8.9 C
Selfoss

Fyrsti þáttur Hugvarpsins er kominn í loftið

Vinsælast

Hugrún geðfræðslufélag er að gefa út hlaðvarp að heitinu Hugvarpið en fyrsti þátturinn var birtur þann 13. maí. Félagið er rekið í sjálfboðaliðastarfi af háskólanemum og snýr öll starfsemi félagsins að því að bæta geðheilsu ungmenna á Íslandi og auka aðgengi að upplýsingum um geðheilsu. Þetta er gert með hóp sjálfboðaliða sem heldur staðlaðan fyrirlestur í öllum framhaldsskólum landsins, auk félagsmiðstöðva. Starfið hefur gengið vel en með Hugvarpinu vonumst við til þess að ná til stærri hóps og auka aðgengi að geðfræðslu.

Nú sem aldrei fyrr er sérlega mikilvægt að hlúa að geðheilsunni, þekkja helstu einkenni geðraskana og vita hvert á að leita ef eitthvað kemur upp. Uppbygging Hugvarpsins svipar til vefsíðunnar okkar, gedfraedsla.is. Á síðunni er fræðsluefnið sett fram með skýrum hætti og á mannamáli. Vefsíðan er á íslensku, ensku og pólsku. Markmið okkar með hlaðvarpinu er að gera þetta fræðsluefni aðgengilegra, þar sem væri hægt að hlusta og læra meira um geðheilbrigði og geðraskanir hvar sem er, hvort sem það er í strætó, ræktinni eða annað.

Hugrún geðfræðslufélag telur geðfræðslu gríðarlega mikilvæga þar sem hún getur aukið vitneskju, dregið úr fordómum, dregið úr alvarleika vandans og auðveldað ungu fólki að leita til einhvers sem þau treysta þegar þau upplifa andlega erfiðleika. Í hlaðvarpinu verður fjallað almennt um geðheilbrigði, geðraskanir og ýmsa áhrifaþætti. Við höfum fengið til liðs við okkur fagaðila úr öllum áttum til að miðla þekkingu sinni áfram. Þáttastjórnendur eru þær Karen Geirsdóttir, fyrrum formaður Hugrúnar, og Þóra Jóhannsdóttir, nýkjörinn formaður Hugrúnar.

Tölum meira um geðheilsu!

Vefsíðu félagsins má finna hér

Nýjar fréttir