-6.1 C
Selfoss

Ég er þakklát foreldrum mínum fyrir lestraruppeldið

segir lestrarhesturinn Ólafía Guðrún Friðriksdóttir

Ólafía Guðrún Friðriksdóttir er fæddur og uppalinn Selfyssingur sem verður 17 ára á árinu. Hún útskrifaðist úr Vallaskóla á Selfossi fyrir ári síðan og er nú að klára sitt fyrsta námsár á náttúrufræðilínu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Auk námsins vinnur Ólafía í Blómavali á Selfossi um helgar og á sumrin. Hún stefnir á að ljúka stúdentsprófi frá FSu vorið 2024 og fara síðan að öllum líkindum í háskólanám í jarðeðlisfræði.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Eins og er ég að lesa nokkrar bækur. Sú fyrsta er glæpasagan Urðarköttur eftir Ármann Jakobsson en áður hef ég lesið bókina Útlagamorðin eftir sama höfund og fannst mér hún mjög áhugaverð og langaði mig til að lesa meira um persónurnar í henni. Síðan er ég að lesa bókina Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur en sú bók er lokabindi í þríleik eftir hana. Fyrri bækurnar í þeim þríleik hétu Ljónið og Nornin og voru þær mjög skemmtilegar. Að lokum er ég að lesa eina bók í íslenskuáfanga sem ég er nú í, það er bókin Undir Yggdrasileftir Vilborgu Davíðsdóttur. Sú bók er söguleg skáldsaga um persónur á landnámsöldum og má m.a. nefna að aðalpersóna hennar er barnabarn Auðar djúpúðgu Ketilsdóttur sem er mjög áhugavert.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég hef lesið allskonar bækur en myndi þó segja að íslenskar glæpasögur höfði mest til mín eins og er. Mér finnst glæpasögur mjög spennandi og það er einnig ákveðin spenna sem fylgir því að sögurnar gerist á Íslandi. Einnig hef ég mikið verið að lesa dramasögur um unglinga og þá sérstaklega bækur eftir rithöfundinn John Green. Það vekur áhuga minn að lesa bækur um fólk sem er á svipuðum stað í lífinu og ég er sjálf.

Ertu alin upp við lestur?

Frá því að ég man eftir mér hafa foreldrar mínir alltaf lagt mikið upp úr því að ég sé dugleg að lesa. Þegar ég var ung las mamma alltaf fyrir mig áður en ég fór að sofa og þegar ein bók kláraðist var alltaf strax byrjað á nýrri. Það voru allskonar bækur lesnar fyrir mig sem barn en ég hélt sérstaklega upp á bækur eftir Sigrúnu Eldjárn. Þar voru bækurnar Eyja Gullormsins og Forngripasafnið í miklu uppáhaldi. Einnig hef ég alltaf haldið mikið upp á sögurnar um galdramanninn Harry Potter og voru þær lesnar nokkrum sinnum fyrir mig þegar ég var ung. Fljótlega var ég síðan sjálf byrjuð að lesa fyrir svefninn því mikil áhersla var lögð á lestrarkennslu á mínu heimili og ég nærri orðin læs þegar ég hef grunnskólagöngu mína. Ég fór líka oft á sumarlestrarnámskeið á Bókasafni Árborgar sem voru í minningunni mjög skemmtileg. Nú í dag er ég mjög þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa lagt svona mikla áherslu á lestur á heimilinu og tel ég það hafa hjálpað mér mikið við skólagöngu mína.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Á þeim tímum þar sem mikið er að gera í skólanum er ég ekki mikið að lesa mér til gamans heldur aðeins skólabækur. Í fríum er hins vegar alltaf einhver bók á náttborðinu sem ég gríp í og jafnvel margar. Ég tengi lestur góðra bóka sérstaklega mikið við jólin en þau hafa alltaf verið tíminn sem ég hef lesið hvað mest. Ég fékk alltaf fullt af bókum í jólagjöf sem ég las svo í jólafríinu og eru það mjög friðsælar stundir sem mér þykir mjög vænt um.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Það eru nokkrir höfundar sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér og bíð ég alltaf spennt eftir nýjum bókum frá þeim. Sá fyrsti er John Green sem skrifaði m.a. bækurnar Skrifað í stjörnurnar og Leitin að Alösku. Bækur eftir hann hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér en hann skrifar dramasögur um unglinga á framhaldsskólaárum sem höfða mikið til mín. Einnig hefur Hildur Knútsdóttir verið í miklu uppáhaldi en hún skrifaði m.a. bækurnar Vetrarfrí og Vetrarhörkur. Eftir að hafa lesið þessar tvær bækur eftir hana var hún strax orðin ein af mínum uppáhalds rithöfundum því þær fönguðu mig alveg. Svo er ég einnig nýlega byrjuð að lesa bækur eftir glæpasagnahöfundinn Ragnar Jónasson og er hann strax orðinn einn af mínum uppáhalds höfundum. Eins og ég sagði áður höfða íslenskar glæpasögur mikið til mín og eru hans sögur mjög spennandi og vel skrifaðar. Svo eru líka margir aðrir höfundar sem hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér fyrr.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Það hefur einu sinni gerst að bók hefur rænt mig svefni en það var þegar ég las bókina Hvísl Hrafnanna eftir Malene Sølvsten en hún er skáldsaga sem hefur tengingu við norræna goðafræði. Sú bók heltók mig alveg og hef ég oft óskað þess að geta upplifað það aftur að lesa hana í fyrsta skipti.

En að lokum Ólafía, hvernig rithöfundur ert þú?

Ég hef skrifað nokkrar smásögur við skólagöngu mína og hef þá alltaf skrifað sorglegar dramasögur en að einhverri ástæðu finnst mér gaman að skrifa þannig sögur. Þó myndi ég helst vilja skrifa barnabækur ef ég væri rithöfundur. Þar er hægt að láta ímyndunaraflið ráða ferðinni og skrifa allskyns ævintýrasögur. Svo höfðu líka margir rithöfundar mikil áhrif á mig sem barn með bókum sínum því lestur var svo stór partur af mínu lífi á þeim tíma. Það væri gaman að geta haft svipuð áhrif á önnur börn með því að skrifa bækur sem snerta við þeim og hefðu einnig skemmtanagildi

____________________________________________________

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason

Fleiri myndbönd