11.1 C
Selfoss

Eggjakaka og Ketópönnsur

Vinsælast

Sigríður Hafsteinsdóttir er Sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég þakka Jónheiði kærlega fyrir þessa áskorun, ekki grunaði mig að ég fengi þann heiður að vera matgæðingur vikunnar.

Ég er kannski ekki sú fyrsta sem fólki dettur í hug þegar kemur að girnilegum kræsingum, en ég vissi strax hvaða uppskrift mig langaði að deila með ykkur.

Svo bar til að sem barn dvaldi ég öll sumur í sveit hjá ömmu minni í Vigur í Ísafjarðardjúpi. Þar var nokkuð fastheldinn matseðill, vellingur á þriðjudögum og pizza á föstudögum t.d.

Á fimmtudögum var alltaf eggjakaka. Upprunalega uppskriftin frá ömmu var frekar skemmtileg, 20 æðaregg, (sem eru víst ekki fáanleg á hverju strái), poki af hveiti og hnefi af salti eða álíka nákvæmar mælieiningar, enda uppskrift fyrir rúmlega 20 manns. Ég læt hér fylgja nokkuð raunhæfari uppskrift sem hentaði vel fyrir mína 5 manna fjölskyldu:

Eggjakaka úr Vigur

9 hænuegg
½ kg. hveiti
75 gr. smjörlíki
1½ tsk sykur
½ tsk salt
1 tsk lyftiduft
1 tsk natron
vanilludropar
hafragrautur úr einni könnu (ca. 1 bolli)

Bakað eins og pönnukökur og raðað í stafla.
Skorið í sneiðar eins og kaka og borðað með sykri, þeyttum rjóma og rabarbarasultu.
Nú er ég hins vegar komin á ketóhliðina svo ég læt líka fylgja uppskrift af ketóvænum pönnukökum sem má gjarnan borða í kvöldmatinn með þeyttum rjóma og sykurlausri sultu.

Ketópönnsur – 2 skammtar, eða fyrir einn gráðugan (ca 8 stykki):

4 egg
4 tsk psyllium husk trefjar
4 tsk kókoshveiti
ca. 2 dl möndlumjólk (eða önnur mjólk að eigin vali)
15 gr bráðið smjör
10 gr próteinduft (ég nota collagenduft úr Costco, en það er til allskonar öðruvísi. Má líka sleppa)

Hrærið allt saman í slétt deig og bakið eins og venjulegar pönnukökur. Ef deigið verður of þykkt má bæta við meiri mjólk. Það getur þurft smá þolinmæði við þessar, þær eru lausari í sér en þær hefðbundnu.

Mig langar svo að skora á Ingunni Jóns, ég er viss um að hún lumi á einhverju góðgæti.

Nýjar fréttir