem birtist í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands, í vetur. Auk þess skrifuðu þau ítarlega greinagerð þar sem þau fjölluðu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig verkefnið þeirra tengist þeim.

Að lokum sigraði þó Tækniskólinn með verkefnið Grænópólý-grænir puttar. Engu að síður er þetta glæsilegur árangur hjá nemendum Fjölbrautaskóla Suðurlands.

FSU/hek/jöz

Nýjar fréttir